Íbúar Hveragerðisbæjar afar ánægðir með þjónustu bæjarins
Hveragerðisbær skipar sér í efsta sæti sveitarfélaga þegar spurt er um heildaránægju íbúa með sveitarfélagið sem stað til þess að búa á en niðurstaða þjónustukönnunar sveitarfélaga 2021 var lögð fram á fundi bæjarstjórnar þann 10. febrúar 2022. Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir þannig viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins. Þrátt fyrir að vera í fyrsta sæti er rétt að geta þess að ekki er marktækur tölfræðilegur munur á Hvergerðingum og íbúum þess sveitarfélags sem næst kemur.
Hvergerðingar ávallt með ánægðustu íbúa landsins
Undanfarin ár hafa íbúar Hveragerðisbæjar vermt efstu sæti þessarar könnunar og er ánægjulegt að sjá að bæjarstjórn hefur verið á réttri leið hvað varðar þjónustu við bæjarbúa.
Á árinu 2021 var Hveragerðisbær í efsta sæti eins og áður hefur komið fram þegar lagt er mat á sveitarfélagið sem stað til að búa á og reyndust 92% aðspurðra ánægðir, 3% hvorki né og 5% eru óánægðir. Meðaleinkunnin hækkar úr 4,3 í 4,4 á milli ára hjá Hveragerðisbæ sem sýnir að fáir íbúar ef nokkrir á Íslandi eru ánægðari með sveitarfélagið sitt en Hvergerðingar. Er sérlega ánægjulegt að sjá að ánægja íbúa í Hveragerði eykst á milli ára þrátt fyrir andstreymi af völdum covid sem gefur góðar vísbendingar um gleðiríka framtíð.
Mikil ánægja með einstaka málaflokka
Hveragerðisbær er yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum nema einum, en ljóst er að ánægja með sorphirðu mætti vera betri í bæjarfélaginu. Þar er verk að vinna. Það er afar ánægjulegt að sjá þá miklu ánægju sem ríkir í mörgum málaflokkum eins og til dæmis varðandi þjónustu við eldri borgara þar sem ánægja mælist langt fyrir ofan þau sveitarfélög sem næst koma. Einnig eru íbúar áberandi ánægðari en allir aðrir með umhverfi í nálægð við heimili sitt, ánægja með skipulagsmál er eins og best verður á kosið sem og ánægja með þjónustu þegar á heildina er litið.
Marktækt meiri ánægja með umhverfismál
Í ár keypti Hveragerðisbær aðgang að könnun um umhverfismál og þar eru íbúar Hveragerðisbæjar marktækt ánægðari en íbúar allra annarra sveitarfélaga í öllum þeim málum sem spurt var um. Í þremur spurningum af fimm eru Hvergerðingar ánægðastir allra og í einni spurningu í öðru sæti en erum vel fyrir ofan miðju þegar spurt var um hvernig íbúar töldu Hveragerðisbæ standa sig í að minnka kolefnisspor sveitarfélagsins.
Hvatning til að gera enn betur
Könnun sem þessi gefur góðar vísbendingar um það sem gera mætti betur og er hvetjandi fyrir bæjarfulltrúa í þeim efnum. Bæjarstjórn lítur á þessar frábæru niðurstöður sem hvatningu til að gera enn betur en áður og munu hér eftir sem hingað til leggja sig fram um að íbúum Hveragerðisbæjar séu búin bestu mögulegu skilyrði.
Bæjarstjórn þakkaði íbúum þeirra mikilvæga framlag með þátttöku í könnuninni og beinir því til stjórnenda og nefndarformanna að niðurstöður könnunarinnar verði þar teknar til frekari umfjöllunar og úrvinnslu.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri