Hljómlistafélag Hveragerðis veitir ungum og efnilegum tónlistarmönnum styrki
Hin árlega styrkjahátíð Hljómlistarfélags Hveragerðis var haldin síðastliðinn bóndadag og fór vel fram en þetta var í 12. sinn sem styrkjahátíðin var haldin. Það voru fjórir ungir og efnilegir tónlistarmenn sem fengu styrki í ár en samtals afhentu formennirnir kr. 500.000. Þetta er glæsilegt framtak hjá formönnum Hljómlistarfélagsins að styrkja tónlistarlífið í bænum okkar og færum við þeim þakkir fyrir.
Það hefur vakið athygli að styrkjahátíðin hófst kl. 17:23 en Sævar Helgason kynnir kvöldsins sagði að álit og mat elstu manna segja að fyrst hafi verið sungin nóta í Ölfusi (Ölvesi hinu forna) á Þorra árið 1723. Líklegt má þó telja að þá hafi eldri maður í vestur sveitinni rekið sig í og rekið upp ramakvein. En Formenn Hljómlistarfélags Hveragerðis líta svo á að þetta hafi verið söngur. Því reyna þeir ávallt að heiðra ártalið með því að hefja styrkjahátíðina klukkan 17:23 stundvíslega á Bóndadegi.
Ljósmyndir: Sölvi Ragnarsson og Jóhanna Hjartardóttir