Fara í efni

Heilsuefling fyrir eldri íbúa


Bætt heilsa og betri líðan er eitt mikilvægasta markmiðið sem hver einstaklingur getur stefnt að. Það er dýrmætt að geta viðhaldið getu til sem fjölbreyttustu athafna daglegs lífs eins lengi og nokkur er kostur.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum þann 21. febrúar s.l. að boðið yrði upp á heilsueflandi námskeið fyrir íbúa bæjarfélagsins sem orðnir eru 60 ára og mun námskeiðið standa í 8 vikur.

Markmið verkefnisins er að virkja og hvetja eldra fólk til að byggja upp og viðhalda heilsu sinni með heilsusamlegri næringu, styrktar- og þolþjálfun og andlegri vellíðan. Er þetta námskeið ánægjuleg viðbót við fjölbreytt starf Félags eldri borgara sem er til mikillar fyrirmyndar.

Þátttakendum verður boðið uppá heilsufarsmælingar, fjölbreytt og skemmtileg fræðsluerindi og ýmislegt annað sem styður við ánægjulega ævi og bætt heilsufar.

Verkefnið sem standa mun í 8 vikur felst í eftirfarandi:

  • Heilsufarsmælingum
  • Styrktarþjálfun og þolþjálfun
  • Fræðslufyrirlestrum um næringu, líkamsrækt og andlegt heilbrigði.

Þátttakendur munu hittast með reglubundnum hætti undir leiðsögn Jónínu Benediktsdóttur, íþróttafræðings sem halda mun utan um einstaklingsbundna þjálfun, heilsufarsmælingar og fræðslu til þátttakenda.

Hópurinn mun hafa aðgang að íþróttamannvirkjum bæjarins og er námskeiðið þátttakendum að kostnaðarlausu.

Ávinningur af verkefninu er margþættur en rannsóknir hafa sýnt að skipulögð heilsurækt eldra fólks styrkir einstaklinga til að vera lengur sjálfbjarga heima og um leið að stuðla að meiri hamingju og félagsfærni.

Kynningarfundur um verkefnið verður haldinn í Þorlákssetri húsnæði Félags eldri borgara í Hveragerði föstudaginn 22. febrúar kl. 20:00 - 21:00 og eru allir hvattir til að mæta og kynna sér skemmtilegt námskeið.

(myndinni er nappað af netinu - en hún gæti allt eins verið tekið í Laugasporti)


Síðast breytt: 21. febrúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?