Göngustígur tileinkaður Guðmundi
Hveragerðisbær á því láni að fagna að margir starfsmenn hafa valið bæjarfélagið sem sinn starfsvettvang og fjölmargir hafa unnið hjá bæjarfélaginu í langan tíma. Fáir komast þó með hælana þar sem Guðmundur F. Baldursson hefur tærnar en hann fagnaði þann 1. ágúst 2021 40 ára starfsmæli sínu sem skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar.
Guðmundur hefur verið afar farsæll í starfi og er án vafa einn reynslumesti skipulagsfulltrúi landsins. Það er eitt af meginhlutverkum bæjarstjórna að skipuleggja land og þar er ekki nógsamlega hægt að undirstrika mikilvægi góðra starfsmanna sem leiðbeina bæjarfulltrúum í störfum ásamt því að tryggja samfellu í því starfi á milli kjörtímabila. Guðmundur hefur verið afar farsæll bæði í skipulagsvinnunni og í öllu samstarfi og slíkt ber að þakka.
Guðmundur er einnig mikill áhugamaður um útivist og átti fyrir nokkrum árum hugmyndina að því að mörkuð yrði gönguleið frá goshvernum Grýlu og inn á Árhólma, innst á Vorsabæjarvöllum. Er stígur þessi einn af þeim skemmtilegri í bæjarfélaginu. Stígurinn hlykkjast meðfram hraunbrúninni, framhjá fornminjum, miklu skógræktarsvæði og berjalautum inn í enda á dalnum þar sem við taka gljúfur, fossar, flúðir og heitir lækir. Alls staðar á leiðinni eru tækifæri til að njóta ósnortnar nátturu, leggjast í laut eða tylla sér á stein enda hefur stígurinn notið mikilla vinsælda frá því að hann var lagður.
Starfsmenn bæjarskrifstofu fengu leiðsögn Guðmundar um stíginn nýverið og við það tilefni og að höfðu samráði við bæjarfulltrúa var ákveðið að stígurinn myndi framvegis heita Guðmundarstígur og vera tileinkaður Guðmundi F. Baldurssyni í tilefni af 40 ára starfsafmæli hans. Skilti hafa verið útbúin og sett upp á þremur stöðum við stíginn svo ekki fari á milli mála hver skal halda þegar gengið er eftir Guðmundarstígnum.
Guðmundi er hér með óskað innilega til hamingju með farsælt starf í þessi 40 ár um leið og við samstarfsfélagar á bæjarskrifstofu og í bæjarstjórn þökkum einstakt samstarf.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri