Fara í efni

Gleðilega Blómstrandi daga!

Pétur G. Markan, bæjarstjóri í Hveragerði
Pétur G. Markan, bæjarstjóri í Hveragerði

„Það er eitthvað við það að keyra niður Kambana, bærinn grípur þig“, svaraði ég fyrir stuttu þegar ég var spurður um hvernig starfið í Hveragerði væri, „þar er framúrskarandi fallegt, einstakt lífsgæðahreiður“. Það eru forréttindi að vera bæjarstjóri í slíku samfélagi.

En er nóg að eiga fallegt umhverfi? Eða er lífið saltfiskur, næg vinna? Eða tillífar tilgangur lífsins í geislum menningar og mannlífs? Ég held sjálfur að farsæld bæjarfélaga sé þessi þrenning – þríeinn bæjarkraftur. Það er Hveragerði.

Kvöld eitt fyrir stuttu komu bæjarbúar saman og stækkuðu regnbogann, varðstaða um þau gildi sem við gefum okkur út fyrir, mannhelgi, frelsi og friður. Það er Hveragerði.

Á fimmtudagskvöld spilar Hamar við KÁ á Gríluvellinum. Það er Hveragerði.

Á föstudags eftirmiðdag verða afhend verðlaun fyrir fegursta garðinn í Hveragerði. Það er Hveragerði.

Á laugardeginum verður Kjörísdagurinn. Það er Hveragerði.

Dagskrá Blómstrandi daga er sérstaklega viðamikil og glæsileg, þar eiga allir að geta fundið eitthvað sér til ánægju og yndis. Hátíðin í ár er sú tuttugasta og níunda í röðinni. Þeim sem skipulögðu og þeim sem koma að hátíðarhöldum með vinnu og aðstoð eru færðar góðar þakkir.

Ykkur sem sækið hátíðina verður gaman hitta og deila hátíðinni með yfir helgina.

Bæjarhátíðir eru félagsuppskera samfélaganna, þá hittumst við, gleðjumst og minnum okkur á að þrátt fyrir allskonar erum við frábær saman – einstakt samfélag.

Gleðilega Blómstrandi daga!


Síðast breytt: 15. ágúst 2024
Getum við bætt efni síðunnar?