Fara í efni

Minnkum óflokkaðan heimilisúrgang um 10% á ári

Getur hópur eldhuga fengið heilt bæjarfélag til þess að draga úr óflokkuðum heimilis úrgangi um 10% á einu ári?

 

Það er spurningin sem við spyrjum okkur við upphaf Erasmus+ verkefnisins Crethink / Co-creative re-thinking for sustainable cities, sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga/SASS og Hveragerði taka þátt í.

Markmið verkefnisins er að þjálfa hinn almenna íbúa í að nota „samsköpun“ sem verkfæri við að leysa úr alls kyns flóknum samfélagslegum áskorunum.

Áskorunin sem hópurinn ætlar að einbeita sér að snýr að úrgangsmálum í Hveragerði og hvernig best sé að færa bæjarfélagið í átt að hringrásarhagkerfi með engri sóun eða „zero waste economy“.

Í verkefnahópnum sitja fyrir hönd Hveragerðis þau Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Kolbrún Vilhjálmsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Anton Tómasson auk Ingunnar Jónsdóttur verkefnisstjóra á vegum SASS og Elísabetar Björneyjar Lárusdóttur ráðgjafa í umhverfismálum.

Þrjú önnur lönd taka þátt í verkefninu, Danmörk, Ítalía og Slóvenía og er hvert land að vinna að með ólík viðfangsefni og áskoranir en öll notast þau við sömu aðferðarfræði sem felur í sér að virkja hagsmunaaðila með aðferðum samsköpunar (e. co-creation) og nýta til þess það sem kallað hefur verið „lifandi rannsóknarstofa“ eða living-labs. Nánar má lesa um verkefnið og þátttakendur á síðunni www.crethink.eu og fylgjast með fréttum á https://www.facebook.com/co.creative.re.thinking

Þegar unnið er með hugtakið samsköpun er öll áhersla lögð á að tillögur að lausnum við þeim áskorunum sem unnið er með verði til í opnu og skapandi samtali við alla hagsmunaaðila. Í framhaldi eru þessar lausnir færðar inn í lifandi rannsóknarstofuna þar sem reynt er að fá niðurstöður í það hvort þessar lausnir virki eða ekki.

Eins og áður sagði gengur íslenska áskorunin út á að reyna að finna leiðir til þess að draga úr óflokkuðum heimilis úrgangi í Hveragerði með það sem langtíma markmið að koma bæjarfélaginu eins nálægt hringrásarhagkerfinu og hægt er. Gangi þetta verkefni vel sem og þær leiðir sem verið er að vinna með gæti útkoman jafnframt verið ákveðið skapalón fyrir önnur bæjar- og sveitafélög sem hafa áhuga á að fara í sömu vegferð.

Verkefnið er eins og áður sagði Erasmus + verkefni sem klárast vorið 2022. Eins og gefur að skilja hefur COVID 19 sett sitt strik í reikninginn og ýmsar aðlaganir hafa þurft að eiga sér stað. Það er hins vegar von allra þátttakenda að þrátt fyrir það verði hægt að eiga gott samtal og samstarf við íbúa í Hveragerði um leiðir til þess að vinna okkur í átt að því að samfélag án sóunar.

Ingunn Jónsdóttir
Verkefnastjóri


Síðast breytt: 27. janúar 2021
Getum við bætt efni síðunnar?