Fara í efni

Fyrsta skóflustungan í Kambalandi

Á myndinni má sjá Þröst Helgason taka fyrstu skólfustunguna í Kambalandi með börnunum hans, Hrannari…
Á myndinni má sjá Þröst Helgason taka fyrstu skólfustunguna í Kambalandi með börnunum hans, Hrannari Ara, Hrafni Helga, Guðrúnu Ragnhildi og Arneyju Björk.

Fyrsta skóflustungan í Kambalandi var tekin að einbýlishúsi við Búðahraun fyrir skömmu og markar hún upphafið af nýju 1500 manna hverfi sem mun byggjast þar upp á komandi árum.

Hugmyndina um uppbyggingu íbúðabyggðar í Kambalandi átti athafnamaðurinn Magnús Jónatansson sem keypti upp sumarbústaðalóðir sem voru á svæðinu og gerði í framhaldinu samning við Hveragerðisbæ um þjónustu samhliða uppbyggingu á Kambalandi. Árið 2019 eignaðist Hveragerðisbær lóðirnar, breytti deiliskipulagi á svæðinu og hófust framkvæmdir við fyrstu áfanga í gatnagerð það sama ár.

Skipulag Kambalands hefur tekið miklum breytingum frá fyrstu drögum og er nú gert ráð fyrir 365 íbúðum á 30,4ha svæði. Íbúðasvæðin verða vel afmörkuð og verður þar gott útivistarsvæði og lóðir fyrir leik- og/eða grunnskóla, verslanir og aðra þjónustustarfsemi.

Staðsetning Kambalands, ofar annarri byggð í Hveragerði, gerir að verkum að þaðan er afar fallegt útsýni og stutt í fallegar göngu- og reiðleiðir.

Fyrsta úthlutun lóða fór fram í október síðast liðnum og var þá lóðum undir 52 íbúðir úthlutað. Í dag eru 3 lóðir lausar fyrir einbýlishús og má sjá staðsetningu lóðanna á kortagrunni Hveragerðisbæjar. Lausar lóðir

Á næstu vikum verður auglýst útboð á næstu áföngum gatnagerðar og vonast er til að næsta úthlutun lóða muni geta átt sér stað í sumar. Í þeim áfanga verða 39 íbúðir, 10 einbýlishúsalóðir við Drekahraun, og við Langahraun verður úthlutað lóðum undir 3 þriggja íbúða raðhús og 4 fimm íbúða fjölbýlishús.

Það er ljóst að með upphafi framkvæmda í Kambalandi er hafinn nýr áfangi í uppbyggingu í Hveragerði. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og ljóst að fjölmargir hafa áhuga á búsetu í bæjarfélaginu. Í Hveragerði sameinast nálægðin við höfuðborgarsvæðið, gæði landsbyggðarinnar, einstakt fallegt umhverfi og mjög góð þjónusta við íbúa. Slíkt er eftirsóknarvert.

Aldís Hafseinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 12. febrúar 2020
Getum við bætt efni síðunnar?