Fara í efni

Fyrirlestrar um umhverfismál!

Næstkomandi fimmtudag þann 8 febrúar mun umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar standa fyrir tveimur áhugaverðum fyrirlestrum í grunnskólanum. Þar munu Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur og Arngrímur Sverrisson rekstrarstjóri Gámaþjónustunnar fjalla um umhverfismál frá ýmsum sjónarhornum.

Stefán Gíslason er eigandi ráðgjafafyrirtækisins Environice í Borgarnesi en hann hefur haft ráðgjöf um umhverfismál að aðalstarfi í rúm 19 ár. Undanfarið hefur hann meðal annars aðstoðað sveitarfélög á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands við greiningu á stöðu umhverfismála og helstu valkostum í meðhöndlun úrgangs. Stefán hefur einnig sinnt ráðgjöf um orkumál, loftslagsmál, umhverfisvottanir og íbúasamráð fyrir ráðuneyti, sveitarfélög og opinberar stofnanir. Hann hefur auk þess staðið fyrir fræðslu fyrir almenning um umhverfismál m.a. með reglulegum pistlaskrifum fyrir Ríkisútvarpið, kennslu í háskólum og miðlun umhverfisupplýsinga á netmiðlum.

Í erindi sínu á fimmtudaginn næsta mun Stefán fjalla um stöðu umhverfismála á Suðurlandi og um stöðu Hveragerðisbæjar í samanburði við önnur sveitarfélög á svæðinu. Hann mun einnig koma inn á mikilvægi þess að draga úr sóun auðlinda og hvernig einstakir íbúar geti tekið þátt í þeirri viðleitni. Í því sambandi verður notkun á plasti tekin sem dæmi.

Arngrímum Sverrisson er rekstrarstjóri Gámaþjónustunnar h.f. en fyrirtækið hefur verið í fararbroddi í flokkun og endurvinnslu úrgangs frá því það hóf starfsemi árið 1984. Fyrirtækið og dótturfélög þess sinna sorphirðu víðsvegar um land og þar á meðal í Hveragerði en fyrirtækið tók við sorphirðu í bænum auk þjónustu við gámasvæði bæjarins árið 2014.

Í erindi sínu mun Arngrímur meðal annars fjalla um endurvinnslu úrgangs og flokkun. Hann mun einnig fari yfir stöðu mála varðandi sorphirðu í Hveragerðisbæ. Einnig mun hann fjalla um flokkun lífrænna efna og meðhöndlun þeirra hjá fyrirtækinu.

Umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar hvetur bæjarbúa til að fjölmenna á þessa áhugaverðu fyrirlestra enda um einstakt tækifæri að ræða til að fræðast um umhverfismál í nærumhverfinu og í víðara samhengi. Aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Dagskráin verður sem hér segir

19.00 – 19.45 Stefán Gíslason – umhverfismál á suðurlandi og í víðara samhengi
19.45 – 19.55 spurningar og umræður
19.55 – 20.05 Kaffihlé
20.05 – 20.50 Fulltrúi Gámaþjónustunnar – sorpmál í Hveragerði
20.50 – 21.00 spurningar og umræður

Aðgangur er ókeypis og eru allir hvattir til að mæta á þessa áhugaverðu fyrirlestra!

Umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar


Síðast breytt: 5. febrúar 2018
Getum við bætt efni síðunnar?