Frestun fasteignagjalda fyrirtækja í vanda samþykkt í bæjarstjórn
Á fundi bæjarstjórnar þann 27. mars 2020 var lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra með tillögum í 4 liðum um fyrstu aðgerðir bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft á samfélagið.
Vegna innheimtu fasteignagjalda var eftirfarandi samþykkt samhljóða:
Bæjarstjórn samþykkir að greiðslu fasteignagjalda í mars, apríl, maí og júní hjá einkafyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa COVID-19 verði frestað þannig að þeir gjalddagar komi til greiðslu síðar. Á næstu þremur mánuðum verði metið hvort fresta þurfi gjalddögum enn frekar og einnig verði á þeim tíma ákveðið með hvaða hætti fyrirtækin geta greitt hina frestuðu gjalddaga. Verður fyrirkomulag greiðslunnar ákveðið í samvinnu við hvert og eitt fyrirtæki.
Bæjarstjórn hvetur Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórn til að vinna í sameiningu hratt og vel að gerð þjónustugáttar svo fyrirtækin þurfi einungis að sækja um frestun gjalda á einum stað.
Jafnframt er lagt til að fasteignafélög fái ekki greiðslufrest nema að þau sýni fram á að leigutaki sem orðið hefur fyrir tekjutapi af völdum COVID-19 njóti frestsins með einhverjum hætti.
Útfærsla Hveragerðisbæjar verður með þeim hætti að greiðsluseðlar vegna apríl 2020 verða sendir út með venjubundnum hætti. Einkafyrirtæki sem telja rekstur sinn falla undir þau skilyrði sem hér er um rætt þurfa að sækja um á vefgátt ríkisstjórnarinnar um leið og það stendur til boða og framvísa
Vegna mars gjalddagans þurfa fyrirtæki að hafa samband við bæjarskrifstofu fyrir 10. apríl 2020 með tölvupósti á netfangið heida@hveragerdi.is ef umrædd vefsíða verður ekki orðin aðgengileg fyrir þann tíma.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri