Fara í efni

Framkvæmdir við Suðurlandsveg hefjast á næsta ári.


Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033. Alþingi ályktar, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008, að fram til ársins 2033 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við áætlun þessa sem felur m.a. í sér stefnu í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skal að,

Það er sérlega ánægjulegt að sjá þess merki í áætluninni að áralöng barátta Sunnlendinga fyrir vegbótum á einum hættulegasta vegkafla landsins er að bera árangur. En gert er ráð fyrir endurbótum og aðskilnaði akstursstefna á milli Kamba og Biskupstungnabrautar á fyrsta tímabili samgönguáætlunar.

Samkvæmt því má gera ráð fyrir að vegurinn frá Kömbum að Varmá verði endurbættur og fluttur á tímabilinu 2019-2023. Mun sú framkvæmd kosta 2,5 milljarða króna.

Nýr endurbættur vegur ásamt hliðarvegi á milli Varmár og Biskupstungnabrautar er einnig á fyrsta tímabili eða á árunum 2019-2033. Með þeim áfanga verður komið í veg fyrir stórhættulegar innkeyrslur inn á Suðurlandsveginn sem alltof oft hafa valdið alvarlegum slysum. Einnig verða gerð undirgöng á móts við Eldhesta til að auka öryggi reiðmanna og vegfarenda á þeim kafla.

Hvergerðingar og aðrir þeir sem um þennan veg fara hafa fulla ástæðu til að fagna áformum ráðherra sem vonandi gefa góðar vonir um að fljótlega sjái til stórvirka vinnuvéla og að framkvæmdir fari í gang frekar fyrr en seinna. Til hagsbóta fyrir alla.

Bæjarstjóri.


Síðast breytt: 15. október 2018
Getum við bætt efni síðunnar?