Fara í efni

Frá bæjarstjóra

Kæru bæjarbúar,

Gleðilegt ár og megi árið verða ykkur farsælt og hamingjusamt.

Lengi vel hef ég ætlað mér að senda ykkur nokkrar línur og er þetta því góður tímapunktur á þessum tímamótum að gera það nú.

Nú hef ég verið í starfi bæjarstjóra í 5 mánuði og er óhætt að segja að starfið hafi verið fjölbreytt og krefjandi en á sama tíma einstaklega skemmtilegt þar sem fjölbreytt flóra mannlífsins hefur svo sannarlega skinið í gegn.

Ég hef kynnst fjöldann öllum af góðu fólki og verið tekið einstaklega vel af ykkur bæjarbúum svo ekki sé talað um allt hið frábæra starfsfólk sem ég er að vinna með á hverjum degi.

Verkefnin eru margs konar; allt frá málum sem snerta einstaka bæjarbúa upp í málefni sem snerta okkur öll en eiga það kannski sammerkt að tengjast þörfum og óskum bæjarbúa.

Hveragerði hefur síðustu misseri verið í miklum vexti og virðist ekkert lát vera þar á og fjölgaði íbúum Hveragerðis um 7% á nýliðnu ári eða svipað og árið á undan, 2021.

Þessi jákvæða fjölgun íbúa kallar á aukna innviðauppbyggingu og er nú svo komið að grunnskólinn og leikskólar bæjarins eru komnir að þolmörkum og auka þarf framboðið af íbúðarlóðum.

Þarf því að huga að næstu áföngum þar og er fyrirhugað að hefja stækkun grunnskólans á þessu ári sem og að koma af stað nýjum leikskóla í Kambalandinu og standa vonir til að hann verði risinn á haustmánuðum þessa árs. Sömuleiðis þarf að fjölga lóðum til byggingaframkvæmda.

En það er ekki einungis í skólamálum sem huga þarf að bættri aðstöðu heldur hefur sömuleiðis verið tekin ákvörðun um uppbyggingu nýrrar Hamarshallar eins og flestum bæjarbúum ætti að vera vel kunnungt.

Hamarshöllin hefur spilað stórt hlutverk í eflingu íþróttastarfs í Hveragerði og verið einn af hornsteinum bæjarins. Það var því mikið áfall fyrir bæjarfélagið að missa aðstöðuna fyrir um ári síðan en nú horfir til betri vegar, þar sem hannað hefur verið glæsilegt framtíðarmannvirki sem mun rísa á grunni þess fyrri. Horft er til framtíðar á uppbyggingu Hamarshallarinnar þar sem fjárfest er til vaxtar og aðstaðan geti stækkað og eflst í takt við aukna íbúðabyggð. Er nú verið að leggja lokahönd á útboðsgögn sem ættu að vera tilbúin á næstu dögum.

Þeir sem óskuðu sér hvítra jóla fengu svo sannarlega ósk sína uppfyllta og vel það og eftir frekar milda veðurtíð síðustu mánuði er óhætt að segja að hressilega hafi snjóað í bænum og víðar sem gerði alla umferð mjög þunga og víða ófæra.

En Áhaldahúsið og starfsfólk þess stóð sig hins vegar frábærlega við snjómokstur í erfiðum aðstæðum, að greiða götu bæjarbúa og leystu það verkefni vel úr hendi. Þegar jafn miklum snjó kyngir niður á jafn skömmum tíma og raun bar vitni er hins vegar nauðsynlegt að bæjarbúa sýni því skilning og hafi þolinmæði að ekki er hægt að koma því við að allar götur bæjarins séu hreinsaðar á sama tíma. Ákveðnar götur og svæði eru í forgangi og síðan er unnið hægt og bítandi inn í aðrar götur bæjarins.

Annars fer nýja árið vel af stað, veðurfarið verið gott þó frostið bíti vel í og í dag kemur í ljós hver verður Íþróttamaður ársins í Hveragerði 2022 þegar viðurkenningar til okkar frábæra íþróttafólks verða afhentar í Listasafninu kl. 16:00.

Geir Sveinsson


Síðast breytt: 9. janúar 2023
Getum við bætt efni síðunnar?