Fara í efni

Flóttamenn frá Sýrlandi komnir til Hveragerðis

Eftirfarandi er frétt frá Velferðarráðuneytinu um móttöku hópsins:

Tvær fjölskyldur úr hópi flóttafólks frá Sýrlandi sem íslensk stjórnvöld hafa boðið að setjast hér að komu til landsins í gær. Fólkið sest að í Hveragerði og Árborg og var haldið með það þangað eftir stutta móttökuathöfn við komuna í Leifsstöð þar sem félags- og jafnréttismálaráðherra, forsvarsmenn sveitarfélaganna og Rauða krossins buðu fólkið velkomið.

„Ég býð ykkur innilega velkomin eftir langa og stranga ferð. Ísland er friðsælt land, hér ríkir lýðræði og hér getið þið verið viss um að mannréttindi ykkar séu varin og virt“ sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í stuttu ávarpi við komu fólksins í Börnin fá sér hressingu í LeifsstöðLeifsstöð, en fjölskyldurnar tvær hafa í um þrjú ár hafst við í flóttamannabúðum í Líbanon við erfiðar aðstæður. Nú tekur við nýtt líf hjá þeim, en þetta eru tvenn hjón, hvor um sig með fimm börn á aldrinum 6–19 ára sem munu eins fljótt og aðstæður þeirra leyfa hefja nám á viðeigandi skólastigum.

Fyrir liggur ákvörðun um móttöku 47 sýrlenskra flóttamanna á næstu vikum, að meðtöldum þeim sem komu í gær. Undirbúningur að móttöku fólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) og fór sendinefnd til Líbanons í nóvember síðstliðnum, meðal annars til að veita fólkinu fræðslu um Ísland og íslenskt samfélag.

Þetta er í fyrsta sinn sem Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Árborg taka á móti flóttafólki. Auk fjölskyldnanna tveggja sem komu í gær er von á þriðju fjölskyldunni í lok þessa mánaðar. Samtals eru þetta 21 einstaklingur. Gerður hefur verið samningur milli velferðarráðuneytisins og sveitarfélaganna um móttökuverkefnið sem lýtur að aðstoð og stuðningi við fólkið á næstu tveimur árum.

Þorsteinn þakkaði sveitarfélögunum fyrir gott samstarf í tengslum við þetta mikilvæga verkefni og einnig Rauða krossi Íslands sem gegnir stóru hlutverki við móttöku flóttafólks sem hingað kemur.

Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við flóttafólk er staða flóttafólks og réttindi þeirra skilgreind, fjallað um inntak þeirrar aðstoðar sem flóttafólk skal njóta fyrst eftir komu sína til landsins og gerð grein fyrir kostnaðarskiptingu vegna þess milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Í grófum dráttum snúa þessi verkefni að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Rauði krossinn kemur að móttöku flóttafólksins í hverju sveitarfélagi þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þeirra og hefur jafnframt umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi. Velferðarráðuneytið og Rauði krossinn gerðu nýlega með sér samning um framkvæmd þessara verkefna. Í þeim samningi fólust jafnframt mikilvæg tímamót þar sem með honum er stigið skref í átt að því að jafna þjónustu við flóttafólk, hvort sem það kemur í boði stjórnvalda (kvótaflóttafólk) eða á eigin vegum.


Síðast breytt: 30. janúar 2017
Getum við bætt efni síðunnar?