Fara í efni

Flokkun úrgangs er forgangsmál


Fréttatilkynning frá stjórn Sorpstöðvar Suðurlands:

Flokkun úrgangs forgangsmál í úrgangsmálum Sunnlendinga

Aukin flokkun úrgangs hefur algjöran forgang í starfi sveitarfélaga á Suðurlandi næstu mánuði, enda er vönduð flokkun forsenda þess að hægt sé að lágmarka magn og kostnað vegna úrgangs sem senda þarf utan til brennslu.

Undirbúningur fyrir útflutning brennanlegs úrgangs frá Suðurlandi er kominn í fullan gang, í framhaldi af því að SORPA hefur hafnað beiðni Sorpstöðvar Suðurlands um tímabundna móttöku úrgangs til urðunar í Álfsnesi. Þessi breytta staða gerir það að verkum að nú verður enn mikilvægara en fyrr að úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum á svæðinu verði flokkaður eins mikið og hægt er og komið í endurvinnslu.

Gámaþjónustan og Íslenska gámafélagið vinna nú bæði hörðum höndum að því að undirbúa útflutning sorps til brennslu í sorporkustöðvum í Evrópu, en þessi tvö félög sjá að mestu um úrgangsþjónustu fyrir sveitarfélög á Suðurlandi. Undirbúningurinn felst einkum í tvennu, þ.e. annars vegar að koma upp pökkunarvélum og öðrum nauðsynlegum búnaði til að gera sorpið útflutningshæft og hins vegar að útvega þau leyfi sem þarf til útflutningsins. Gert er ráð fyrir að þessi verk taki nokkra mánuði og standa vonir til að hægt verði að hefja útflutning sorps frá Suðurlandi í sumarbyrjun.

Nægur markaður er fyrir orkuríkan úrgang í sorporkustöðvum í Evrópu, en brennsla í slíkum stöðvum hefur það fram yfir urðun að orkan úr úrganginum nýtist og kemur í stað orku úr jarðefnaeldsneyti. Athuganir benda til að kolefnisspor útflutningsins sé hverfandi miðað við þann ávinning sem fæst með orkunýtingunni.

Endanlegar kostnaðartölur vegna útflutningsins sorps frá Suðurlandi liggja ekki fyrir, en ljóst er að þessi tilhögun hefur aukinn kostnað í för með sér. Vönduð flokkun úrgangs er forsenda þess að hægt verði að halda þessum kostnaði í lágmarki en endurvinnsla úrgangs er alla jafna mun hagkvæmari en förgun, hvort sem litið er á málið út frá efnahagslegum eða umhverfislegum forsendum. Þessi kostnaðarmunur kemur skýrast fram í rekstri fyrirtækja, en þau geta í mörgum tilvikum fengið greitt fyrir vel flokkaðan úrgang til endurvinnslu í stað þess að þurfa að greiða háar fjárhæðir fyrir förgun hans.

Samhliða þessum breytingum á úrgangsmálum Sunnlendinga keppast sveitarfélög á svæðinu nú við að koma upp búnaði til sérsöfnunar á lífrænum heimilisúrgangi, þ.e.a.s. þau sveitarfélög þar sem slík söfnun var ekki hafin fyrir. Jarðgerð á lífrænum úrgangi er tæknilega auðveld og skilar verðmætri afurð. Sorporkustöðvar gera þá kröfu að úrgangur sem sendur er til brennslu innihaldi lítið sem ekkert af lífrænu efni, enda inniheldur lífrænn úrgangur mikið af vatni og brennur því illa, auk þess sem honum fylgja leka- og lyktarvandamál, einkum ef úrgangurinn er geymdur lengi. Því skiptir miklu máli að lífrænum úrgangi sé safnað sérstaklega og komið í vinnslu.

Það er von stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands og sveitarstjórna á svæðinu að íbúar, fyrirtæki og sumarhúsaeigendur á svæðinu bregðist vel við ákalli um aukna flokkun úrgangs og stuðli þannig að betri nýtingu auðlinda og lækkun kostnaðar sem annars lendir á íbúum, fyrirtækjum, sumarhúsaeigendum og sveitarfélögum.


Síðast breytt: 24. janúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?