Fara í efni

Íbúar nálgast 3.000

Athyglisverð grein eftir Sigurð Guðmundsson, skipulagsfræðing, birtist í Morgunblaðinu nýlega þar sem fjallað er um íbúaþróun á suðvesturhorninu og þá ekki síst með tilliti til fjölda innflytjenda.  Á myndinni hér meðfylgjandi má sjá þessa stöðu í hinum ýmsu sveitarfélögum, en myndin birtist með umræddri grein.   Eins og sjá má fjölgar vel umfram landsmeðaltal hér í Hveragerði og ekkert lát er á.  Í dag þann 8. nóvember eru íbúar í Hveragerði 2.967 talsins.  Hefur íbúum því fjölgað um 189 frá 1. janúar 2021 eða um 6,8% á yfirstandandi ári.   Er núna eingöngu tímaspursmál hvenær íbúatala Hveragerðisbæjar fer yfir 3.000.  Hvort að það verði fyrir áramót er stóra spurningin?

Þar sem tekjur bæjarfélagsins ráðast að nokkru leyti af íbúafjöldi eru mikilvægt að allir séu rétt skráðir til lögheimilis.  Þeir sem flutt hafa til Hveragerðisbæjar eða innan bæjarfélagsins en ekki tilkynnt um aðsetursskipti, eru vinsamlega beðnir að gera það sem allra fyrst. Tilkynning um flutning fer fram í gegnum skra.is, Þjóðskrá Íslands. Hægt er að nálgast upplýsingar um rafræn skil og eyðublöð á heimasíðu Þjóðskrár, www.skra.is og/eða á www.island.is .

Húsráðendur eru minntir á tilkynningarskyldu sína vegna þeirra er í húsum þeirra dvelja. Atvinnurekendur eru hvattir til að brýna fyrir þeim sem ráðnir eru til starfa að þeir tilkynni þegar í stað um aðsetursskipti.

Í 1. grein laga um lögheimili segir m.a. að lögheimili manna er sá staður þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu. Föst búseta er síðan útskýrð sem staður þar sem maður hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er. Í þessu felst að lögheimili manna skal skráð þar sem þeir búa á hverjum tíma.

Aldis Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

 


Síðast breytt: 8. nóvember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?