Endurbætur hafnar á Mjólkurbúinu
Framkvæmdir eru nú hafnar við endurbætur á Mjólkurbúinu í Hveragerði. Ráðast á í múrviðgerðir á ytra byrði hússins, steyptum rennum og þaki. Eitt tiboð barst í framkvæmdina að lokinni verðkönnun og nam það rétt tæpum 12 m.kr. Er það fyrirtækið M1 ehf, Kolbeinn Hreinsson, sem sjá mun um framkvæmdina.
Mjólkurbúið í Hveragerði er sögufræg bygging og ein af elstu byggingum bæjarfélagsins, byggt árið 1929 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Stofnun Mjólkurbús Ölfusinga og bygging hússins markaði upphaf þéttbýlis í Hveragerði. Á undanförnum árum hefur verið unnið að lagfæringu hússins endurnýjun þess að innan og skipt hefur verið um glugga og þeir færðir til upprunalegs horfs.
Vænta má þess að húsið verði bæjarprýði í miðbæ Hveragerðisbæjar að loknum þessum framkvæmdum.
Aldís Hafsteinsdóttir,
Bæjarstjóri