Dagur líffræðilegs fjölbreytileika
Þann 22. maí ár hvert er alþjóðlegur dagur líffræðilegs fjölbreytileika. Deginum var komið á af Sameinuðu þjóðunum árið 1993 til að auka vitund og umræðu um þennan mikilvæga málaflokk. Fjölbreytileiki dýra og plantna er manninum nauðsynleg og hefur auk þess miklu hlutverki að gegna þegar kemur að sjálfbærri þróun og bættum lífskjörum mannkyns.
Hugtakið var fyrst notað af Bandaríska vísindamanninum og náttúruverndarsinnanum Raymond F. Dashmann árið 1968 í bók hans, A different Kind of Country, þar sem hann hvatti til verndar náttúrunnar. Það var svo um tveimur áratugum seinna sem það komst í almenna notkun þegar vísindamenn, stofnanir og félagasamtök svo sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn (World Wildlife Fund) tóku það upp á arma sína.
En hvað er líffræðilegur fjölbreytileiki? Líffræðingar skilgreina hann sem breytileika lífs á jörðinni í heild sinni en jafnframt er hugtakið notað til að skilgreina breytileika innan afmarkaðra lífkerfa svo sem á landi, í sjó eða í ákveðnu lífbelti svo sem í regnskógunum. Þetta á við um breytileika á milli tegunda, innan tegunda en einnig innan einstakra lífkerfa.
Líffræðilegur fjölbreytileiki er gríðarlegur en talið er að á jörðinni búi nú tæplega 9 milljón tegundir lífvera. Það er talsverð óvissa um nákvæman fjölda enda aðeins búið að skrá og lýsa litlum hluta. Á milli 5 og 10 þúsund nýjum tegundum lífvera er lýst á ári hverju. Langmesti fjölbreytileikinn er í regnskógabeltinu nálægt miðbaug en minnstur er hann á hinum köldu pólsvæðum jarðar.
Það stafar þó ógn af umhverfisbreytingum af manna völdum. 1 af hverjum 4 tegundum spendýra er í útrýmingarhættu, sama á við um 1 af hverjum 8 fuglategundum, 2 af hverjum 3 froskdýrategundum, 6 af 7 risaskjaldbökutegundum, og meira að segja 1 af hverjum 4 tegundum barrtrjáa er í hættu og svo má lengi telja. 75% af fiskimiðum heimsins eru einnig ofnýtt sem stefnir fjölbreytileika tegunda í hafinu í hættu sem er sérstakt áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga.
Ástæður þessa mikla álags sem við mennirnir völdum náttúrunni eru margvíslegir. Land er tekið undir búsvæði manna og ræktarlönd í stórum stíl. Þetta er sérstaklega mikið vandamál á regnskógasvæðum jarðarinnar sem mega síst við því. Mikil orkuframleiðsla, að miklu leyti með óendurnýjanlegum hætti með tilheyrandi mengun og loftslagbreytingum, stefnir búsvæðum einnig í hættu. Óhófleg nýting á dýrum og dýraafurðum hefur einnig alvarlegar afleiðingar og nægir þar að nefna geirfuglinn sem er dæmi sem stendur okkur Íslendingum nærri.
Framkvæmdastjóri Alþjóða dýraverndunarsjóðsins, Jim Lepp, sagði eitt sinn að „við lifum lífinu eins og við hefðum aukaplánetu í bakhöndinni“ en að sjálfsögðu höfum við aðeins þessa einu og verðum því að lifa í sátt við náttúruna hér og nú. Það verður því að vera markmið okkar allra að gera það sem við getum til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika með því að vernda náttúruna með öllum tiltækum ráðum því við erum jú hluti hennar og þurfum að treysta á hana um allt sem við notum til að lifa.
„Ef ein leið er betri en önnur er hún örugglega náttúrlega leiðin“ Aristotele
Paschalia Kefala - Skógfræðingur
Höskuldur Þorbjarnarson - Umhverfisfulltrúi Hveragerðisbæjar