Fara í efni

Brýnt að auka flokkun sorps í Hveragerði


Sorpa hefur tilkynnt að frá og með 1. janúar 2019 verði lokað á frekari móttöku sorps til urðunar frá sveitarfélögum á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands. Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands fékk frest á lokuninni fram yfir næsta fund stjórnarinnar þar sem rætt verður um þá stöðu sem komin er upp og það með hvaða hætti brugðist verður við.

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 20. desember var málið til umfjöllunar og þar kom fram að einn af þeim möguleikum sem Hveragerðisbær hefur skoðað til lausnar á þeim vanda sem skapast getur verði lokun Sorpu að veruleika er útflutningur á sorpi Hveragerðinga til brennslu erlendis. Verði ráðist í útflutning eða aðra dýra kosti er mikilvægt að allt endurnýtanlegt og endurvinnanlegt hráefni náist úr því sorpi sem farga þarf með þeim hætti.

Í ljósi þessarar nýju stöðu var bæjarstjóra og umhverfisfulltrúa í samráði við sorphirðuaðila falið að útbúa kynningarefni til að ítreka mikilvægi flokkunar í Hveragerði því nú er ljóst að taka verður risavaxið skref í átt að frekari flokkun þar sem óvíst er hvort að urðunarstaður fyrir Sunnlendinga er fyrir hendi.

Auka þarf flokkun !

Leggja ber alla áherslu á að ná lifrænum efnum úr almennu sorpi enda er varla gerlegt að flytja sorp sem inniheldur mikið magn af lífrænum efnum til annarra landa.

Í gleri er mikil þyngd og því er lögð áhersla á að því verði skilyrðislaust safnað saman og því skilað á gámasvæðið, þaðan sem það verður flutt á jarðvegstipp enda er gler með öllu óvirkt efni. Textíll hvers konar, fatnaður, handklæði, rúmföt, tuskur og annað slíkt, hvort sem það er ónýtt eða nýtanlegt á einnig skilyrðislaust að fara í endurvinnslufarvegi og ber að skilast á gámasvæði.

Oft var þörf á aðgerðum í þessa veru en nú er samstaða bæjarbúa á þessu sviði óumflýjanleg enda virðist staðan vera sú að aðgangur okkar að öruggum urðunarstað er í uppnámi.

Eigi kostnaður vegna sorpurðunar ekki að aukast gríðarlega með tilheyrandi álögum á bæjarbúa verðum við að standa saman og vinna enn betur en nú er að flokkun með öllum tiltækum ráðum.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 4. janúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?