Fara í efni

Breyting á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis vegna íþróttahúss

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti þann 13. febrúar 2025 að auglýsa tillögu að deiliskipulagsbreytingu á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingartillagan nær til samfélagsþjónustusvæðis S6 þar sem grunnskóla, íþróttahús, hús gamla Mjólkurbúsins og Skátaheimilis er að finna. Markmið breytingarinnar er að stækka heimild til byggingar nýs íþróttasalar til þess að rúma einnig fimleikaaðstöðu. Hús gamla kaupfélagsins sem hýsir fagkennslustofur, þangað til grunnskóli er fullbyggður, er víkjandi í deiliskipulaginu og er lóð Breiðumerkur 24 sameinuð lóð íþróttahússins. Tilfærsla verður á lóðamörkum innan reitar, tilfærsla á lausri kennslustofu, tilfærsla á lögnum og kvöð sett um lagnaleiðir. Breyting verður á hámarkshæð útveggjar salarins til vesturs sem og hámarkshæð salar. Byggingareitur aðkomubyggingar er lengdur meðfram vesturhlið íþróttasalar til að milda ásýnd íþróttahússins frá miðbæ og nærliggjandi lóðum. Breytingar verða á þegar samþykktu fyrirkomulagi og fjölda bílastæða. Nýtingarhlutfall verður óbreytt 0,6 á reitnum í samræmi við skilmála aðalskipulags.

Tillagan er aðgengileg á Skipulagsgátt undir málsnúmeri 186/2025, liggur frammi á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar að Breiðumörk 20 sem og á vef Hveragerðisbæjar.

Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera skriflega athugasemd með umsögn á Skipulagsgátt, í síðasta lagi 28. mars 2025.

Allar fyrirspurnir skulu berast á netfangið hildur@hveragerdi.is

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar


Síðast breytt: 21. febrúar 2025
Getum við bætt efni síðunnar?