Bóbó er kominn aftur
Það kom mjög á óvart að eftir að Eden brann var það apinn Bóbó sem mjög margir sögðust sakna hvað mest frá heimsóknum sínum til þessa víðfræga ferðamannastaðar.
Eftir brunann skrifuðu um 2.300 manns kveðju til Bóbó á sérstaka minningarsíðu og minntust vinarins, Bóbós, sem lét falla hnyttna gullmola og gaf litla gjöf í eggi, ef peningur var settur í kassann sem bar búrið hans. "Halló, halló, halló, á ég að segja þér brandara! " var upphafið að fjölmörgum samtölum bæði ungra sem eldri við apann skemmtilega.
Bæjarstjóri hefur í mörg ár leitað að svona apa en þeir eru nær ófáanlegir í heiminum öllum enda vinsælir með afbrigðum. En það tókst þó að lokum og nú hefur eftirmaður Bóbós verið fluttur til landsins af Hveragerðisbæ. Í dag geta áhugasamir heimsótt Bóbó sem staðsettur er á efri hæð bæjarskrifstofunnar og það er opið til kl. 16:00 í tilefni þessa. Nú er um að gera að drífa sig og heyra nokkra vel valda brandara því strax eftir helgi fer apinn og búrið til Sveinbjarnar bílamálara hér í bæ sem ætlar að gera búrið eins og nýtt fyrir okkur af sinni alkunnu snilld. Í framhaldinu verður Bóbó til sýnis á bæjarhátíðum Hveragerðis næstu árin.
Bóbó er kominn og vorið líka - þetta veit á gott !
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri