Fara í efni

Blómstrandi dagar í Hveragerði um helgina

Hér er hlekkur á heildardagskrá Blómstrandi daga 15.-18. ágúst 2024. 

Click here for the program of Flourishing Days in Hveragerði on August 15 to 18 2024.

Útitónleikar, Ísdagur, Blómaball, tívolí, markaðir, flugeldasýning og margt fleira.

Það er stórglæsileg og stútfull dagskrá alla helgina í Hveragerði þegar Blómstrandi dagar verða haldnir í 29. sinn. Hátíðin hefst fimmtudaginn 15. ágúst og lýkur undir kvöld sunnudaginn 18. ágúst.

Það sem gerir þessa hátíð svo skemmtilega og ánægjulega er hversu mikinn þátt íbúar, fyrirtæki og félagasamtök í bænum taka þátt í dagskránni. Hús, garðar, götur og fyrirtæki skreyta í sínum hverfalitum og auðvitað verða veitt verðlaun fyrir bestu skreytingarnar. Margir bjóða gestum hátíðarinnar í fyrirtækið eða garðinn til sín og eru þá með veitingar, lifandi tónlist, markaði, jóga, alls konar tilboð og almenn skemmtilegheit. 

Blómstrandi dagar eru fjölskylduhátíð og því mikið lagt upp úr því að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi. 

Fjölmargir listamenn stíga á stokk á Blómstrandi dögum þetta árið og má þar nefna Herra Hnetusmjör, Siggu Beinteins, Teit, KK, VÆB og Gunna Óla en þá er fátt eitt talið.

Blómaballið mun standa fyrir sínu eins og venjulega en þar munu Blaz Roca, Gunni Óla, Hreimur og Unnur Birna sýna sínar bestu hliðar ásamt hljómsveit og þar má búast við blómlegu fjöri fram eftir nóttu í íþróttahúsinu.

Taylor‘s Tivoli mætir á svæðið og verður opið alla dagana og þar í grennd verða einnig matarvagnar með ýmsu góðgæti.

Ekki má svo gleyma hinum árlega Ísdegi Kjörís sem verður við Kjörís á laugardaginn og þar er alveg kjörið að njóta skemmtiatriða og íss með alls kyns bragðtegundum.

Það verður enginn svikinn af Blómstrandi dögum í Hveragerði.

Verið hjartanlega velkomin!


Síðast breytt: 14. ágúst 2024
Getum við bætt efni síðunnar?