Fara í efni

Bekkur undir hverfisvernduðum garðahlyn

Árið 2017 var gerð úttekt á trjágróðri Hveragerðisbæjar og gerður listi yfir tré sem þykja merk. Í aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2019 var umræddur listi svo notaður til grunns um verndun á markverðum og sjaldgæfum trjágróðri sem njóta nú hverfisverndunar.

Hverfisvernduðu trén í Hveragerði voru flokkuð í tvo flokka, annars vegar tré sem þykja verðmæt og umhverfisgildi þeirra er talið ótvírætt (flokkur I) og tré sem þykja sérstök að ýmsu leiti og því er talin ástæða til að hvetja eigendur þeirra að varðveita þau (flokkur II). Undanfarið hefur Hveragerðisbær verið að undirbúa vinnu sem vernduninni fylgir. Er meðal annars stefnt að því að öll trén verði merkt sérstaklega svo íbúar og aðrir vegfarendur geti kynnt sér sögu þeirra og sérstöðu.

Við Heiðmörk 21 standa tvö tré sem hafa hverfisverndun. Í flokki II er krónumikið og beinvaxið sitkagreni, sem er fyrsta kynslóð trjáa undan sitkagrein í Fagrahvammi. Tréð þykir afar áberandi og er mjög stórvaxið sem hefur fengið að halda neðstu greinunum. Hins vegar er garðahlynur sem nýtur hverfisverndar í flokki 1. Fallegt tré með mikla, kúlulaga krónu. Vex á mjög áberandi stað og setur mikinn svip á götumyndina. Saga segir að þetta tré og fleiri í Hveragerði sé komið af fræi sem garðyrkjumaður hafi safnað á ferðalagi erlendis, sett í buxnavasann og gleymst þar um tíma. Buxurnar verið þvegnar og fræið lifað af. Því sáð þegar það fannst aftur og spírað og orðið að þessari og fleiri plöntum.

Kvennskörungarnir í garðyrkjudeild Hveragerðisbæjar fengu það verkefni að koma bekk betur fyrir undir þessum fallega garðahlyn, en áður var hann inni á grasi lóðarhafa og í halla. Útfærslan var hugsuð þannig að þær vildu gera sem minnstar framkvæmdir á jarðveginum undir bekknum og hönnunin hugsuð þannig að svæðið sé með eins náttúrulegt útlit og hægt er.

Á meðfylgjandi myndum er hægt að sjá nýja stæði bekksins undir hlynininum og geta gangandi vegfarendur tyllt sér undir krónu hans og notið.


Síðast breytt: 12. nóvember 2020
Getum við bætt efni síðunnar?