Baráttunni um Reyki er ekki lokið
Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 28. apríl 2022:
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með þeirri vegferð sem ráðherrar menntamála eru á varðandi nám og starfsemi Garðyrkjuskólans á Reykjum.
Ákvörðun um að flytja allt nám garðyrkjuskólans til Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið tekin en óvissa er um fjámögnun, aðstöðu og fleira slíkt sem gerir stjórnendum þar erfitt fyrir varðandi reksturinn og skipulag til framtíðar.
Kennurum og fulltrúa kennsluskrifstofu hefur verið sagt upp og mikil óvissa ríkir um framtíð garðyrkjunáms. Það er mikil hætta á því að nú fjari hratt undan kennslu í garðyrkjugreinum og að kennsla á Reykjum heyri brátt sögunni til verði ekki þegar í stað gripið í taumana.
Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 8. apríl 2021 var bókað að bæjarráð treysti þeim orðum þáverandi menntamálaráðherra sem sögð höfðu verið á fundum og í viðtölum við bæjarfulltrúa um að fljótlega myndi nást farsæl niðurstaða í málefnum garðyrkjuskólans. Því miður hefur fátt gengið eftir af því sem þar var sagt og staða garðyrkjunáms og starfsemi á Reykjum hefur sjaldan ef nokkurn tíma verið í jafn mikilli óvissu og núna.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar til að benda á þá stöðu sem upp var komin í skólanum er ljóst að lítill vilji hefur verið hjá þeim ráðamönnum sem sinna málefnum skólans að bregðast við.
Vonir okkar um flottan og öflugan garðyrkjuskóla sem m.a. gæti stuðlað að sjálfbærni og auknu matvælaöryggi dvína nú með hverjum deginum.
En baráttunni er ekki lokið! Við munum halda áfram að berjast fyrir öflugum skóla að Reykjum!
F.h. bæjarstjórnar
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri