Fara í efni

Bangsar bæjarins brugðu á leik

Það var heldur betur fjör þegar 42 bangsar gistu á bókasafni Hveragerðisbæjar nýlega. Bangsarnir voru þó ekki alveg tilbúnir að fara að sofa heldur fundu sér ýmislegt til dundurs. Margir lásu bækur en aðrir spiluðu og tefldu.

Stóri bókasafnsbangsinn hélt sögustund og leyfði öllum að grilla sykurpúða. Sumir bangsarnir voru samt pínulítið óþekkir og príluðu upp á málverk og hillur, nokkrir stálust í starfsmannatölvuna og aðrir fiktuðu í ljósritunarvélinni…

Sem betur fer slasaðist enginn en það var lítið um svefn og því voru það mjög glaðir en þreyttir bangsar sem biðu eigenda sinna þegar bókasafnið opnaði kl. 11 morguninn eftir. Böngsunum öllum fylgdu síðan skemmtilegar upplýsingar um það sem þeir höfðu haft fyrir stafni um nóttina.

Öllum böngsunum og eigendum þeirra er þakkað kærlega fyrir komuna og vonast starfsmenn bókasafns til að sjá alla aftur sem fyrst!

Á myndunum má sjá bangsana bregða á leik um nóttina ….

(Fréttin er af facebook síðu Bókasafns Hveragerðisbæjar)


Síðast breytt: 21. febrúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?