Bæjarstjórn mótmælir vinnubrögðum v. lokunar Reykjadals
Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar vegna tilkynningar um framlengingu lokunar göngustígsins inn Reykjadal:
Bæjarstjórn mótmælir harðlega vinnubrögðum Umhverfisstofnunar í þessu máli. Stígurinn hefur verið lokaður síðan í lok mars og á öllu því tímabili hafa engar leiðbeiningar verið gefnar af stofnuninni um það til hvaða ráða skuli grípa til að hægt sé að opna stíginn. Starfsmenn Umhverfisstofnunar hafa staðið vaktina og vísað fólki frá án þess að koma sveitarfélögum á svæðinu til aðstoðar varðandi leiðbeiningar um nauðsynlegar úrbætur.
Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus hafa á undanförnum árum í samvinnu við Landbúnaðarháskólann staðið fyrir miklum úrbótum í Reykjadal enda hefur umhverfið allt tekið stakkaskiptum til hins betra. Það er aftur á móti eiganda dalsins, íslenska ríkinu, til minnkunar að sinna ekki betur um eina fjölförnustu gönguleið á Íslandi en um 300.000 manns leggja leið sína í dalinn árlega.
Bæjarstjórn telur augljóst að landvarsla í dalnum myndi bæta umgengni og sé því nauðsynleg. Ennfremur telur bæjarstjórn löngu tímabært að fundin verði önnur reiðleið sem létta myndi álagi af göngustígnum. Bæjarstjórn óttast að skortur á landvörslu, leiðbeiningum, fjármagni og sinnuleysi stjórnvalda almennt muni valda skaða í dalnum og í kjölfarið valda rekstraraðilum í Hvergerði ómældum tekjumissi og skaða og krefst því aðgerða og úrbóta á vegum landeiganda nú þegar.
Þessi bókun bæjarstjórnar hefur verið tilkynnt hlutaðeigandi um leið og óskað hefur verið eftir fundi með fulltrúum Umhverfisstofnunar nú þegar þar sem mál Reykjadals verði rædd.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri
Uppfærð frétt kl. 16:30 11.5.20185.
Harðorð mótmæli bæjarstjórnar við fyrirhugaðri lokun Reykjadals til 1. júní báru árangur ! Tilkynning var að berast um að gönguleiðin inn Reykjadal muni opna kl. 10:00 á morgun. Óskað hefur verið eftir fundi með fulltrúum Umhverfisstofnunar til að ræða til hvaða aðgerða þarf að grípa til að koma í veg fyrir lokanir af þessu tagi eins og hægt er. Umhverfisstofnun eru þökkuð skjót og góð viðbrögð við erindi bæjarstjórnar.