Fara í efni

Bæjarráð fagnar lýðskólum


Bæjarráð Hveragerðisbæjar fjallaði um frumvarp til laga um lýðskóla sem lagt hefur verið fram á Alþingi, á fundi sínum þann 2. maí 2019.

Afgreiðsla bæjarráðs var svohljóðandi:

Bæjarráð fagnar því að fram sé komið frumvarp til laga um lýðskóla á Íslandi. Slíkt skólaform er alþekkt á Norðurlöndunum og hafa fjölmargir Íslendingar sótt nám í þeim skólum og þannig eflst í þekkingu og þroska. Sú sérstaða sem slíkir skólar hafa er óumdeild en þar er mannrækt sett ofar öllu öðru eða eins og segir í greinargerð með lagafrumvarpinu: "Námið skal stuðla að umburðarlyndi nemenda og miða að því að gefa þeim tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og styrkleika og auka skilning á sögu, menningu, virðingu fyrir lífsgildum annarra og innviðum lýðræðislegs samfélags." Bæjarráð vonast til þess að með samþykkt laganna verði til grundvöllur sem geri að verkum að þetta skólaform verði almennara og viðurkenndara en verið hefur hér á landi.

Þessi afgreiðsla bæjarráðs hefur verið tilkynnt Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.


Síðast breytt: 13. maí 2019
Getum við bætt efni síðunnar?