Fara í efni

Annáll bæjarstjóra 2017

Það hefði einhvern tíma þurft að segja manni það tvisvar og jafnvel þrisvar að það sem myndi helst standa uppúr í árslok væri að hópur karlkyns Hvergerðinga hefði fækkað fötum svo vikum skipti við gríðarlega góðar undirtektir. Ekki má skilja það þannig að ég haldi ekki að karlkynskroppar héðan hafi ekkert aðdráttarafl en minna mátti nú alveg gera sig. En það var sem sagt leikfélagið okkar sem setti upp sýninguna Naktir í náttúrunni sem sló svona eftirminnilega í gegn. Svo mjög að ekki dugði að sýna fyrir fullu húsi hér austan heiðar svo vikum skipti heldur var sýningin valin sýning ársins og í verðlaun var hún flutt í Þjóðleikhúsinu, algjörlega stórkostleg stund og ógleymanleg öllum sem á horfðu. Enn og aftur megum við vera rífandi stolt af leikfélaginu okkar og þeim duglegu og frumlegu félögum sem þar eru innanborðs.

Hið sama má svo sannarlega líka segja um félaga í Hamri sem ásamt HSK stóðu að landsmóti 50+ sem haldið var hér í sumar. Veðurguðirnir gengu í lið með okkur og sköpuðu umgjörð sem erfitt er að keppa við. Keppt var aftur á móti í hinum fjölbreyttustu greinum og keppnisskapið var allsráðandi. Mótið tókst afar vel, var fjölsótt og okkur öllum til mikils sóma.

Skátafélagið Strókur tók á móti hundruðum skáta sem dvöldu hér í tengslum við langstærsta skátamót sem haldið hefur verið hér á landi. Tókst mótið afar vel og hlutur Hvergerðinganna var eftirtektarverður. Aðstaðan góð og vel haldið utan um alla hluti. Hinir erlendu skátar gerðu sér lítið fyrir og plöntuðu hundruðum trjáa í Lystigarðinn Fossflöt sem vonandi munu dafna vel og verða til ánægju til framtíðar.

Skátar komu svo aftur við sögu á haustmánuðum þegar magapest ein allsvæsin herjaði á fjölda skáta á Úlfljótsvatni sem fluttir voru hingað í grunnskólann í sóttkví. Aðgerð sem eftir á að hyggja var verulega vanhugsuð og verður væntanlega ekki endurtekin. Kostnaður varð verulegur og rask á skólastarfi erfitt. Aftur á móti var vel hugsað um veiku ungmennin og leið þeim vel hér hjá okkur sem klárlega var tilgangurinn. Þar stóð okkar fólk hjá Rauða krossinum sig vel.

Félagar í Rauða kross deildinni hér í bæ hafa einnig verið stoð og stytta sýrlensku flóttafjölskyldunnar sem hingað kom í upphafi árs. Það er ánægjulegt að við skulum geta lagt okkar lóð á vogarskálar þegar hörmungar og stríð gera að verkum að fólk getur ekki lengur lifað í landinu sínu. Slíkt er til eftirbreytni og þakkarvert hversu mörgum er umhugað um að þessir nýju íbúar, sem og aðrir sem hingað hafa flutt frá fjarlægum slóðum, nái góðri fótfestu á nýjum stað.

Árið sem nú er að líða var ákaflega annasamt þegar litið er til verkefna og viðburða á vegum bæjarfélagsins.

Ein alstærsta framkvæmd sem Hveragerðisbær hefur staðið að var bygging nýs 6 deilda leikskóla að Þelamörk 62.
Er skemmst frá því að segja að byggingin gekk vonum framar og fátt óvænt kom upp á. Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir og ekki spillti fyrir að verktakinn JÁ verk stóð sig með mikilli prýði. Þessi 1.100m2 leikskóli er án vafa með þeim flottustu á landinu og hefur því vakið mikla athygli. Einnig vekur lóðin ánægju hjá þeim sem hana skoða og ekki síður hjá börnunum sem fagna nýjum og fjölbreyttum leiktækjum og skemmtilegum tækifærum til útirveru. Leikskólinn var vígður á haustmánuðum að viðstöddu fjölmenni og var það mikil ánægjustund.

Um leið og börn og starfsmenn yfirgáfu húsnæði gamla Undralands fluttist frístundaskólinn þangað inn sem og félagsmiðstöð unglinganna. Þessi breyting mælist afar vel fyrir enda er það mikill munur að vera nú komin með alla starfsemina undir eitt þak. En það er aftur á móti vel við hæfi að þakka starfsmönnum, börnunum og foreldrum og forráðamönnum þeirra þolinmæðina núna í haust þegar að frístundaskólinn var rekinn á þremur stöðum með tilheyrandi óhagræði fyrir alla aðila.

Samningar náðust á árinu við Fasteignafélagið Reiti um kaup þeirra á Arionbanka húsinu og að félagið myndi síðan innrétta húsið fyrir bæjarskrifstofu. Gekk þetta allt eftir og í september fluttu bæjarskrifstofurnar í nýtt og sérhannað húsnæði í gamla miðbænum. Er ekki annað að heyra en að íbúar séu ánægðir með þessa breytingu og það líf sem nú hefur færst í gamla miðbæinn. Á sama tíma var gamli leíkskólinn við Fljótsmörk innréttaður fyrir Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings þannig að nú eru í þessum tveimur húsum í kringum tuttugu starfsmenn.

Á árinu náðust samningar um kaup bæjarins á Kambalandi sem er gríðarlega mikilvægur áfangi og nauðsynlegur vegna framtíðar möguleika við uppbyggingu bæjarfélagsins. Ekki síður var það stór áfangi þegar erfðafesta var innleyst á Friðarstöðum og bæjarfélagið er þar með orðinn eigandi að bæði landi og húsakosti á jörðinni. Íbúðarhúsið hefur verið selt til brottflutnings og mun það víkja á vormánuðum og fljótlega eftir það munu önnur hús víkja fyrir nýju skipulagi.

Nú eru á annað hundrað íbúðir á teikniborðinu eða á framkvæmdastigi í bæjarfélaginu. Fjölgun íbúa er veruleg þrátt fyrir viðvarandi húsnæðisskort. Það er ljóst að Hveragerði er vinsælt bæjarfélag þar sem margir sjá framtíðina fyrir sér. Þeirri stöðu er mikilvægt að viðhalda en það gerum við best með því að halda áfram þeim góðu verkum sem í gangi eru en jafnframt með því að bæta það sem aflaga fer.

Ljóst er að bæinn okkar byggir öflugt og duglegt fólk sem þykir vænt um bæjarfélagið sitt. Öll viljum við leggja okkar lóð á vogarskálar til að mannlíf og umhverfi verði með sem bestum hætti. Tökum því höndum saman og sjáum til þess að framtíðin verði jafn björt og árið sem nú er að baki.

Með þessum orðum íbúum öllum semog öðrum lesendum óskað gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári um leið og þakkað er fyrir allar yndislegu samverustundirnar á árinu sem senn er á enda.

Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri

Þessi grein var einnig birt í Bláhver, blaði Sjálfstæðisfélags Hveragerðis um jól 2017.


Síðast breytt: 2. janúar 2018
Getum við bætt efni síðunnar?