Anna Guðrún kjörin íþróttamaður ársins 2020
Það er orðinn fastur liður í jólahátíð Hvergerðinga að veita afreksfólki í íþróttum viðurkenningu fyrir unnin afrek á árinu og útnefna íþróttamann Hveragerðis.
Í ár var Anna Guðrún Halldórsdóttir frá Lyftingafélaginu Hengli kjörin íþróttamaður Hveragerðis 2020. Hún setti hvorki meira né minna en 12 Íslandsmet á Haustmóti Lyftingasambands Íslands í ólympískum lyftingum sem fram fór í lok september á Selfossi. Anna Guðrún setti Íslandsmet í öllum lyftum í -87 kg flokki, í flokkum Masters 35, Masters 40, Masters 45 og Masters 50. Hún lyfti 50 kg í snörun, 68 kg í jafnhendingu og 118 kg í samanlögðu.
Alls voru 12 íþróttamenn tilnefndir í kjöri til íþróttamanns Hveragerðis 2020 og fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu. Allir íþróttamennirnir hafa sýnt mikinn metnað til að ná langt í sinni íþróttagrein og eru svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir bæinn og yngri íþróttamenn. Einnig voru veittar viðurkenningar til 16 íþróttamanna sem hafa orðið Íslandsmeistarar og verið í landliðshópum á árinu.
Jóhanna M. Hjartardóttir
Menningar- og frístundafulltrúi