Ánægja íbúa mest í Hveragerði
Niðurstöður úr viðhorfskönnun Gallup sem mælir ánægju íbúa í tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins var kynnt á fundi bæjarráðs nýlega. Hveragerðisbær kom mjög vel út úr könnuninni eins og oft áður. Samkvæmt henni eru 97% íbúa ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á.
Bæjarráð bókaði eftirfarandi vegna niðurstaðna könnunarinnar:
"Árið 2018 fær Hveragerðisbær hæstu einkunn allra sveitarfélaga í þjónustukönnun Gallup þegar spurt er um ánægju íbúa með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Er sú niðurstaða afar ánægjuleg. Hefur ánægja íbúa aukist marktækt frá árinu 2017 þrátt fyrir að bæjarfélagið hafi verið á meðal efstu sveitarfélaga þá einnig. Rétt er þó að geta þess að munur á hæstu sveitarfélögum er afar lítill. Bæjarráð fagnar mjög góðum niðurstöðum þjónustukönnunarinnar sem sýnir enn og aftur að bæjarbúar eru afskaplega ánægðir með bæjarfélagið sitt og þá þjónustu sem hér er veitt. Hvað einstaka málaflokka varðar þá er það áberandi að íbúar Hveragerðisbæjar eru meðal ánægðustu íbúa landsins í svo til öllum málaflokkum. Sú staðreynd að bæjarbúar eru jafn ánægðir með sveitarfélagið sitt og raun ber vitni styrkir bæjarstjórn og starfsmenn við störf sín og hvetur alla til að gera enn betur."
Hveragerðisbær hefur tekið þátt í þessari könnun undanfarin ár og ávallt lent þar í hópi efstu sveitarfélaga. Núna ber svo við að Hveragerðisbær er orðinn efstur með mesta ánægju íbúa á landinu.
Niðurstaðan er hrós til starfsmanna
Niðurstaða könnunarinnar er mikið hrós til starfsmanna bæjarfélagsins sem greinilega eru að gera góða hluti. Hveragerðisbæar skorar hæst allra þegar spurt er almennt þ.e. með þjónustu bæjarfélagsins í heild. Síðan skorar bæjarfélagið einnig hæst hvað varðar gæði umhverfisins, varðandi þjónustu við eldra fólk og við barnafjölskyldur. Niðurstöðurnar eru afar ánæjgulegar og í langflestum flokkum skipar Hveragerðisbær sér í hóp þeirra sveitarfélaga þar sem mesta ánægjan ríkir.
Viljum gera enn betur
Bæjarstjórn mun, eins og kemur fram í bókun bæjarráðs, nýta könnunina til að gera enn betur og hlúa að íbúum þannig að aðstaða og þjónusta í bæjarfélaginu verði eins góð og mögulegt er.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri