Áminning um að þetta er ekki búið
Kæru bæjarbúar!
Mikilvægt er að muna að Covid faraldrinum er ekki lokið eins og við höfum verið áþreifanlega minnt á undanfarna daga hér í Hveragerði. Margir hafa vafalaust verið farnir að anda léttar þar sem afar fá smit hafa greinst undanfarna daga og flest þegar verið í sóttkví. En það er ljóst að full ástæða til að vera vakandi, fara eftir reglum og tilmælum og muna að þetta er ekki búið enn!
Smit hefur nú greinst hér í Hveragerði sem hefur valdið því að fjöldi fólks er nú komið í sóttkví. Vegna smits í starfsmannahópi grunnskólans eru nú 73 nemendur í sóttkví og 7 starfsmenn auk þess sem einn er í einangrun. Vegna smits á bæjarskrifstofu eru nú 6 starfsmenn þar í sóttkví og einn í einangrun. Í Hveragerði eru í dag 83 í sóttkví og 4 í einangrun smitaðir af Covid-19. Vonir standa til að með vítækri sóttkví þeirra sem hafa verið í námunda við smitaða einstaklinga takist að koma í veg fyrir frekari smit. Því er afar mikilvægt að brýna fyrir öllum að gæta að ítrustu smitvörnum, nota grímur, virða fjarlægðarmörk og þvo hendur oft og vel.
Við gerum þetta saman, virðum reglurnar og stöndum þetta af okkur eins og annað!
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri