Fara í efni

Hækkuðu fasteignamati mætt með lækkaðri álagningu


Fasteignaverð hefur hækkað mjög skarpt í Hveragerði að undanförnu með þeirri beinu afleiðingu að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað mjög mikið. Vegna þessa samþykkti bæjarstjórn að lækka verulega álagningarprósentur fasteignagjalda á íbúðar- og atvinnuhúsnæði (A og C flokk).

Með þessu er komið til móts við þær miklu hækkanir á gjöldum sem annars hefðu orðið að veruleika.

  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,40% í 0,36% og lóðarleiga úr 0,9% í 0,75%.
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,60% í 1,5% og lóðarleiga úr 1,7% í 1,5%.
  • Álagningarprósenta á vatnsgjald á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,08% í 0,06%.
  • Álagningarprósenta holræsagjalds lækkar úr 0,255% í 0,21% á alla flokka húsnæðis.

Bæjarstjórn harmar hækkun sorpurðunargjalds

Því miður reynist óumflýjanlegt að hækka verulega gjöld vegna sorpurðunar og verða þau á næsta ári kr. 21.000,- en voru kr. 15.100,- árið 2018. Reynt er að koma til móts við þessa miklu hækkun með lækkun sorphirðugjalda sem lækka úr kr. 17.700,- frá árinu 2018 og verða kr. 15.000.- árið 2019.

Hækkun vegna sorpurðunar er óumflýjanleg enda mun það ófremdarástand sem skapast hefur á Suðurlandi vegna þess að ekki finnst urðunarstaður fyrir sorp valda miklum fjárhagslegum álögum á alla íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Slíkt verður því miður ekki umflúið.

Umfang sorps hefur aukist mikið síðustu misserin og hefur kostnaður vegna sorpurðunar þar af leiðandi margfaldast. Íbúar geta aftur á móti haft bein áhrif á þennan kostnaðarauka með því að minnka það sorp sem fara þarf til urðunar.
Það verður best gert með aukinni flokkun.
-Að lífrænn úrgangur fari í brúnu tunnuna eða safnhauginn þar sem það á við.
-Að allt endurvinnanlegt hráefni fari í grænu tunnuna.
-Að allur fatnaður og allur annar textíll fari til Rauða krossins og að gler fari í gám á gámasvæði.

Flokka þarf grófan úrgang á gámasvæði enn betur en nú er gert til að tryggt sé að ekki sé verið að greiða himinhá gjöld fyrir úrgang sem hæglega gæti farið á jarðvegstipp. Bæjarbúum verða kynntir möguleikar og tækifæri sem felast í aukinni flokkun með sérstökum bæklingi og kynningu sem fara mun fram á næstu vikum.

Í lokin er rétt að geta þess að bæjarstjórn hefur ávallt haft hag bæjarbúa að leiðarljósi og leitast við að halda gjöldum í lágmarki. Það teljum við að hafi tekist við gerð fjárhagsáætlunar árið 2019 þó að utanaðkomandi aðstæður eins og sorpurðun setji nú strik í reikninginn.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.


Síðast breytt: 24. janúar 2019
Getum við bætt efni síðunnar?