80 ára afmæli lýðveldisins 17. júní
Kæru Hvergerðingar,
Nú er farið að styttast í þjóðhátíðardag okkar Íslendinga en í ár fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins með pompi og prakt hér í Hveragerði á 17. júní. Dagskráin verður kynnt á næstu dögum. Vonandi getum við öll notið dagsins saman, á hvaða aldri sem við erum.
Að sjálfsögðu verða fastir liðir hátíðardagskrárinnar á sínum stað; skrúðganga, hugvekja, fjallkonan, menningarverðlaun, ávarp frá forseta bæjarstjórnar og nýstúdent. Þá verða tónlistaratriði frá Söngsveit Hveragerðis, Grétari Örvars og Unni Birnu, Leikfélagi Hveragerðis og Prettyboitjokko auk þess sem Íþróttaálfurinn sýnir listir sínar og spjallar við yngstu kynslóðina.
Að lokinni formlegri hátíðardagskrá á sviðinu verður alls konar fjör í Lystigarðinum og nágrenni s.s. froðupartý með Slökkviliðinu, sápufótbolti, hoppukastalar, andlitsmálun, „skyrunners“ og fleira. Einnig verður afmæliskaka í boði íslenska ríkisins í tilefni dagsins. Þá verða skátarnir og knattspyrnudeild Hamars með sjoppur og veitingar á hátíðarsvæðinu.
Hátíðahöldin byrja snemma því að morgni þjóðhátíðardags verður teymt undir börnum hjá Hestamannafélaginu Ljúfi í Reykjadal og einnig verður Streetball keppni fyrir hádegi á vegum körfuknattleiksdeildar Hamars. Þá verður Wibit þrautabrautin í Sundlauginni Laugaskarði alla helgina og Skátafélagið Strókur býður upp á snjallsímaratleik um bæinn allan þjóðhátíðardaginn.
Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd hvetur hátíðargesti til að mæta í þjóðbúningum ef þeir hafa tök á (upphlutur, peysuföt, skautbúningur o.fl.). Þeim sem verða í þjóðbúningum er boðið að safnast saman í Varmahlíðarhúsinu þar sem hægt verður að spjalla, hjálpast að við skotthúfur eða annað og loks verður tekin mynd af hópnum áður en hátíðahöldin hefjast.
Það væri gaman að fá upplýsingar um viðburði hjá verslunum, veitingastöðum, kaffihúsum o.fl. tengt þjóðhátíðardeginum til að geta haldið utan um allt á einum stað. Tónleikar, leikir, kaffisala eða annað sem er sérstaklega bryddað upp á í tilefni af hátíðahöldunum. Einnig ef áhugi er fyrir að vera með varning eða veitingar til sölu á hátíðarsvæði. Upplýsingar sendist á netfangið sigridurhj@hveragerdi.is.
Með hátíðarkveðju,
Sigríður Hjálmarsdóttir
menningar-, atvinnu- og markaðsfulltrúi