Fara í efni

Hagnaður 8. árið í röð


Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2018 er jákvæð sem nemur 59,7 m.kr.

Fjárhagur bæjarins er í traustum skorðum nú sem fyrri ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A og B hluta frá árinu 2012.

Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar að undanförnu en einnig hefur aðhald og árvekni í rekstrinum reynst nauðsyn til að svo jákvæð niðurstaða næðist.

Á árinu 2018 lauk að fullu stærstu framkvæmd undangenginna ára, byggingu 6 deilda leikskóla við Þelamörk sem fullbyggður kostaði 716 mkr.

Á árinu 2018 var gengið frá kaupum á Kambalandinu en með þeim kaupum ásamt innlausn á erfðafestu Friðarstaða og kaupum á Sólborgarsvæðinu er Hveragerðisbæ tryggt nægt byggingaland til næstu áratuga.

Unnið hefur verið að gatnagerð í Vorsabæ en þar verður mögulegt að úthluta enn fleiri lóðum til atvinnustarfsemi á næstunni.

Sterk stjórn á fjármálum bæjarins ásamt skynsamlegri uppbyggingu innviða og þjónustu hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum sú besta sem gerist á landinu. Fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fjöldi íbúða í byggingu. Því er fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum.

Ársreikningur 2018 sýnir sterka afkomu Hveragerðisbæjar bæði sveitarsjóðs og samstæðu(A og B hluta). Samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 300,9 mkr. eða sem nemur ríflega 10,5% af heildartekjum bæjarins.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 378,5 mkr. eða sem nemur um 13,2% af heildartekjum samstæðu. Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2018 110 % sem er 40 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað.

Rekstrarniðurstaða samstæðu (A og B hluta) er jákvæð um 59,6 mkr.. Langtímaskuldir samstæðu að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 nema 2.600 mkr… Lífeyrisskuldbinding er 582 mkr.. Samtals gerir þetta 3.182 mkr. eða rétt ríflega 1,2 mkr. pr íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar.

Fjárfestingar á árinu 2018 námu 300 mkr.. á móti fjárfestingu ársins 2017 er nam 522.3 mkr..

Helstu fjárfestingar ársins fólust eftirfarandi:

  • byggingu nýs leikskóla við Þelamörk(64 mkr.)
  • kaupum á Kambalandi (203 mkr.)
  • gatnagerð, vatns- og fráveituframkvæmdum(186 mkr.)
  • endurbótum á sundlauginni Laugaskarði (75 mkr.)
  • frágangi á Friðarstöðum (5.9 mkr.)
  • viðgerðum á Mjólkurbúi (6,6 mkr.)

aðrar fjárfestingar voru smærri á árinu.

Tekjur vegna gatnagerðargjalda námu 216 mkr.. Tekin ný langtímalán voru 492 mkr. þar af vegna uppgjörs á skuldbindingum vegna lífeyrissjóðs Brúar 362 mkr..

Afborganir langtímalána námu 188,5 mkr.. Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 50% af skatttekjum, félagsþjónustan 11,4% og æskulýðs- og íþróttamál 9,2%.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðri og styrkri stjórn forstöðumanna bæjarins og framlagi starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Meirihluti D-listans færir þeim öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins.

Fjárhagsáætlanir undanfarinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 5. júní 2019
Getum við bætt efni síðunnar?