Fara í efni

Velkomin á Blómstrandi daga

Fjölbreyttar listsýningar eru víða, markaðstorg með grænmeti, handverki og bókum og opnar vinnustofur og gallerí hjá fjölmörgum listamönnum. Sjá nánar á kortinu hér fyrir neðan. Fjölskyldudagskrá verður á laugardeginum í Lystigarðinum þar sem m.a. koma fram tónlistarmenn úr bænum okkar: Hljómlistarfélag Hveragerðis verður með fjölskylduskemmtun, Berglind María, Sædís og Kjartan, syngja og spila. Hinn vinsæli Friðrik Dór kemur í heimsókn og syngur sína þekktustu slagara. Síðan verður barnaball með Diskótekinu Dísu. Leikhópurinn Lotta sýnir í Lystigarðinum leikritið Gosa á sunnudeginum og BMX brós sýna listir sínar á Skatepark svæði Grunnskólans. Einnig má skemmta sér í veltibílnum, aparólu, bubble bolta, tívolí o.fl.

Ísdagurinn hefur mikið aðdráttarafl en það verður gaman að smakka allskyns furðubrögð og fleiri tegundir þegar Kjörís heldur sína árlegu hátíð en þar verður einnig skemmtidagskrá á sviði og kraftakeppni með Hjalta Úrsus. Fleiri þjónustufyrirtæki í bænum bjóða uppá fjölbreytta dagskrá og má nefna listsýningu í Frost og Funa, neðri hæð frá kl. 12 – 16 á laugardag, B…bingó í Ölverk og Föstudagsleika í Rósakaffi með Unni Birnu Bassadóttur, Pétri Jesú og Sigurgeiri Skafta Stuðlabands.

Vönduð tónlistardagskrá verður alla dagana þar sem landsfrægir tónlistarmenn koma fram. Helgi Björns verður með tónleika á fimmtudagskvöldinu í Skyrgerðinni og Blúsmenn Andreu á föstudagskvöldinu. Aðeins er 150 miðar í boði á hvora tónleika og er forsala á bæjarskrifstofum. Á sunnudeginum eru tónleikar með Hildi Völu og Jóni Ólafs í Listasafninu kl. 17 en Hildur Vala er nýverið búin að gefa út plötu sem er virkilega vel flutt. Hin árlega brenna og brekkusöngur verður í Lystigarðinum á laugardagskvöldinu og stórglæsileg flugeldasýning sem engin má missa af. Hljómsveitin Værð leikur og Gunni og Felix koma í heimsókn. Hljómsveitin Stuðlabandið leikur á Blómadansleiknum sem verður á Hótel Örk. Það er tilvalið að heimsækja bæinn og njóta þess sem er í boði.

Við bjóðum alla velkomna. Sjá nánar á http://www.hveragerdi.is/ og á facebook


Síðast breytt: 15. ágúst 2018
Getum við bætt efni síðunnar?