Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

204. fundur 01. júní 2021 kl. 17:00 - 18:14 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Gísli Páll Pálsson formaður
  • Laufey Sif Lárusdóttir
  • Snorri Þorvaldsson
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Kristján Björnsson
Starfsmenn
  • Guðmundur F Baldursson skipulagsfulltrúi
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Gísli Páll Pálsson setti fund, sem haldinn var á bæjarskrifstofunni Breiðumörk 20 og bauð fundarmenn
velkomna á fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

1.Athafnasvæði AT3, breyting á aðalskipulagi

2106636

Á 203. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar var tekið fyrir málið ,,Reykjamörk 22, stækkun lóðar og leyfi til að hefja skipulagsgerð“. Nefndin lagði til við bæjarstjórn að aðalskipulag AT3 reits, sbr. aðalskipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029, yrði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að vægi íbúðarbyggðar yrði aukið og samhliða því yrði staða gróðurhúsa á reitnum skoðuð, sbr. ákvæði í skýrslu um varðveislugildi gróðurhúsa. Bæjarstjórn samþykkti tillögu nefndarinnar og í framhaldi eða samhliða vinnu við endurskoðun aðalskipulags yrði ráðist í deiliskipulagsgerð á svæðinu.

Í skilmálum aðalskipulags er gert ráð fyrir blandaðri ylræktar- og íbúðarbyggð á reitnum, þar sem íbúðarbyggð megi vera allt að 30% af heildar byggingarmagni.

Skipulagsfulltrúi telur eðlilegt að fela Landform ehf. að leggja fram tillögu um mögulega valkosti um landnotkun á reitnum sem taki mið af markmiðum bæjarstjórnar. Vinna við deiliskipulag svæðisins muni síðan taka mið af þeirri niðurstöðu sem kemur út úr því. Skipulagsfulltrúi telur rétt að nefndarmenn skoði gróðurhús á reitnum og meti stöðu þeirra í samræmi við ákvæði skýrslu um varðveislugildi gróðurhúsa og að tekið verði tillit til matsins við skipulagsgerðina.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að Landform ehf. verði falið að endurskoða aðalskipulag AT3 reitsins með hliðsjón af markmiðum bæjarstjórnar. Jafnframt ákveðið að nefndarmenn skoði gróðurhúsin á reitnum og meti stöðu þeirra eins og skipulagsfulltrúi leggur til.

2.Grænamörk 10, breyting á deiliskipulagi NLFÍ svæðis, íbúðarbyggð á reit ÍB14, götuheiti.

2105130

Á 203 fundi nefndarinnar var lögð fram breytt tillaga að deiliskipulagi íbúðarbyggðar á reit ÍB14, dags. 19. apríl 2021 og var samþykkt að auglýsa hana í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Lögð fram tillaga Náttúrulækningafélags Íslands, sbr. tölvupóst dags. 18. maí sl. þar sem lagt er til að húsagata á ÍB14 reitnum fái heitið Lindarbrún en það fer vel við íbúðabyggðina sem er í beinu framhaldi af Lækjarbrún. Hugtakið „lind“ tengist vatni með ýmsum hætti eins og sjá má í Íslensku orðaneti, stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ákveðinn samhljómur er á milli götuheitanna Lækjarbrún og Lindarbrún,sem sannanlega er í nálægð við heilsulind NLFÍ og Varmá. Það er auk þess kostur að göturnar hafi sama upphafsstaf og að götuheitið er sem slíkt alveg nýtt á Íslandi.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að umrædd gata fái heitið Lindarbrún.

3.Deiliskipulag við Réttarheiði, breytingartillaga.

2105131

Á fundi bæjarstjórnar þann 12. maí sl. var samþykkt að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja nú þegar vinnu við nauðsynlegar breytingar á skipulagi með það fyrir augum að á lóð leikskólans Óskalands verði þegar í haust hægt að koma fyrir tveimur færanlegum kennslustofum í eins góðum tengslum við núverandi byggingu og kostur er. Jafnframt verði horft til þess að fljótlega verði byggt við stoðrými skólans og því mikilvægt að hugað verði að þeirri stækkun við skipulagsgerðina.

Lögð fram tillaga Ask arkitekta, dags. 31. maí sl. sem sýnir staðsetningu á lausum kennslustofum og viðbyggingu við leikskólann.

Lóðin Finnmörk 1 er skv. aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029, á samfélagsþjónustureit S2 og er þar nú starfræktur 4 deilda leikskóli og heimilt er að stækka hann í 5-6 deilda leikskóla.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Réttarheiði, gerð af Landform ehf. dags. 20. maí sl. sem felur í sér að byggingarreitur fyrir leikskólabygginguna færist og lengist til suðvesturs meðfram Finnmörk, aðkoma og bílastæði færast frá Finnmörk og norður fyrir lóðina, bílastæðum fjölgar úr 23 í 41 stæði og nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkar úr 0,15 í 0,20.
Að mati skipulagsfulltrúa er tillagan í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag og að hún víki ekki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Að mati nefndarinnar er breytingin óveruleg sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leggur hún til við bæjarstjórn að hún verði grenndarkynnt í samræmi 44. gr. sömu laga.

4.Kambaland, breyting á deiliskipulagi.

2105132

Á fundi bæjarráðs þann 6. maí sl. var var samþykkt tillaga bæjarstjóra, sbr. meðfylgjandi minnisblað dags. 3. maí sl. um að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja nú þegar endurskoðun á deiliskipulagi efsta hluta Kambalands með það að markmiði að fjölga íbúðum á svæðinu með fjölbreyttari húsgerðum s.s parhúsum og smærri raðhúsum, auka fjarlægð byggðarinnar frá Ljóðalaut og Hamrinum, sýnilegar minjar um fornar þjóðleiðir verði gerðar aðgengilegar og að hugað verði að leiksvæðum, göngustígum og aðgengi að vinsælum gönguleiðum.

Í aðalskipulagi Hveragerðis 2017-2029 er Kambaland skilgreint sem íbúðarbyggð (ÍB1). Í skilmálum aðalskipulags segir að stærð svæðisins sé 30,4ha og meðalþéttleiki byggðar skuli vera 12 íb/ha eða samtals um 365 íbúðir. Á svæðinu er gert ráð fyrir sérbýlum og litlum fjölbýlishúsum á 1-2 hæðum. Nýtingarhlutfall lóða skal vera á bilinu 0,3-0,45. Skv. núgildandi deiliskipulagi fyrir Kambaland er gert ráð fyrir 283 íbúðum á svæðinu og er því svigrúm til fjölgunar íbúðum um allt að 82. Höfundur deiliskipulagsins er Ingimundur Sveinsson arkitekt og leggur skipulagsfulltrúi til að leitað verði til hans um endurskoðun skipulagsins.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar verði falið að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kambalands í samræmi við samþykkt bæjarráðs og tillögu bæjarstjóra. Við deiliskipulagsgerðina verði einnig horft til þess að heimila 2ja hæða hús í jaðri byggðar og annars staðar þar sem aðstæður leyfa.

5.Breiðamörk 23, fjölgun bílastæða úr 5 í 6.

2105133

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar, sem haldinn var 20. maí sl. var samþykkt að vísa erindi frá Kristni Kristjánssyni, dags. 11. maí sl. til skipulags- og mannvirkjanefndar. Í bréfinu er þess óskað að bílastæðum við Breiðumörk 23 verði fjölgað úr 5 í 6 stæði. Skv. lóðarleigusamningi fyrir lóðina Breiðumörk 23 verða engin bílastæði leyfð á lóðinni sjálfri en lóðarhafar hafa 5 bílastæði til afnota sem staðsett eru utan lóðarmarka.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.

6.Bonn - áskorun -kall til sveitarfélaga að taka þátt.

2105050

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar, sem haldinn var 20. maí sl. var samþykkt að vísa erindi frá Skógræktinni og Landgræðslunni dags. 10. maí sl. til skipulags- og mannvirkjanefndar. Óskað er eftir þátttöku sveitarfélaga í Bonn áskoruninni, sem er alþjóðlegt átak um útbreiðslu eða endurheimt skóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum. Stjórnvöld hafa sett Íslandi það markmið að auka verulega þekju birkiskóga og birkikjarrs til að auka landgæði, efla jarðvegsauðlindina og styrkja byggð í landinu.
Nefndin bendir á að Skógræktarfélag Hveragerðis hefur um langt árabil séð um og haft umsjón með skógrækt í suðurhlíðum Hamarsins og auk þess er í aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 lögð áhersla á eflingu landgræðsluskógar norðan Hamars í samræmi við samning Hveragerðisbæjar, Skógræktarfélags Hveragerðis og Skógræktarfélags Íslands frá árinu 1994. Þrátt fyrir að Hveragerðisbær sé landlítið sveitarfélag þá eru þar víða möguleikar á að auka landgæði með ræktun birkiskóga eða birkikjarrs t.d. í Kömbum og einnig mætti í þeim tilgangi hefja gerð skjólbelta á framtíðar byggingarsvæðum bæjarins eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi.

7.Umferðaröryggi

2105129

Á fundi bæjarstjórnar þann 12. maí sl. var tekið fyrir bréf frá íbúum við efri hluta Heiðmerkur dags. 21. apríl sl. þar sem þeir lýsa óánægju sinni á miklum umferðarhraða í Heiðmörk. Samþykkt var að fela skipulagsog mannvirkjanefnd að fara yfir umferðaröryggisáætlun bæjarins ,,Umferðaröryggi, stefnumörkun og forgangsröðun aðgerða (2007)“, með það fyrir augum að meta hvort nóg sé að gert til að auka umferðaöryggi í bæjarfélaginu og hvort rétt sé að fjölga gönguþverunum.

Skipulagsfulltrúi benti á að Verkís hafi verið ráðgjafar Hveragerðisbæjar í umferðaröryggismálum frá árinu 2005 og gert ofangreinda skýrslu. Við gerð Aðalskipulags Hveragerðisbæjar 2017-2029 var flokkun gatna endurskoðuð og sett ákvæði um hámarkshraða einstakra gatna. Einnig voru hjóla-, göngu- og reiðleiðir
skilgreindar og kortlagðar. sbr. 3.14.1 kafla greinargerðar aðalskipulags. Við aðalskipulagsgerðina var staðsetning og gerð gönguþverana ekki endurskoðuð sérstaklega.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að leitað verði til Verkís um að endurskoða þau atriði í umferðaröryggisskýrslunni sem varða hámarshraða, aðgerðir til hraðalækkunar og staðsetningu og gerð 30km hliða og gönguþverana.

Fundi slitið - kl. 18:14.

Getum við bætt efni síðunnar?