Skipulags- og mannvirkjanefnd
Gísli Páll Pálsson setti fund, sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi og bauð fundarmenn velkomna á fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.
Fundurinn hófst kl. 17:00 og var slitið kl. 18:16.
Mál fyrir fundi:
Nr. 1
Málsnúmer: 201809205986
Heiti máls: Friðarstaðareitur, deiliskipulag.
Lýsing á máli:
Lögð fram ný drög að deiliskipulagi Friðarstaðareits gerð af Ask arkitektum og Landslagi ehf ásamt greinargerð dags. í desember 2020. Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir tillögunni.
Þar sem deiliskipulagið nær til mun stærra svæðis en lóðarinnar Friðarstaðir, þá hefur komið upp tillaga um að heiti skipulagsins verði ,,Deiliskipulag við Varmá“..
Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að áfram verði unnið við deiliskipulagsgerðina í samræmi við fyrirliggjandi drög og greinargerð. Stefnt verði að því að fullunnin tillaga verði lögð fyrir nefndina í janúar nk. Nefndin leggur jafnframt til að deiliskipulagið fái heitið ,,Deiliskipulag við Varmá".
Nr. 2
Málsnúmer. 202010636072
Heiti máls: Nýtt deiliskipulag fyrir íbúðabyggð NLFÍ, deiliskipulagslýsing, umsagnir sem borist hafa.
Lýsing á máli:
Á 197. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar var lögð fram lýsing á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029, sem nær til landnotkunarreita VÞ6 og S8 og á tillögu að nýju deiliskipulagi íbúðabyggðar á suðurhluta lóðar NLFÍ, við Þelamörk. Samþykkt var að leita eftir umsögn Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga.
Skipulagslýsingin hefur nú verið send til umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagaraðila og auglýst á heimasíðu bæjarins og í héraðsblaði. Eftirfarandi umsagnir hafa borist:
Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 1. desember 2020. Í umsögninni kemur fram að stofnunin telji lýsinguna veita góða mynd af viðfangsefni skipulagsbreytingarinnar en minnir á að auk þeirrar málsmeðferðar sem lýst er þarf að kynna skipulagstillöguna skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Þá þarf að koma fram í tillögunni hvort gert er ráð fyrir stækkun svæðis ÍB12 eða afmarkaður verði nýr íbúðarreitur. Stofnunin bendir á að í gildi er deiliskipulag fyrir svæðið og eðlilegra getur verið að breyta því. Ef gert er nýtt deiliskipulag þarf að gæta þess að breyta afmörkun þess sem fyrir liggur samhliða.
Bréf frá Vegagerðinni dags.23. nóvember sl. þar sem engar athugasemdir eru gerðar.
Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 30. nóvember sl. þar sem engar athugasemdir eru gerðar en bent á að NLFÍ hafi yfir að ráða einkavatnsbóli og æskilegt væri að tekið sé fram hvaðan neysluvatn komi í aðal- og eða deiliskipulagi.
Afgreiðsla máls:
Nefndin þakkar viðkomandi aðilum fyrir umsagnir um lýsinguna og telur rétt að tekið verði tillit til ábendinga, sem þar koma fram.
Nr. 3
Málsnúmer: 202010176074
Heiti máls: Hlíðarhagi, breyting á aðal- og deiliskipulagi, skipulagslýsing og lagfærð deiliskipulagstillaga.
Lýsing á máli:
Á 197 fundi nefndarinnar var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir íbúðarsvæði í Hlíðarhaga sem felur í sér að íbúðum á svæðinu fjölgar úr 27 í 45. Nefndin lagði til við bæjarstjórn að a.m.k. 1,5 bílastæði yrði fyrir hverja íbúð í hverfinu og að hugað yrði að hleðslustöðvum fyrir rafbíla við deiliskipulagsgerðina.
Skipulagsfulltrúi gerði grein tölvupósti frá Skipulagsstofnun dags. 18. nóvember sl. þar sem stofnunin telur að gera verði lýsingu á breytingu á aðalskipulagi og að eðlilegt sé að gera sameiginlega lýsingu fyrir bæði breytingu á aðal- og deiliskipulagi fyrir Hlíðarhaga.
Lögð fram tillaga að lýsingu á tillögum um breytingu á aðal- og deiliskipulagi fyrir Hlíðarhaga, gerð af T.ark arkitektum dags. 27. nóvember 2020. Jafnframt var lögð fram lagfærð tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins dags. nóvember sl. þar sem komið er til móts við tillögu nefndarinnar um fjölda bílastæða og rafhleðslustöðvar.
Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að hún leiti umsagnar Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynni hana fyrir almenningi sbr. 1. mgr. 30. gr. og 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Nefndin gerir ekki athugasemd við lagfærða tillögu að deiliskipulagi við Hlíðarhaga.
Nr. 4
Málsnúmer: 202012246078
Heiti máls: NLFÍ, ósk um breytingu á aðalskipulagi á tjaldsvæði við Reykjamörk og á Fagrahvammstúni.
Á fundi bæjarstjórnar þann 26. nóvember sl. var lagt fram erindi frá NLFÍ, dags. 9. nóvember sl., þar sem félagið óskaði eftir því að hefja samtal við bæjaryfirvöld um breytingu á aðalskipulagi á norðurhluta lóðar NLFÍ og á reitunum AF1-Tjaldsvæði við Reykjamörk og OP13-Fagrahvammstún, sem feli í sér annars vegar að þar verði íbúðarbyggð, sem tengist starfsemi HNLFÍ, með svipuðum hætti og byggðin í Lækjarbrún og hins vegar að unnt verði að stækka byggingu heilsudvalastaðar til norðurs.
Erindið var sent í framhaldi af hönnunarsamkeppni um framtíðarskipulag á landi NLFÍ og yfirlýsingu bæjarstjórnar dags. 4. október 2018 um að hún væri tilbúin til viðræðna um afnot NLFÍ af svæðinu öllu eða hluta þess að því tilskyldu að fram komi raunhæf áform um uppbyggingu, sem falla að framtíðarhugmyndum bæjaryfirvalda um landnýtingu og sem tengjast og/eða styrkja aðra uppbyggingu NLFÍ í Hveragerði.
Bæjarstjórn samþykki að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja vinnu við að kanna vilja bæjarbúa til að þessi breyting verði gerð og að kanna hvaða aðrir valkostir eru í stöðunni fyrir tjaldsvæðisþjónustu eins og nú er við Reykjamörk.
Skipulagsfulltrúi upplýsti að auk tjaldsvæðis við Reykjamörk sé í Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029, gert ráð fyrir nýju tjaldsvæði á Árhólmasvæði, sem verði með náttúrulegu yfirbragði og minni uppbyggingu en í Reykjamörk. Þar er megináhersla lögð á þjónustu við göngu- og útivistarfólk og ríkar kröfur gerðar til sjálfbærni og umhverfismótunar. Í aðalskipulagi er því gert ráð fyrir að þjónusta og yfirbragð svæðisins verði með öðrum hætti en á tjaldsvæði við Reykjamörk.
Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að Landform ehf. verði falið, í samráði við skipulagsfulltrúa, að gera tillögu að 2-3 valkostum fyrir tjaldsvæði í Hveragerði, sem veiti sambærilega þjónustu og núverandi tjaldsvæði við Reykjamörk, til að kynna fyrir íbúum bæjarins og öðrum hagsmunaaðilum.
Nr. 5
Málsnúmer: 202007856059
Heiti máls: Kambahraun 3, umsókn um byggingarleyfi fyrir saunahúsi á lóð, niðurstaða grenndarkynningar.
Tegund lóðar: Íbúðarlóð.
Lóðarhafar: Dörte Zenker kennitala 080277-4239 og Jens Zenker kennitala 240377-3069, Kambahrauni 3, 810 Hveragerði.
Hönnuður aðaluppdrátta: Ólafur Tage Bjarnason 1504823489.
Lýsing á máli:
Á 196. fundi nefndarinnar var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir saunahúsi á lóðinni Kambahraun 3, skv. leiðréttum aðaluppdrætti þar sem fjarlægð saunahúss frá lóðarmörkum lóðarinnar Kambahraun 1 er m.a. breytt í 3,6m í stað 1,6m sbr. áður grenndarkynnta teikningu. Samþykkt var að grenndarkynna framkvæmdina sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Framkvæmdin hefur nú verið grenndarkynnt. Frestur til að gera athugasemdir við hana var til 12. nóvember sl. Ein athugasemd barst, frá lóðarhöfum lóðarinnar Kambahraun 1, dags. 5. nóvember sl. þar sem framkvæmdinni er mótmælt, því hún muni, að þeirra mati, hafa veruleg neikvæð áhrif á heildarmynd svæðisins og ásýnd götumyndar. Eðlilegra sé að staðsetja hana á baklóð þar sem nægt rými sé til staðar.
Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt. Nefndin telur að ónæði frá saunahúsinu verði ekki meira en almennt gerist á íbúðarlóðum. Snorri Þorvaldsson var ósammála öðrum nefndarmönnum og vildi hafna erindinu á grundvelli framlagðra athugasemda.
Nr. 6
Málsnúmer: 202010696066
Heiti máls: Heiðmörk 23, umsókn um byggingarleyfi fyrir nýju einbýlishúsi og niðurrifi á eldra húsi, niðurstaða grenndarkynningar.
Tegund lóðar: Íbúðarlóð.
Lóðarhafi: Matthías Ottósson kennitala 161149-3739 Heiðmörk 23, 810 Hveragerði.
Hönnuður aðaluppdrátta: Ragnar Auðunn Birgisson kt. 230160-4499.
Lýsing á máli:
Á 196. fundi nefndarinnar var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir nýju einbýlishúsi, ásamt sambyggðri bílgeymslu á lóðinni Heiðmörk 23. Núverandi einbýlishús á lóðinni verður jafnframt rifið. Meðfylgjandi var aðaluppdráttur gerður af THG arkitektum. Nýbyggingin verður 139,3m2 að flatarmáli og nýtingarhlutfall lóðarinnar verður 0,22.
Lóðin, sem er á þegar byggðu svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir, er skv. aðalskipulagi á íbúðarreit ÍB7 Þar þar sem möguleiki er á þéttingu byggðar einkum á baklóðum. Á reitnum er hverfisvernd (HV4), sem felur í sér að varðveita beri byggðamynstur og götumynd. Nýtingarhlutfall má vera á bilinu 0,3-0,4. Samþykkt var að grenndarkynna framkvæmdina sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Framkvæmdin hefur nú verið grenndarkynnt. Frestur til að gera athugasemdir við hana var til 12. nóvember sl. Engar athugasemdir bárust.
Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt. Hlynur sat hjá við afgreiðslu málsins.
Nr. 7
Málsnúmer. 202010636072
Heiti máls: Hjallabrún, ósk um stækkun á lóðum.
Lýsing á máli:
Lagt fram bréf, dags. 14. nóvember 2020, frá lóðarhöfum lóða nr. 25- 27, 29-31 og 33-35 við Hjallabrún þar sem þess er óskað að bætt verði við baklóðir þeirra eins og skipulag leyfir að Sunnumörk.
Að mati skipulagsfulltrúa er svigrúm til stækkunar á þessum lóðum afar lítið og m.a. þarf að taka upp u.þ.b. 1m hæðarmun frá viðkomandi lóðum að göngustíg við Sunnumörk. Að teknu tilliti til þess að þessar þrjár lóðir og þá einkum lóðirnar Hjallabrún 29-31 og 33-35 eru mun grynnri en aðrar lóðir við götuna þá telur hann að ásættanlegt kunni að vera að stækka lóðirnar út í sömu línu og lóðir við Dalsbrún eða um u.þ.b. 2m, þó þannig að lóðarmörk á milli lóða nr. 23 og 25 breytist ekki.
Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að lóðirnar verði stækkaðar eins og skipulagsfulltrúi telur ásættanlegt. Þar sem umræddar lóðir eru mun minni en aðrar lóðir í götunni þá telur nefndin að stækkunin gefi ekki fordæmi fyrir stækkun annarra lóða við Hjallabrún.
Nr. 8
Málsnúmer: 202011586077
Heiti máls: Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 - Nýtt deiliskipulag - Skipulags- og matslýsing.
Lýsing á máli:
Lögð fram til umsagnar skipulags- og matslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020, gerð af Eflu verkfræðistofu, dags. 8. október 2020. Fyrirhuguð er breyting á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020, sem felur í sér að skilgreina iðnaðarsvæði á Folaldahálsi á jörðinni Króki (L170822). Í deiliskipulagi fyrir sama svæði verður gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum á svæðinu og settir fram skilmálar um landnotkun, byggingar og vernd náttúru- og menningarminja. Fyrirhugað er að reisa á svæðinu 3,9 MW gufuaflsvirkjun og að þar verði 3 borholur ásamt gufuskilju, gufuháfur ásamt gufulögnum og öðrum búnaði gufuaflsvirkjunar auk stöðvarhúss og kæliturna. 11 kV jarðstrengur verður lagður að bænum Krók í Grafningi og tengdur inn á dreifikerfi RARIK. Rafmagn frá virkjuninni verður nýtt fyrir sumarhúsabyggð og mögulega aðra starfsemi í landi Króks. Frestur til að gera athugasemdir við lýsinguna er til 9. desember nk.
Afgreiðsla máls:
Nefndin bendir á að Hengilssvæðið, sem nær m.a. til hluta Grafningshrepps og Grændals er á náttúruminjaskrá (752) vegna stórbrotins landslags, fjölbreytni í jarðfræðilegri gerð og jarðhita. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tilnefnt Grændal í B-hluta náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi og ferskvatnsvistgerða þar sem nýting til orkuvinnslu er talin til helstu ógna og að friða þurfi svæðið fyrir orkuvinnslu. Álftatjörn, Kattartjarnir og stórt landsvæði norðvestur af þeim nýtur hverfisverndar (HV13) sbr. Aðalskipulag Grímsnes og Grafningshrepps 2008-2020 en í greinargerð aðalskipulagsins segir að jarðrask á hverfisverndarsvæðinu sé með öllu óheimilt og einvörðungu verði leyfð takmörkuð mannvirkjagerð sem tengist útivist á svæðinu. Iðnaðarsvæðið, eins og það er afmarkað á myndum 1-4. í skipulagslýsingu er við austurbakka Álftatjarnar á um 300m breiðri landræmu á milli hverfisverndarsvæðis H13 og Grændalssvæðisins, þar sem náttúra er hvað stórbrotnust á Hengilssvæðinu. Að mati nefndarinnar liggja almannahagsmunir miklu frekar í verndun svæðisins en röskun þess til minniháttar orkunýtingar. Nefndin leggur því til við bæjarstjórn að fyrirhuguðum virkjunaráformum á Folaldahálsi á jörðinni Króki verði harðlega mótmælt.