Fræðslunefnd
Birkir formaður nefndarinnar setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.
Eftirfarandi fært til bókar:
1. Málefni leikskóla.
Guðmundur F. Baldursson skipulags- og byggingafulltrúi sagði frá framkvæmdum og hönnunarvinnu við nýjan leikskóla sem rís austast í bænum.
Skýrslur leikskólastjóra; Sesselja Ólafsdóttir fór yfir starfsemi leikskólans Undralands. Á Undralandi verða 58 nemendur í vetur. Skólahópurinn, elstu börnin, verður á Brekku í vetur og börnin völdu að breyta nafninu í Skólabrekku. Í skólahóp eru 20 börn. Nú síðsumars hefur heilmikið verið um útiveru, gönguferðir og farið í berjamó. Deildarstjórar eru að undirbúa vinnustundir vetrarins og hefst vetrarvinna í september eftir stundatöflu. Í haust tökum við inn nýtt námsefni þ.e. „leikur að læra“. Starfsfólk Undralands stefnir á námsferð til útlanda í apríl 2017.
Guðlaug Jónsdóttir fór yfir skýrslu frá Óskalandi. Þó nokkrar breytingar hafa orðið á starfsmannahópnum. Einn deildarstjóri er í mastersnámi í stjórnun menntastofnana og einn leiðbeinandi hefur hafið annað ár sitt í HA í leikskólakennarafræðum. Mikið álag hefur verið á starfsfólk í ágústmánuði. Búið var að raða niður aðlögun barna fyrir sumarleyfi með það í huga að starfsfólk yrði að störfum. Óvænt og löng veikindi settu verulegt strik í reikninginn, starfsfólk tók einnig sumarleyfi í ágúst þar sem sumarlokun var einungis fjórar vikur og margir starfsmenn eiga fleiri daga í lögbundnu sumarleyfi. Starfsmenn hafa líka verið að taka út yfirvinnufrí sem það hefur áunnið sér því ekki hefur verið greidd yfirvinna nema að litlu leyti. Af þessu má vera ljóst að framvegis verður ekki hægt, að mati leikskólastjóra, að úthluta plássum til foreldra barna á biðlista fyrir sumarleyfi nema að tryggja að nægt starfsfólk verði að störfum þegar aðlögun hefst að hausti. Inntöku 23 nýrra barna lokið. Skólahópurinn telur 23 börn. Deildarstjórar eldri deildanna hafa skipulagt starfið þannig að skólabörnin verði öll saman í allri kennslu og vinnu.
Leikskólastjórar telja að nauðsynlegt sé að hefja vinnu við viðbragðsáætlun vegna tímabundinnar undirmönnunar eins og að ofan greinir.
Leikskólastjórar kynntu niðurstöður úr Hljóm-2 prófinu fyrir árin 2014-2016.
2. Skýrsla skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði.
Skólastjóri sagði frá upphafi skólastarfs við skólann. Stjórnendur mættu til starfa 2.ágúst og var fyrsti skipulagsdagur starfsmanna 15.ágúst. Skólastarfið fer vel af stað og má segja að bjart sé yfir mannskapnum og skólanum öllum. Nemendur eru í dag 329, 160 stúlkur og 169 drengir í 9 bekkjardeildum. Nemendur 8.bekkja eru saman í einn bekkjardeild en bekkir/árgangar eru blandaðir í hinum ýmsum verkefnum. Starfsmenn eru ríflega 70 í mismunandi stöðugildum og hefur gengið framúrskarandi vel að manna stöður.
3. Starfsáætlun GíH.
Skólastjóri fór yfir helstu atriði sem að verða á starfsáætlun GíH þetta skólaár. Þar má nefna: Skólanámskrá verður gefin út endurskoðuð á þessu skólaári. Unnið er að innleiðingu viðmóts í K3 Mentor, kennsluáætlanir, námsmarkmið og fleira. Áfram verður unnið því að efla umhverfisvitund meðal starfsmanna og nemenda og verða útistofa ásamt almennri útivist nýtt markvisst í starfi skólans. Áfram verður unnið að því að gera GíH að heilsueflandi grunnskóla. Í skólanum verður áfram unnið með ART. Um er að ræða ART meðferðarhópa, og bekkjar - ART sem er hugsað sem forvörn og kemur inn strax á leikskólastigi og svo áfram á yngsta-, mið-, og á elsta stigi. Lögð var könnun fyrir alla starfsmenn skólans í upphafi starfsársins þar sem viðhorf starfsmanna til þeirra verkefna sem hafa verið fyrirferðamikil á starfsáætlun voru skoðuð. Það var greinilegt að verkefnið Uppeldi til ábyrgðar hafði ekki mikinn stuðning og því tóku stjórnendur skólans þá ákvörðun að fresta áframhaldandi innleiðingu UTÁ. Starfsáætlun Grunnskólans í Hveragerði lögð fram og samþykkt af Fræðslunefnd.
4. Skipurit Grunnskólans í Hveragerði.
Skólastjóri fór yfir stjórnun GíH. Tekin var upp staða aðstoðarskólastjóra og var Matthea Sigurðardóttir ráðin til starfsins. Heimir Eyvindarson er nú deildarstjóri náms og kennslu en unnar voru nýjar starfslýsingar samhliða breytingum á skipuritinu. Málefni sér- og stuðningskennslu heyra nú undir aðstoðarskólastjóra og deildarstjóri náms og kennslu er meðal annars ritstjóri skólanámskrár og yfir málefnum elsta stigs. Stigstjórar eru tveir og sitja í stjórnendateymi. Stigstjórar eru Þorbjörg Lilja Jónsdóttir á yngsta stigi og Sigmar Karlsson á miðstigi.
4. Breytingar á skóladagatali.
Sævar Þór kynnti breytingar á skóladagatali. Skipulagsdagur sem áætlaður var miðvikudaginn 19. apríl verði færður til þriðjudagsins 18. apríl. Skóladagatal Grunnskólans í Hveragerði lagt fram og samþykkt af Fræðslunefnd.
5. Starfsemi Skólasels.
Skólastjóri greindi frá starfsemi Skólaselsins. Stjórnendur GíH gera tillögu að breytingum á reglum um Skólasel á þann hátt að Skólaselið sé opið nemendum 1.-3. bekkja, ekki nemendum 4. bekkja eins og verið hefur. Tillögunni vísað til bæjarstjórnar.
Fleira ekki gert og fundi slitið.