Fara í efni

Fræðslunefnd

121. fundur 09. janúar 2017 kl. 17:00 - 18:43 Skólamörk 6
Nefndarmenn
  • Birkir Sveinsson
  • Bjarney Sif Ægisdóttir
  • Steinar Rafn Garðarsson
  • Þórhallur Einisson
  • Sjöfn Ingvarsdóttir
  • Dagbjört Helga Guðmundsdóttir fulltrúi sveitarfélagsins Ölfus
  • V. Baldur Guðmundsson fulltrúi sveitarfélagsins Ölfus
Starfsmenn
  • Sævar Þór Helgason skólastjóri GíH
  • Sigmar Karlsson fulltrúi kennara við GíH
  • Jónína Þórarinsdóttir settur leikskólastjóri Undralands
  • Anna Erla Valdimarsdóttir settur aðstoðarleikskólastjóri
  • Gunnvör Kolbeinsdóttir leikskólastjóri Óskalands
Fundargerð ritaði: Matthea Sigurðardóttir aðstoðarskólastjóri GíH

Birkir formaður nefndarinnar setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Eftirfarandi fært til bókar:

Dagskrá:

1. Málefni leikskóla

Skýrsla Undralands.
Efst á baugi er hugsanleg tímabundin fjölgun deilda við leikskólann. Ráðning tímabundið í starf leikskólastjóra stendur fyrir dyrum. Leikskólinn fær 2 yngstu meðlimi flóttamannafjölskyldu frá Sýrlandi og eru það systkini 3ja og 5 ára gömul. Nú þegar er hafið samstarf við tengilið fjölskyldnanna þriggja sem koma í Árborg og Hveragerði.

Skýrsla Óskalands.
Jólaundirbúningur gekk afar vel. Starfsdagur var 3. janúar. Þar var upprifjun á skyndihjálp á dagskrá. Búið er að búa til skynörvunarherbergi. Leikskólakennari, sem er fluttur í Hveragerði bíður eftir að geta hafið störf um leið og barnið kemst inn í leikskóla. Breyting verður á karla- og konukaffi. Framvegis verður boðið upp á síðdegishressingar í stað morgunverðar.

Hugmynd að nýrri leikskóladeild.
Hugmynd er um að stofna nýja leikskóladeild við Undraland til að koma til móts við brýna þörf fyrir fleiri leikskólapláss. Enn er verið að ganga frá leyfum og leigu. Vonast er að eftir að nýja deildin verði tekin í notkun eftir miðjan febrúar í húsnæði Apótekarans við Breiðumörk 25.

Erindi frá starfsmönnum Undralands.
Erindi frá starfsfólki á Undralandi þar sem óskað er eftir því að sumarlokanir leikskólanna verði látnar skarast, þ.e. að horfið verði frá fyrirhuguðum sumarlokunum þar sem leikskólarnir verði ekki með lokanir á sama tíma. Nefndin fellst á sjónarmið sem fram koma í erindinu og leggur til við bæjarstjórn að sumarlokanir verði eftirfarandi:

Undraland: Frá 19. júní og opni aftur 24. júlí.

Óskaland: Frá 10. júlí og opni aftur 14. ágúst.

Dagur leikskólans 2017.
Dagur leikskólans er 6. febrúar. Markmið dagsins er að gera leikskólann sýnilegan. Myndlistasýningar eru fyrirhugaðar á degi leikskólans. Starfsmennirnir setja upp leikrit fyrir börnin. Leikskólarnir undirbúa í sameiningu viðamikla dagskrá í tilefni dagsins.

2. Málefni Grunnskólans

Skýrsla skólastjóra.
Sævar Þór flutti skýrslu skólastjóra. Fjölmargt hefur gerst frá síðasta fundi Fræðslunefndar. Skólinn setti sér reglur varðandi heimsóknir nemenda sem ekki eiga lögheimili í Hveragerði eða Ölfusi, fengu þær umfjöllun starfsmanna, voru samþykktar sendar til heimilanna og svo birtar á heimasíðu. Hjörvar Steinn sem er sannkallaður stórmeistari mætti í hús og tefldi fjöltefli 24.október. Sigurjón Jóhannsson húsvörður tók til starfa 28.október.

Þann 4. nóvember heimsótti starfsfólk Dalvíkurskóla okkur. Þriðjudaginn 8. nóvember var baráttudagur gegn einelti, þann dag gengu vinabekkir í hús og dreifðu vinakveðjum frá skólanum. Nemendur 9. bekkja fóru í velheppnaða ferða að Laugum í Sælingsdal. Afmæli barnasáttmála sameinuðu þjóðanna var 20. nóvember í vikunni fyrir afmælið skoðuðu nemendur ásamt umsjónarkennurum stutt myndbönd þar sem börn á öllum aldri svara spurningum um mannréttindi barna. Um miðjan nóvember fóru nemendur 6. bekkja í vel heppnaðar heimsóknir í Vísindasmiðju HÍ. Heilmikið púður fór í undirbúning og vinnu að góðgerðarþema sem haldið var dagana 22.-25. nóvember. Starfsfólk kaus um hvað málefni skildi styrkt í rafrænni könnun og nemendur kusu upp á gamla mátann, með blaði og blýanti. Niðurstaðan var ótvíræð; Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna var styrkþegi þessa árs. Þann 30. nóvember fengu nemendur 6. og 7. bekkja kynningu á MicroBit forritunar tækjum. Smásagnasamkeppni í ensku var vel heppnuð innan skólans og voru þónokkrar sögur settar upp til sýnis á Bókasafni bæjarins. Úrslit samkeppninnar á landsvísu verða ljós á næstu dögum. Dagskrá desembermánaðar fór vel fram, heimsóknir skólahópa af leikskólunum og opni gangasöngurinn þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson heiðraði skólann með heimsókn og fulltrúi SKB tók á móti styrk frá nemendum og stafsfólki skólans upp á 810.000.- tókust vel.

Nemendum við skólann fjölgar heldur, nemendur eru í dag 332 en voru 323 í haust. Í byrjun febrúar eigum við von á þremur nýjum nemendum sem koma frá fjarlægum slóðum. En Hvergerðingar taka á móti sjö manna flóttafjölskyldu frá Sýrlandi nú í lok janúar. Hingað í Grunnskólann koma þrír drengir sem fara á yngsta-, mið, og elsta stig.

 

PISA könnunin.
PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD. Alls taka yfir 70 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Niðurstöður úr PISA 2015 benda til þess að læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hafi hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt. Nú þegar hafa stærri sveitarfélög á landinu fengið niðurstöður sinna skóla en niðurstöður fyrir Grunnskólann í Hveragerði eru ekki tiltækar, enn sem komið er.

Eftirfylgni með úttekt á Grunnskólanum í Hveragerði.
Í bréfi frá 15. desember 2016 þakkar Mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrir upplýsingar sem því bárust varðandi eftirfylgni með úttekt á Grunnskólanum í Hveragerði og telur að sveitarfélagið hafi gert fyllilega grein fyrir umbótum í kjölfar úttektar ráðuneytisins. Málinu er því lokið af hálfu ráðuneytisins.

Skráningar upplýsinga í rafræn upplýsingakerfi.
Til umfjöllunar voru tvö skjöl; bréf frá 6. desember 2016 til allra sveitarfélaga – tilkynning um skil starfshóps annars vegar frá starfshópi um skoðun skráninga upplýsinga um nemendur í grunnskóla og rafræn upplýsingakerfi í tenglsum við álit Persónuverndar í máli nr.2015/1203. Viðkvæmar persónuupplýsingar eru ekki skráðar í rafræn upplýsingakerfi. Leiðbeiningar/verklagsreglur verða kynntar og rifjaðar upp með kennurum við GíH 16. janúar næstkomandi.

Getum við bætt efni síðunnar?