Fara í efni

Fræðslunefnd

122. fundur 22. mars 2017 kl. 17:00 - 18:27 Skólamörk 6
Nefndarmenn
  • Birkir Sveinsson
  • Bjarney Sif Ægisdóttir
  • Sjöfn Ingvarsdóttir
  • Elínborg María Ólafsdóttir
  • Dagbjört Helga Guðmundsdóttir fulltrúi sveitarfélagsins
  • Ölfus V. Baldur Guðmundsson fulltrúi sveitarfélagsins Ölfus
Starfsmenn
  • Sævar Þór Helgason skólastjóri GíH
  • Sigmar Karlsson fulltrúi kennara við GíH
  • Anna Erla Valdimarsdóttir leikskólastjóri Undralands
  • Gunnvör Kolbeinsdóttir leikskólastjóri Óskalands
Fundargerð ritaði: Matthea Sigurðardóttir aðstoðarskólastjóri GíH

Birkir formaður nefndarinnar setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Eftirfarandi fært til bókar:

Dagskrá:

1. Málefni leikskóla

Skýrsla Undralands
Anna Erla Valdimarsdóttir leikskólastjóri flutti skýrsluna. Leikskólastjóraskipti voru 1. febrúar 2017. Í Undralandi var vöntun leikskólaplássa í bænum mætt með tímabundinni opnun auka deildar við leikskólann. Með því hefur börnum í Undralandi fjölgað um 17 og eru þá 74 í heildina. Aukadeildinni verður lokað um sumarfrí þegar elsti árgangurinn flyst í grunnskólann en hann er óvenjustór í ár, 21 barn.

Samfara opnun auka deildarinnar urðu tilfærslur á öðrum deildum og má segja að við höfum verið að afgreiða hausttilfæringar og aðlaganir nú í febrúar og mars. Í ágúst tökum við því ekki inn ný börn nema ef losna pláss vegna flutninga eða annarra breytinga.

Með auknum fjölda barna fjölgaði starfsfólki um fimm. Þrír starfsmenn vegna fjölgunar barna og tveir sinna sérstuðningi en í húsinu eru nú 16 börn sem fá stuðning, allt frá 1 klst á viku upp í 8 klst á dag. Hér má til gamans geta að í leikskólanum höfum við 15 börn með annað tungumál en íslensku og málin sem koma við sögu eru 9 auk íslensku. Fjöldi starfsmanna í húsinu í dag er því 23 í tæplega 22 starfsgildum.

Starf á deildum heldur áfram á fyrri nótum. Yngri deildirnar vinna með Lubba og málhljóðin og þegar kemur upp á efri deildirnar fara börnin líka í Leikur að læra vinnustundir þar sem „bókleg færni“ er kennd í gegnum hreyfileiki. Elstu börnin eru svo að auki að undirbúa sig fyrir flutning milli skólastiganna.

Árlegt konudagskaffi var föstudaginn 17. febrúar. Þá buðu börnin mæðrum sínum, ömmum, systrum og frænkum í morgunverð í leikskólanum. Þessi morgunheimsókn var að vanda vel sótt og alltaf jafn gaman að fá fólkið inn í leikskólana.

Bollu-, sprengi- og öskudagur voru haldnir hátíðlegir í mat og skemmtun. Á öskudag var náttfataskemmtun í sal skólans, kötturinn sleginn úr tunnunni og dansiball á eftir.

Framundan er páskatíðin. Þá fellum við niður hefðbundið hópastarf og leggjum áherslu á myndsköpun, útiveru og rólegar stundir.

Strax eftir páska er námsferð starfsmanna til Alicante. Þar munum við skoða skóla og fræðast um skapandi skólastarf, sækja námskeið í hópefli og síðast en ekki síst fræðast meira um kennsluaðferðir og hugmyndafræðina á bak við Leikur að læra námsefnið. Lokun leikskólans vegna ferðarinnar nær til þriggja vinnudaga og eru það starfsdagar sem við höfum safnað frá 2016 og byrjun 2017.

Hluti starfsmanna ákvað að fara ekki með út en þeir vinna þá annað hér heima á meðan. M.a. verður námskeið í Tákn með tali, leikskólaheimsóknir, lestur bókarinnar Fiskur og umfjöllun um hana o.fl.

Skýrsla Óskalands
Gunnvör Kolbeinsdóttir leikskólastjóri flutti skýrsluna. Vinna við endurgerð nýrrar námskrár Óskalands er á lokastigi. Fljótlega verður hún send foreldrum til yfirlestrar og gefst þá tækifæri til að koma með athugasemdir og er stefnt að útgáfu fyrir vorið.

Kennarar sækja ýmis námskeið þessa dagana, t.d. TRAS, Tvítyngd börn í leikskóla og Börn og tónlist.

Mentorkerfið hefur verið endurnýjað fyrir leikskóla og er verið að koma því í gagnið fyrir starfsfólk og foreldra.

Á degi leikskólans 6. febrúar s.l. hittust báðir leikskólarnir í smágörðunum. Listaverk voru hengd upp og sungu börnin saman. Nemendur Óskalands eru einnig með myndlistarsýningu í Sunnumörkinni.

Vikulega eru farnar vettvangsferðir með eldri deildirnar. Ýmis fyrirtæki og stofnanir eru heimsótt í þessum ferðum s.s. Hamarshöllin, Listasafnið, Bókasafnið, Kjörís og Garðyrkjuskólinn.

Undirbúningur fyrir páskana er í fullum gangi og má sjá gula unga og annað skraut hér og þar um húsið.

Þriðjudaginn 4. apríl tökum við þátt í „Degi Einhverfunnar“ og klæðumst bláu.

Fjölmargir foreldrar elstu barna hafa tilkynnt að að börnin munu ekki hætta fyrr en um sumarleyfi, það tefur inntöku nýrra barna af biðlista fram á haustið.

Framundan er námsferð til Brighton 19. – 23. apríl.

Ný leikskóladeild við Undraland
Leikskólastjóri Undralands greindi frá starfsemi á nýrri leikskóladeild sem opnaði 20. febrúar í húsnæði sem áður hýsti Apótek. Með nýju deildinni á Undralandi tókst að bjóða öllum börnum, sem orðin voru 18 mánaða í janúar, leikskólavistun. Í deildinni eru 21 barn og starfsmennirnir eru fjórir. Bæjarstjórn gerir ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði um 9 mkr. Húsnæðið sem er til sölu fékkst leigt til 16. júní og þá mun þessu úrræði verða að öllu óbreyttu lokað.

Bygging nýs leikskóla – Staða mála

Bygging nýs leikskóla gengur mjög vel og mun betur en áætlanir gera ráð fyrir. Veðurfar hefur verið afar hagstætt og eru framkvæmdir nú um 3 vikum á undan áætlun. Samkvæmt samningi á verktaki að skila leikskólanum fullbúnum þann 15. október í síðasta lagi. Bundnar eru vonir við að það geti orðið fyrr og að inntaka barna geti hafist strax í byrjun október.

Elsti árgangur leikskólans er óvanalega stór núna eða 39 börn búsett í Hveragerði og nokkur í Ölfusi. Þetta er með fjölmennari árgöngum sem fæðst hefur í bæjarfélaginu og fjölmennastur þeirra sem nú stunda nám í grunn og/eða leikskóla. Það er ljóst að þegar þessi fjölmenni árgangur hefur nám í grunnskóla muni rýmkast um leikskólarýmin um stundarsakir.

Á biðlista nú eru 21 barn, 10 þeirra eru orðin 18 mánaða en mörg hver eru tiltölulega nýlega flutt til Hveragerðis.

Á fundi bæjarráðs þann 16. mars var samþykkt að hækka greiðslur til dagforeldra um 100% í þeirri von að fleiri skoði þann möguleika að taka starfið að sér. Mikill skortur er á dagforeldrum í bæjarfélaginu en ljóst er að þrátt fyrir tilkomu nýs leikskóla verði ávallt einhverjir sem þurfi að nýta sér þjónustu þeirra til lengri eða skemmri tíma. Því er afar bagalegt að engar umsóknir um þær stöður skuli berast.

2. Málefni Grunnskólans

Skýrsla skólastjóra
Sævar Þór flutti skýrslu skólastjóra. Margs er að minnast frá því að fræðslunefnd hittist síðast. Fimmtudagurinn 26. janúar var afmælisdagur Friðriks Ólafssonar fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák. Af því tilefni héldum við Skákdaginn hátíðlegan. 2. febrúar komu nemendur skólans fram í Krakkarúv og voru nemendur 6. bekkja með innlegg um hvernig við tókum á móti nýnemum frá Sýrlandi. Fjölmargir nemendur tóku þátt jógaverkefni, Fiðrildinu 2017 en yfir 20 skólar á landinu tóku þátt.

Þónokkrir meistaranemar við háskóla landsins hafa komið í skólann á vormisseri, tekið viðtöl og lagt fyrir nemendur verkefni vegna meistaraverkefna sinna. Starfsfólk skólans tók þátt í Lífshlaupinu og var árangurinn ágætur. Nemendur 10. bekkja heimsóttu Alþingi dagspart í febrúar og var sú heimsókn einstaklega ánægjuleg. Nemendur 9. og 10. bekkja þreyttu samræmd könnunarpróf í íslensku, ensku og stærðfræði dagana 7.-10. mars. Ellefta vika ársins var lífleg og skemmtileg fyrir eldri nemendur sem hafa gaman af rútuferðum. Þriðjudaginn 14. mars, fóru 9. og 10. bekkir á Selfoss og heimsóttu vel heppnaða starfamessu í F.Su. Miðvikudaginn 15. mars fór fríður flokkur 8. 9. og 10. bekkinga á Skólahreysti. Fimmtudaginn 16. mars fóru nemendur 9. og 10. bekkja til Reykjavíkur á Íslandsmót í iðngreinum en þar voru líka margskonar náms- og skólakynningar.

Uppi eru hugmyndir að fara í samstarf við leikskóla bæjarins og taka upp verkefnið Vinátta, sem er verkefni á vegum Barnaheilla. Hentar leikskólum sérstaklega vel sem og yngstu bekkjum grunnskóla, 1. og 2. bekk. Vináttu verkefnið er danskt að uppruna og er kennslugagn í samskiptum.

Þessi dægrin er verið að leggja lokahönd á skóladagatal næsta skólaárs, stjórnendur sinna starfsmannasamtölum og í næstu viku fara línur að skýrast varðandi næsta skólaár. Það má ætla að nemendum fjölgi heldur frá því sem nú er og því að mörgu að hyggja, varðandi starfsfólk, nemendur, húsnæði og aðbúnað.

Samstarfsnefnd kennara og bæjaryfirvalda vegna bókunar 1 í kjarasamningi
Formaður gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Nefndin hefur fundað tvisvar, einnig hafa kennarar fundað um málið í sínum röðum. Næsta verkefni er að móta umbótaáætlun og kynna hana kennurum.

Kennslumínútnafjöldi í list og verknámsgreinum
Í ljósi niðurstaðna úrvinnslu Hagstofu Íslands um kennslustundafjölda í list- og verkgreinum í grunnskólum árin 2013-2016 leggur ráðuneytið áherslu á að sveitarstjórnir sjái til þess að framvegis fái allir nemendur í grunnskólum landsins þann lágmarkskennslumínútnafjölda á skólaári sem þeim ber samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 2011. Vísast í því sambandi til ákvæða 5. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 um ábyrgð sveitarfélaga á skólahaldi í grunnskólum. Munu skólastjórnendur leitast við að efla list- og verkgreinar í skólanum. Viðhorf til lista er jákvætt í Hveragerði og mikilvægt að vinna áfram með þá góðu list- og verkgreinakennslu sem unnin er í skólanum.

Getum við bætt efni síðunnar?