Fræðslunefnd
Birkir formaður nefndarinnar setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.
Eftirfarandi fært til bókar:
1. Málefni leikskóla
Skýrslur leikskólastjóra
Undraland
Við opnuðum á nýja staðnum 23. október og þar með stækkaði skólinn um eina deild. Börnin eru nú 74 á 4 deildum. Fyrstu dagana/vikurnar lá skipulagt hópastarf niðri til að leyfa börnum og starfsfólki að stilla saman strengi á nýjum stað og í nýjum hópum.
Í janúar opnar 5. deildin og er undirbúningur hennar að hefjast.
15.nóvember kom Kristín Einars frá LAL á starfsmannafund með hausthvatningu.
Í október komu 4 nýir starfsmenn til okkar vegna stækkunar, einn leikskólakennari, einn grunn-og framhaldsskólakennari og tveir leiðbeinendur. Um áramót hætta tveir starfsmenn og í janúar verður 5. deildin opnuð. Við þurfum því að ráða 6 nýja starfsmenn um áramót. Nokkrar umsóknir liggja nú þegar inni en búið er að auglýsa eftir fólki frá áramótum.
Allir starfsmenn sóttu haustþing LAL í Reykjavík og sátu ýmis fróðleg fræðsluerindi allt frá skipulagi vinnustunda með börnum til núvitundar og heilbrigðis.
Prófum á elstu börnum með Hljóm-2 er lokið og er útkoman í heildina góð.
í desember er hefðbundin desemberdagskrá með með piparkökubakstri, foreldraföndri, jólaföndri, opnun jólaglugga o.s.frv.
Í ár verður breyting á jólaböllum leikskólanna en foreldrafélag leikskólabarna heldur sameiginlegt jólaball og jólaleiksýningu utan leikskólatíma fyrir börn og foreldra. Skemmtunin verður haldin í Grunnskólanum 14. desember.
Enn eru iðnaðarmenn að störfum hjá okkur við að leggja lokahönd á ýmsan frágang en nú fer að sjá fyrir endann á því.
Mikið hefur verið um heimsóknir til okkar frá flutningum. Við höfum fengið starfsmannahópa úr leikskólum, sveitastjórnir og bygginganefndir úr nærsveitum, FSL, og 8. deild FSL.
Óskaland
Haustþing starfsfólks leikskóla var haldið 13.október s.l. og sóttu allir marga áhugaverða fyrirlestra. Á starfsmannafundi 23.okt. sl. flutti Hugrún Vignisdóttir sálfræðingur hjá Skólaþjónustu Árnesþings fyrirlestur um Transbörn. Búið er að prófa elstu börnin með Hljóm-2 og er útkoman í meðallagi góð. Haustönn lauk með opnu húsi og föndurdegi þar sem foreldrar komu og föndruðu með börnum sínum í salnum og var þátttaka mjög góð. Við tekur hefðbundinn jólaundirbúningur með ýmiskonar dagskrá s.s. piparkökubakstri, opnun jólaglugga hjá fyrirtækjum, gangasöngur hjá elstu börnum og alls konar jólaundirbúningur. Í ár býður forleldrafélag leikskólabarna í fyrsta sinn uppá sameiginlegt jólaball og jólaleiksýningu utan leikskólatíma, og verður þetta haldið í Grunnskólanum 14.desember. Því verða ekki haldin hefðbundin jólaböll í leikskólunum. Tveir karlmenn eru teknir til starfa í Óskalandi núna á haustönn, en um tíma voru allir karlarnir hættir.
2. Málefni Grunnskólans
Skýrsla skólastjóra.
Sævar Þór flutti skýrslu skólastjóra. Margt mjög gott gerist í skólanum á hverjum degi og starfið það sem af er skólaársins gott. Lestrarátök og söngstundir á yngsta stigi skólans hafa verið áberandi vel heppnuð það sem af er skólaárinu. Á Menntakviku í byrjun október kynnti skólastjóri samstarf Garðyrkjuskólans og GíH. Vinarkveðjum starfsfólks og nemenda var vel tekið en kveðjurnar voru bornar í fyrirtæki þetta árið. Ævar Þór Benediktsson las upp úr nýrri bók sinni fyrir alla nemendur skólans á degi íslenskrar tungu. Starfsfólk og nemendur ásamt öllum þeim sem komu í húsið héldu upp á 70 ára afmæli skólans á degi fullveldisins 1. desember, þá var afhjúpuð mynd sem „gamall nemandi skólans“, Arnar Dór Ólafsson tók með „dróna“. Ný stjórn foreldrafélagsins tók við undir lok nóvember. Á síðasta fundi fræðslunefndar lýsti skólastjóri yfir áhyggjum sínum af húsnæðismálum en nú er búið að dusta rykið af 7 ára gömlum teikningum og hafa bæjaryfirvöld nú þegar fundað um fyrirhugaða viðbyggingu. Verður ný skólabygging vonandi á 3 ára fjárhagsáætlun bæjarins. Nú þegar desember er genginn í garð má segja að hefðirnar liti skólastarfið áberandi litum með gangasöng og fleiri góðum siðum.
Samræmd próf í 4. og 7. bekk
Skólastjóri kynnti niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 7.bekkjum. Helstu niðurstöður eru þær að 4.bekkur var undir meðaltali í íslensku, hæsta einkunn 9, meðaleinkunn hópsins 5,4 og undir meðaltali í stærðfræði, hæsta einkunn 9,5 og meðaleinkunn 5,5. 7.bekkur var undir landsmeðaltali í íslensku, hæsta einkunn 9, meðaleinkunn hópsins 5,6 og undir meðaltali í stærðfræði, hæsta einkunn 9 og meðaleinkunn hópsins 4,8.
Góðgerðardagurinn
Var haldinn hátíðlegur 1. desember. Hann var gríðarlega vel heppnaður og kusu nemendur og starfsfólk að styrkja Barnaspítala hringsins þetta árið. Styrkurinn verður afhentur á opnum gangasöng 15. desember.
Bókun 1 – Umbótaáætlun
Birkir formaður fór yfir umbótaáætlun. Rætt hvernig möguleg vinna við hana geti farið fram.
Skráning upplýsinga í rafræn upplýsingakerfi
Grunnskólinn í Hveragerði viðheldur nemendaskrá til að halda utan um upplýsingar um nemendur sína, námsframvindu og annað sem nauðsynlegt er vegna náms þeirra við skólann. Með skjalfestri upplýsingastefnu leggur GíH áherslu á mikilvægi persónuverndar við vinnslu nemendaskrár skólans. Upplýsingaöryggistefnan er undirrituð af skólastjóra og hans næsta yfirmanni, bæjarstjóra. Hafa allir starfsmenn skólans fengið stefnuna til yfirlestrar. Þessa dagana hefur verið unnið að öryggismati skólans varðandi aðgengi að persónulegum upplýsingum. Persónuvernd gaf út álit um vinnslu persónuupplýsinga í vefkerfinu Mentor og var GÍH einn af 5 skólum í úttekt stofnunarinnar.
3. Fjárhagsáætlun 2018
Farið yfir lykiltölur í fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar í málaflokknum, eins og hún lítur út eftir fyrri umræðu í bæjarstjórn