Fræðslunefnd
Alda formaður nefndarinnar setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.
Eftirfarandi fært til bókar:
1. Málefni leikskóla
Skýrslur leikskólastjóra
Óskaland
Aðlögun nýrra barna lýkur 1. nóvember. Byrjað er að prófa elstu börn með Hljóm-2. Allir starfsmenn tóku þátt í haustþingi FL 5. október.
Elstu börnum leikskólans var boðið á brúðuleiksýningu í Þorlákshöfn og einnig hafa þau nú fengið fræðslu frá Brunavörnum Árnessýslu. Í framhaldinu fara börnin í reglulegar eftirlitsferðir um húsnæði leikskólans og fræðast þau um björgunarleiðir, neyðarlýsingar, reykskynjara og þá hluti sem ber að varast í eldsvoða.
Undraland
Foreldrakynning LAL var haldin í leikskólanum 9. október. Kristín Einarsdóttir kom á morgunfund sem var mjög vel sóttur.
19. október var starfsdagur hjá okkur sem við nýttum til að sækja LAL þing í Reykjanesbæ. Innleiðingarári LAL lauk formlega hjá okkur með krýningu Undralands sem vottaður LAL skóli.
Hljóm-2 skimunum elstu barna er að mestu lokið hjá okkur í haust og foreldrum verður boðið að koma og fara yfir niðurstöður í næstu viku.
Eins og hjá Óskalandi fóru elstu börnin á brúðuleiksýningu í Þorlákshöfn og fengu fræðslu frá Brunavörnum Árnessýslu.
Inntöku nýrra barna lýkur þetta haustið næstu mánaðamót þegar við fáum tvö ný börn í húsið.
Á morgun 23. október er eitt ár frá því leikskólinn opnaði í nýju húsi og við tókum á móti börnum úr gamla Undralandi. Við ætlum að fagna þeim tímamótum með samkomu í sal og flæði milli deilda.
Sumarfrí
Fræðslunefnd leggur til að bæjarstjórn kanni möguleika á að leikskólar Hveragerðisbæjar verði lokaðir í fjórar vikur sumarið 2019.
Könnun til foreldra varðandi sumarfrí verður send út á næstunni.
Mönnun
Óskaland:
Örfáar mannabreytingar hafa verið frá síðasta fundi. Núna starfa fjórir karlmenn við leikskólann og er skólinn fullmannaður fram að áramótum.
Fjarvistir hafa verið þó nokkrar undanfarið vegna veikinda og skólasóknar fjarnema. Töluvert álag getur skapast við miklar fjarvistir og þarf að íhuga verkáætlun hvernig bregðast eigi við þegar allt að helmingur starfsmanna er fjarverandi.
Undraland:
Mannabreytingar eru smávægilegar. Einn starfsmaður hætti í október og ráðið hefur verið í hans stað. Einn starfsmaður er væntanlegur um næstu mánaðamót vegna viðbótar við stuðningsstarfsgildi.
Biðlisti
Ekkert barn eldra en 13 mánaða er á biðlista eftir leikskólaplássi.
Önnur mál
Fyrirspurn kom um það hverjir væru boðaðir á fræðslunefndarfundi. Aldís bæjarstjóri kom inn á fundinn og fór yfir skipan nefndarmanna í fræðslunefnd.
Fundargerð samþykkt samhljóða.