Fara í efni

Bæjarstjórn

581. fundur 15. maí 2024 kl. 17:00 - 18:29 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Njörður Sigurðsson forseti bæjarstjórnar
  • Halldór Benjamín Hreinsson aðalmaður
  • Sandra Sigurðardóttir aðalmaður
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir aðalmaður
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Alda Pálsdóttir aðalmaður
  • Eyþór H. Ólafsson varamaður
Starfsmenn
  • Pétur G. Markan bæjarstjóri
  • Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Njörður Sigurðsson, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2023, seinni umræða

2405030

Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023.



Á fundinn mætti Magnús Jónsson frá KPMG endurskoðun og lagði fram endurskoðunarskýrslu sína. Kynnti hann ársreikninginn og endurskoðunarskýrsluna.



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Sandra Sigurðardóttir.
Klukkan 17:34 var gert fundarhlé.
Klukkan 17:58 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Rekstur Hveragerðisbæjar styrkist.
Niðurstaðan betri en áætlun gerði ráð fyrir - innviðafjárfestingar í öruggum farvegi.

Niðurstaða ársreiknings Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023 leiðir í ljós að rekstur bæjarins styrkist vel milli ára. Afkoman sýnir að sveitarfélagið er betur fjárhagslega sjálfbært og er vel í stakk búið til að standa undir skuldbindingum sínum við íbúa sveitarfélagsins, og um leið viðhalda nauðsynlegri innviðfjárfestingu, sem hefur verið í forgangi þetta kjörtímabil.

Traustur og ábyrgur rekstur er undirstaða fyrir Hveragerðisbæ til að standa undir þeim eftirtektarverða vexti sem sveitarfélagið hefur gengið í gegnum undanfarin ár.

Yfirstandandi er mikilvæg uppbygging við grunnskólann, ný viðbygging við Óskaland er á framkvæmdastigi, gervigrasvöllur í keppnisstærð og hönnun viðbyggingar við íþróttahúsið eru allt mikilvægar fjárfestingar sem efla þjónustu og lífsgæði í Hveragerðisbæ. Í ljósi þessara framkvæmda, sem og annara mikilvægara verkefna, er niðurstaða ársins 2023 sérlega jákvæð.

Fá sveitarfélög í viðlíka vexti, í miklum innviðafjárfestingum, sýna jafn traustan rekstur.

Rekstur ársins 2023 sýnir fyrst og fremst að sveitarfélagið er tilbúið að standa undir áskorunum næsta árs og komandi ára á ábyrgan og framsækin hátt.

Í samandregnum lykiltölum er niðurstaða ársins 2023 eftirfarandi;
Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er jákvæð um 25 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 111 m.kr.

Rekstrarniðurstaða í samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta er neikvæð um 28 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu að fjárhæð 113 m.kr.

Heildartekjur A og B hluta eru 5.067 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifta 4.448 m.kr.

Afskriftir eru 147 m.kr. og er því rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði hjá A og B hluta 471 m.kr. en áætlun var 307 m.kr.

Fjármagnsliðir eru 499 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 420 m.kr. í fjármagnsliði.

Helstu frávik frá fjárhagsáætlun er innlausn tekna vegna gatnagerðar upp á 116 m.kr. Gjaldfært var uppgjör vegna lífeyrissjóðsskuldbindingu Brúar, A-deild, upp á kr. 48 m.kr. og gerð var niðurfærsla á óinnheimtar tekjur upp á 66 m.kr.

Önnur atriði sem gera frávik frá fjárhagsáætlun eru að tekjur eru 458 m.kr. umfram fjárhagsáætlun, og annar rekstrarkostnaður er 314 m.kr yfir. Launakostnaður er undir fjárhagsáætlun um 83 m.kr.

Hækkun vísitölu var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Hækkun vísitölu á árinu 2023 var 7,9% en gert var ráð fyrir 5,6% hækkun. Slíkar hækkanir á vísitölu hafa mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu allra sem skulda.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 650 m.kr. eða 12,8% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 727 m.kr. en í áætlun var gert ráð fyrir 377 m.kr. og árið 2022 var það 118 m.kr.

Handbært fé frá rekstri er því að aukast um kr. 609 m.kr. á milli ára.

Næsta árs afborganir langtíma lána og leiguskulda er 394 m.kr. og dugar því handbært fé frá rekstri vel til að greiða það niður.

Fjárfestingar á árinu 2023 námu 846 m.kr. Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 391 m.kr. Lántaka langtíma lána hljóðaði upp á 600 m.kr.

Skuldaviðmið nam 100% í árslok 2023 en það er skuldahlutfall að teknu tilliti til útreikninga samkvæmt 14. gr. reglugerðar 502/2012. Við útreikning á skuldaviðmiði er búið að lækka stofn skulda um greiðslur lífeyrisskuldbindinga eftir 15 ár og síðar, hreins veltufjár og langtímahluta fyrirframgreiðslu til BRÚ fyrir útreikning.

Rekstur sveitarfélags er samvinnuverkefni og góð niðurstaða ársreiknings Hveragerðisbæjar árið 2023 er ekki síst tilkomin vegna starfsfólks bæjarfélagsins, sem er hér þakkað fyrir sitt framlag.

Erindi okkar, sem að sveitarfélaginu standa, er að leiða kröftuglega, af fagmennsku og ábyrgð, framsækið sveitarfélag í vexti.

Njörður Sigurðsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Halldór Benjamín Hreinsson

Fulltrúar minnihluta lögðu fram eftirfarandi bókun.

Rekstrarreikningurinn fyrir árið 2023 ber merki um lausatök í áætlunargerð þar sem verulega munar á áætlun og niðurstöðu ársreiknings á bæði tekju og rekstrarhlið og munar þar hundruðum milljóna.

Því er haldið fram að launakostnaður hafi verið 83 milljónum undir fjárhagsáætlun en sú upphæð er að teknu tilliti til viðauka ársins sem námu 200 milljónum. Launakostnaður er því um 120 milljónum umfram áætlun í raun.

Einnig vekur það athygli að rekstrarniðurstaða ársins á A-hluta er einungis 24,6 milljónir í plús þrátt fyrir að tekjur hafi orðið verulega umfram áætlun. Má þar nefna að framlög Jöfnunarsjóðs eru óvænt 130 milljónum hærri en gert var ráð fyrir. Framlag úr jöfnunarsjóði eru samtals að hækka um 200 milljónir milli ára eða 26%. Útsvar er að hækka um 330 milljónir eða tæp 14%. Aðrar tekjur eru að hækka um 132 milljónir eða um 10%.

Einnig er vert að benda á að þegar þriggja ára áætlun er skoðuð verður að hafa í huga að þar vantar inn skuldbindingar vegna viðbyggingarinnar við leikskólann Óskaland sem eru verulegar.

Alda Pálsdóttir
Eyþór H. Ólafsson

Ársreikningurinn samþykktur og undirritaður.

2.Tillaga bæjarfulltrúa D-listans að gatnagerð við Vesturmörk

2405031

Bæjarfulltrúar D-listans leggja til að hafist verði handa við hönnun og útboð á götunni Vesturmörk, þann hluta sem tengir Heiðmörk og Þelamörk við Finnmörk.



Greinagerð.

Bæjarfulltrúar D-listans telja að kominn sé tími á tengingu milli Heiðmerkur, Þelamerkur og Finnmerkur með götunni Vesturmörk samkvæmt skipulagi, en sú gata er skilgreind sem tengigata í umferðaröryggisáætlun Hveragerðisbæjar.

Gatan um Finnmörk er skilgreind sem safngata og annar ekki þeim aukna umferðarþunga sem fylgt hefur þeirri miklu uppbyggingu og fjölgun íbúa sem verið hefur í Kambalandi síðustu ár og þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Með tilkomu þriggja nýrra deilda við Leikskólann Óskaland má einnig búast við aukinni umferð gangandi og akandi um Finnmörk. Mun þessi gatnagerð við Vesturmörk því létta mjög á Finnmörkinni og um leið auka umferðaröryggi, sérstaklega við Leikskólann Óskaland. Samkvæmt umferðaröryggisáætlun bæjarins er mælt með því að gripið verði til aðgerða til að draga úr bílaumferð á safngötum og greiða fyrir umferð á tengibrautum og er þessi tillaga því einnig í takt við þá stefnu.



Alda Pálsdóttir

Eyþór H. Ólafsson



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Alda Pálsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Eftirfarandi breytingartillaga lögð fram.
Að fela bæjarstjóra að hefja hönnun á gatnagerð við Vesturmörk og kostnaðarmeta framkvæmdina.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir breytingartillöguna samhljóða.

3.Fyrirspurn frá bæjarfulltrúum D-listans vegna kostnaðar við sérfræði- og lögfræðiþjónustu ársins 2023

2405032

Bæjarfulltrúar D-listans óska eftir skriflegri sundurliðun og útskýringum á kostnaði við sérfræðiþjónustu og lögfræðiaðstoð ársins 2023 sem heyrir undir bæjarstjórn og bæjarskrifstofu.



Greinagerð.

Samkvæmt rekstrartölum ársins 2023 kemur fram að kostnaður sem heyrir undir bæjarstjórn við lögfræðiaðstoð hafi verið 6.8 milljónir króna, en áætlun ársins gerði ráð fyrir 2.5 milljónum króna í lögfræðiþjónustu.



Þá kemur fram að kostnaður við sérfræðiþjónustu fyrir bæjarstjórn hafi numið 14.8 milljónum króna, en áætlun ársins gerði ekki ráð fyrir sérfræðiþjónustu fyrir bæjarstjórn.



Einnig kemur fram að sérfræðiþjónusta við bæjarskrifstofu hafi verið 4 milljónir króna, en samkvæmt áætlun var gert ráð fyrir 2.6 milljónum króna fyrir sérfræðiþjónustu.



Alda Pálsdóttir

Eyþór H. Ólafsson



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Eyþór H. Ólafsson og Sandra Sigurðardóttir.
Það hefur verið faglegt verklag bæjaryfirvalda að leita þjónustu út fyrir bæjarskrifstofur þegar á því þarf að halda og endurspeglar aukinn kostnaður vegna sérfræðiþjónustu og lögfræðiráðgjafar bæjarstjórnar og bæjarskrifstofu árið 2023 mikil umumsvif í leiðandi og stækkandi sveitarfélagi, m.a. í endurskipulagningu stjórnskipulags bæjarins, vegna uppbyggingar og framkvæmda og vegna stórra og mikilvægra mála, s.s. í félagsþjónustu.

Sérfræðiþjónusta bæjarstjórnar var kr. 14.476.000 á árinu 2023. Sá kostnaður fellur að stærstum hluta undir samning við KPMG sem samþykktur var af 0llum fulltrúum í bæjarráði 3. nóvember 2022 og viðauka við þann samning sem samþykktur var af meirihluta bæjarráðs 7. desember 2023. Þjónusta sem veitt var á grundvelli þessa samnings var endurskoðun á stjórnskipulagi Hveragerðisbæjar, þ.m.t. við gerð nýrra samþykkta um stjórn og fundarsköp bæjarins, erindisbréf nefnda, nýtt skipurit, stefnu bæjarins, innleiðingu hennar o.s.frv. Að stórum hluta var um einskiptiskostnað að ræða vegna ráðgjafar við stjórnskipulag og stefnu bæjarins. Auk þess fellur undir sérfræðiþjónustu bæjarstjórnar á árinu 2023 kr. 476.000 sem aðstoð við mat á áhrifum vegna mikillar fjárfestingar við grunnskóla sbr. 66. gr. sveitarstjórnarlaga.

Lögfræðikostnaður bæjarstjórnar árið 2023 var 6.783.000 kr. Sá kostnaður varðaði stór og mikilvæg mál hjá Hveragerðisbæ, s.s. málefni Árhólma, lóðamörk vegna Edenreits, uppkaup landa, félagsmál og ýmislegt annað.

Sérfræðikostnaður bæjarskrifstofu var á árinu 2023 kr. 4.000.000. Kostnaður var vegna þjónustu persónuverndarfulltrúa, vegna jafnlaunavottunar, lögfræðikostnaður vegna Hamarshallar, þjónusta vegna ráðningar bæjarritara og þjónusta við að yfirfara tryggingarmál.

Njörður Sigurðsson
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Halldór Benjamín Hreinsson

4.Samþykkt um meðhöndlun úrgangs, fyrri umræða

2405029

Lögð fram til fyrri umræðu samþykkt um meðhöndlun úrgangs Hveragerðisbæjar ásamt minnisblaði bæjarritara.



Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa samþykkt um meðhöndlun úrgangs til síðari umræðu.

5.Samþykkt um byggingargjöld í Hveragerði.

2405041

Lögð fram tillaga að breytingu á samþykkt um byggingargjöld í Hveragerði.



Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson og Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkir breytingu á samþykkt um byggingargjöld í Hveragerði.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:29.

Getum við bætt efni síðunnar?