Fara í efni

Bæjarráð

705. fundur 25. október 2018 kl. 08:00 - 10:50 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir varaformaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Njörður Sigurðsson
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, varaformaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 12.október 2018.

1810037

Með bréfinu óskar nefndasvið Alþingis eftir umsögn vegna tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023, 172. mál.
Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Bæjarráð fagnar þeim metnaðarfullu áformum sem sett eru fram í þingsályktunartillögunni og þá sérstaklega þeim sem snúa að úrbótum á umferðaröryggi á Suðurlandsvegi. í áætluninni má sjá að áralöng barátta Sunnlendinga fyrir vegbótum á einum hættulegasta vegkafla landsins er að bera árangur. Í fimm ára samgönguáætlun er gert ráð fyrir að ljúka endurbótum og aðskilnaði akstursstefna á milli Kamba og Biskupstungnabrautar eða á fyrsta tímabili samgönguáætlunar, framkvæmdum mun því ljúka árið 2023.


Með þeirri framkvæmd verður komið í veg fyrir stórhættulegar innkeyrslur inn á Suðurlandsveginn sem alltof oft hafa valdið alvarlegum slysum. Einnig verða gerð undirgöng á móts við Eldhesta til að auka öryggi reiðmanna og vegfarenda á þeim kafla auk þess sem akreinar eru aðskyldar og hliðarvegur lagður á milli Hveragerðis og Selfoss.

Hvergerðingar og aðrir þeir sem um þennan veg fara hafa fulla ástæðu til að fagna áformum ráðherra sem vonandi gefa góðar vonir um að fljótlega sjái til stórvirka vinnuvéla og að framkvæmdir fari í gang frekar fyrr en seinna til hagsbóta fyrir alla.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 12.október 2018.

1810038

Með bréfinu óskar nefndasvið Alþingis eftir umsögn vegna tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033, 173. mál.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 15.október 2018.

1810043

Með bréfinu óskar nefndasvið Alþingis eftir umsögn vegna tillögu til þingsályktunar um dag nýrra kjósenda, 27. mál.
Lagt fram til kynningar.

4.Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 22.október 2018.

1810052

Í bréfinu óskar Sýslumaðurinn á Suðurlandi eftir umsögn Hveragerðisbæjar vegna umsóknar Sigríðar Elísabetar Sigmundsdóttur um rekstrarleyfi til sölu gistingar í flokki II að Heiðmörk 53.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við veitingu leyfisins.

5.Bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélagi Íslands frá 18.október 2018.

1810054

Í bréfinu er kynnt ágóðahlutagreiðsla fyrir árið 2018 en Hveragerðisbær fær kr. 593.500.- í ágóðahluta.
Lagt fram til kynningar.

6.Bréf frá Lionsklúbbi Hveragerðis frá 5.október 2018.

1810039

Í bréfinu óskar Lionsklúbbur Hveragerðis eftir þjónustusamningi við Hveragerðisbæ til að efla innra starf klúbbsins sem og til að leggja lið baráttu Lionshreyfingarinnar gegn ólæsi og að hefja fjáröflun til að hjálpa þeim sem eru sjónskertir vegna aldurs og sjúkdóma.
Bæjarráð fagnar því óeigingjarna starfi sem félagar í Lionsklúbbi Hveragerðis hafa innt af hendi um áraraðir í bæjarfélaginu. Ýmis verkefni klúbbsins hafa verið styrkt af Hveragerðisbæ og mun svo verða áfram. Aftur á móti hafa aldrei verið gerðir þjónustusamningar við einstök líknarfélög í bæjarfélaginu og því sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu.

7.Bréf frá Lionsklúbbnum Eden frá 5.október 2018.

1810040

Í bréfinu óskar Lionsklúbburinn Eden eftir þjónustusamningi við Hveragerðisbæ til eflingar innra starfi klúbbsins og til að leggja lið við verkefnið "hlustun" sem Lionsklúbbur Hveragerðis stendur fyrir.
Bæjarráð fagnar því óeigingjarna starfi sem félagar í Lionsklúbbnum Eden hafa innt af hendi í bæjarfélaginu. Ýmis verkefni Lions hafa verið styrkt af Hveragerðisbæ og mun svo verða áfram. Aftur á móti hafa aldrei verið gerðir þjónustusamningar við einstök líknarfélög í bæjarfélaginu og því sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu.

8.Bréf frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg frá 23.október 2018.

1810055

Í bréfinu býður Slysavarnarfélagið Landsbjörg Hvergerðisbæ að vera með afmæliskveðju í blaðinu Björgun sem verður gefið út í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Bæjarráð samþykkir að vera með afmæliskveðju í blaðinu.

9.Bréf frá Íþróttafélaginu Hamri ódagsett.

1810041

Í bréfinu óskar aðalstjórn Hamars eftir formlegum viðræðum við Hveragerðisbæ varðandi þá hugmynd að ráða í stöðu framkvæmdastjóra Hamars.
Bæjarráð samþykkir að visa erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.

10.Bréf frá Íþróttafélaginu Hamri ódagsett.

1810042

Í bréfinu óskar aðalstjórn Hamars eftir viðræðum við Hveragerðisbæ vegna kostnaðar og tekjutaps sem Laugasport hefur orðið fyrir vegna breytinga á húsnæði sundlaugarinnar í Laugaskarði en einnig vegna nauðsynlegrar endurnýjunar búnaðar í húsnæðinu.
Bæjarráð hafnar öllum kröfum um bótagreiðslur vegna rekstrartaps og kostnaðar sem Laugasport hefur orðið fyrir vegna breytinga á húsnæðinu. Bæjarráð samþykkir aftur á móti að koma að kaupum á nýjum tækjum og kaupum á lyftingagólfi í húsnæðið fyrir allt að 1 m.kr. Þessi samþykkt bæjarráðs byggir á þeirri staðreynd að líkamsræktin Laugasport er rekin án hagnaðarsjónarmiða af Íþróttafélaginu Hamri og ágóði af stöðinni rennur til uppbyggingar íþróttalífs í Hveragerði.

11.Bréf frá Skyrgerðinni frá 18.október 2018.
Elfa Dögg Þórðardóttir mætir á fundinn.

1810036

Á fundinn mætti Elfa Dögg Þórðardóttir eigandi fasteignarinnar Breiðumörk 25 og ræddi um fyrirhugaða viðbyggingu við Breiðumörk 25 og kynnti framtíðarsýn fyrirtækisins Skyrgerðin.
Bæjarráð þakkar skilmerkilega kynningu á metnaðarfullum framtíðaráformum fyrirtækisins sem taka gott tillit til eldra húsnæðis. Skipulags- og mannvirkjanefnd er með beiðni um viðbyggingu til umfjöllunar.

12.Skýrsla um hljóðmælingar í Hverahlíð 2018 lögð fram af ON að beiðni bæjarstjóra.

1810053

Undanfarið hefur ekki farið framhjá bæjarbúum áberandi hvinur vegna borholu í Hverahlíð sem nú er í blæstri. Hefur spunnist nokkur umræða í bæjarfélaginu vegna þessa. Bæjarstjóri hafði samband við ON og óskaði uplýsinga um hljóðmælingar vegna umræddrar holu. Hér er lögð fram skýrsla sem gerð var af Mannvit vegna hljóðmælinga, áhrifa hola í blæstri.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir eftirfarandi upplýsingum sem fengust hjá Umhverfis- og landgræðslustjóra ON vegna borholunnar. "Í september var fenginn sérfræðingur frá Mannvit til að gera hljóðmælingar við borholuna og skoða útbreiðslu hávaða frá henni. Nýútkomin skýrsla er í viðhengi. Í skýrslunni kemur fram að hávaði geti farið í 35 db í útjaðri Hveragerðis en hávaðinn frá holunni ætti ekki að verða til hækkunar á heildarhljóðstigi þó að í henni geti heyrst við vissar aðstæður. Þá helst þegar ríkjandi vestanátt er að næturlagi í lítilli umferð og kyrrð ríkir. Áætlað er að holan í Hverahlíð blási í um eina viku í viðbót, frá deginum í dag að telja."
Í sama svari kom fram að verið er að hanna búnað sem getur dregið úr hávaða við blástur svo að vonandi ætti þetta ekki að verða vandmál í framtíðinni.
Bæjarráð þakkar skilmerkilegar og góðar upplýsingar sem verður komið á framfæri við bæjarbúa á heimasíðu bæjarins. Jafnframt krefst bæjarráð þess að allt verði gert sem mögulegt er til að hávaði vegna blástur verði sem minstur bæði vegna núverandi holna og eins vegna nýrra holna.

13.Lóðarumsókn - Vorsabæ 11.

1810044

Lögð fram umsókn um lóðina Vorsabær 11 frá Skrjóði ehf kt. 470504-3310.
Bæjarráð samþykkir að úthluta Skrjóði ehf lóðinni Vorsabæ 11 í samræmi við reglur bæjarins um lóðaúthlutanir.

14.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 17.október 2018.

1810056

Fundargerðinni vísað til bæjarstjórnar en liðum 2 og 3 vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.

15.Verkfundagerð frá 10.október 2018 - Sundlaugin Laugaskarði.

1810045

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

16.Verkfundagerð frá 8.október 2018 - Gatnagerð Vorsabæ.

1810046

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

17.Fundargerð Byggðasafns Árnesinga frá 18.október 2018.

1810051

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð Stjórnar SASS frá 3.október 2018.

1810035

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

19.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10.október 2018.

1810049

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:50.

Getum við bætt efni síðunnar?