Fara í efni

Bæjarráð

703. fundur 20. september 2018 kl. 08:00 - 10:03 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Garðar R. Árnason
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Garðar R. Árnason, situr fundinn sem áheyrnarfulltrúi B-listans.

Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar bar formaður upp dagskrárbreytingatillögu um að við bætist liður 24, viðgerð í Heimilinu Birkimörk.

Tillagan samþykkt samhljóða en aðrir töluliðir breytast til samræmis við þetta.

Hér var gengið til dagskrár.

1.Bréf frá Umhverfisstofnun frá 6.september 2018.

1809040

Í bréfinu er kynnt fyrirhuguð upplýsingasöfnun stofnunarinnar varðandi meðferð og hreinsun skólps.
Bæjarráð felur skipulagsfulltrúa og umhverfisfulltrúa að svara umræddri könnun þegar hún berst. Bæjarráð telur einnig ljóst að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 verði lagðar línur fyrir næstu skref varðandi endurbætur á núverandi fráveitumannvirki og unnið að tillögum varðandi stækkun þess vegna síaukins fjölda íbúa og aukningu á fráveitvatni í bæjarfélaginu.

2.Bréf frá Íbúðalánasjóði frá 11.september 2018.

1809041

Í bréfinu er kynnt tilraunaverkefni um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Með því er leitað leiða til að bregðast við eim mikla húsnæðisvanda sem ríkir víðsvegar á landsbyggðinni. Gerir Íbúðalánasjóður ráð fyrir því að velja 2-4 sveitarfélög úr hópi umsækjenda sem taki þátt í tilraunaverkefninu.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að sækja um þátttöku í umræddu verkefni fyrir hönd Hveragerðisbæjar enda telur bæjarráð að bætt staða á húsnæðismarkaði sé eitt brýnasta verkefnið sem bæjarfélagið stendur nú frammi fyrir.

3.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 7.september 2018.

1809025

Í bréfinu er kynnt fyrirhuguð vinna með leikskólum vegna innleiðingar nýrra persónuverndarlaga.
Bæjarráð samþykkir að taka þátt í verkefninu en telur þó jafnframt að bæjarfélagið sé vel á veg komið varðandi innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar en búið er að ráða persónuverndarfulltrúa, samþykkja persónuverndarstefnu og unnið hefur verið að breyttum ferlum undanfarna mánuði með fyrirtækinu Dattacalabs.

4.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 17.september 2018.

1809044

Í bréfinu er kynnt fyrirkomulag úthlutunar úr Námsgagnasjóði ásamt úthlutun sjóðsins fyrir skólaárið 2018 - 2019. Í hlut Hveragerðisbæjar koma kr. 457.488,-.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá Umboðsmanni Alþingis frá 7.september 2018.

1809039

Í bréfinu óskar umboðsmaður eftir upplýsingum er varðar húsnæðismál á vegum félagsþjónustu.
Bæjarstjóra er falið að svara erindinu í samráði við félagsmálastjóra.

6.Bréf frá Lögmannstofunni Réttindi frá 13.september.

1809031

Í bréfinu er lögð fram krafa um bætur fyrir hönd Lars David Nielsen en krafan byggir á meintu tjóni vegna skuggavarps og rýrnunar á lóð vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Eden reitnum. Með fylgir matsgerð dómskvadds matsmanns dags. 4. september 2018.
Í matsgerð kemur fram að tjón vegna skuggavarps er metið lítið á þeim tíma sem ræktun fer fram. Birtuminnkun á ræktunarsvæði hafi ekki áhrif á rekstrarskilyrði gróðrarstöðvarinnar og ætti því ekki að leiða til verðrýrnunar á lóð miðað við núverandi starfsemi. Þó er talið rétt að meta lóðaverð til lækkunar um 5% vegna skuggavarps þar sem ekki er ráðlegt að nýta þann hluta lóðar sem næst er fyrirhuguðum byggingum undir gróðurhús. Matsmaður metur áhrif áætlaðs göngustígs veruleg enda fer hann að hluta yfir á lóð matsbeiðanda.
Bæjarráð felur bæjarstjóra, skipulagsfulltrúa og lögmanni bæjarins að ræða við lögmann Lars David Nielsen og freista þess að ná fram sáttum í málinu svo ekki þurfi að koma til málshöfðunar.

7.Bréf frá Veðurstofu Íslands frá 31.ágúst 2018.

1809023

Með bréfinu er boðað til málstofu um áhrif veðurs og loftslagsbreytinga á rekstur sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

8.Bréf frá Neyðarlínunni frá 17.ágúst 2018.

1809019

Í bréfinu óskar Neyðarlínan eftir viðræðum við Hveragerðisbæ um mögulega staðsetningu fyrir fjarskiptaaðstöðu á Hamrinum. Með nýju mastri á þessum stað er talið að hægt verði að bæta farsímasamband í Reykjadal og víðar í nágrenni Hveragerðis og tækifæri verður til að bæta útvarpsdreifingu á svæðinu.
Bæjarráð fagnar því að Neyðarlínan skuli hafa til skoðunar að bæta skilyrði vegna farsímasambands í og við bæjarfélagið en nokkuð hefur skort á að það sé í eins góðu lagi og nauðsynlegt er. Einnig fagnar bæjarráð sérstaklega öllum áformum um bætta útvarpsdreifingu enda hafa skilyrði til móttöku útvarps ávallt verið afar döpur í Hveragerði og því löngu tímabært að bætt sé úr því.
Bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa er falið að ræða við bréfritara um mögulegar staðsetningar og um annað það sem málið varðar.

9.Skýrsla frá Verkfræðistofunni Vista frá 13.ágúst 2018.

1809021

Lagðar fram skýrslur varðandi H2S loftgæðamælingar í Norðlingaholti, Hveragerði og Lækjarbotnum, janúar - júní 2018, sem unnar voru fyrir Orku náttúrunnar. Í skýrslunni kemur fram að styrkur H2S fyrstu sex mánuði ársins 2018 mældist undir reglugerðarmörkum í loftgæðamælistöðvunum þremur.
Bæjarráð telur að vinnubrögð ON séu til fyrirmyndar hvað varðar kynningu og samskipti við bæjarfélagið og er það mikil breyting til hins betra frá því sem áður var. Tilkynningar berast um öll frávik hvað varðar losun, niðurdælingu og hreinsibúnað og eru tilkynningarnar birtar á heimasíðu bæjarfélagsins. Þrátt fyrir að styrkur brennisteinsvetnis sé innan marka reglugerðar gerist það hér, rétt eins og í Reykjavík,að einstaka toppar mælast og hlýtur ON að leita allra leiða til að koma í veg fyrir slíkt til framtíðar litið.

10.Ársreikningur og árskýrsla Fræðslunetsins 2017.

1809029

Lagður fram ársreikningar og ársskýrsla Fræðslunets Suðurlands árið 2017.
Lagt fram til kynningar.

11.Bréf frá Félagi Listmeðferðafræðinga ódagsett.

1809030

Í bréfinu er kynnt ráðstefna um listmeðferðir sem haldin er á Hótel Örk í Hveragerði og jafnframt óskað eftir styrk frá Hveragerðisbæ til ráðstefnuhaldsins.
Bæjarráð samþykkir að ráðstefnugestir fái einu sinni ókeypis í sund í Laugaskarði á meðan á ráðstefnunni stendur. Jafnframt styrkir Hveragerðisbær ráðstefnuna um kr. 50.000- gegn því að starfsmenn Hveragerðisbæjar og Skóla- og velferðarþjónustu fái aðgang að fyrirlestrum ráðstefnunnar.

12.Bréf frá Braga Árdal og Pétri Reynissyni frá 9.september 2018.

1809038

Í bréfinu er óskað eftir að skilgreiningu á húsunum að Þórsmörk 12 og Þórsmörk 14 verði breytt úr einbýlishúsi í parhús enda sé íbúðin tengd bílskúr og bílskúrar tengdir saman eins og tíðkast á parhúsum en deiliskipulag gerir ekki ráð fyrir öðrum möguleika en þeim.
Bæjarráð samþykkir af fresta afgreiðslu erindisins til næsta fundar bæjarráðs.

13.Bréf frá Tinnu Rut Torfadóttur og Láru Ólafsdóttur ódagsett.

1809024

Í bréfinu eru kynnt námskeiðin Klókir litlir krakkar og Uppeldi barna með ADHD. Óska bréfritarar eftir afnotum af húsnæði og einnig mögulegum niðurgreiðslum bæjarins á námskeiðsgjaldinu til að minnka kostnað foreldra.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við skólastjóra leik- og grunnskóla og Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings um þörfina fyrir slíkt námskeið. Jafnframt verði kannað hvernig önnur sveitarfélög hafa komið að stuðningi við þessi námskeið. Ákvörðun um framhald verður tekin þegar þessar upplýsingar liggja fyrir.

14.Bréf frá Bjarna Guðmundssyni framkvæmdastjóra SASS frá 10.september 2018.

1809018

Í bréfinu er gerð grein fyrir afstöðu SASS til bréfs Félags hópferðaleyfishafa sem kynnt var í bæjarráði nýlega.
Lagt fram til kynningar.

15.Umsókn um styrk í leikskólakennarafræðum.

1809037

Lögð fram umsókn frá Önnu Erlu Valdimarsdóttur um styrk til framhaldsnáms M.ed.
Bæjarráð samþykkir umsóknina.

16.Bréf frá Jóeli Sæmundssyni frá 7.september 2018.

1809026

Í bréfinu er kynnt hugmynd um leikhús fyrir landsbyggðina og óskað styrk frá Hveragerðisbær í starfsemina.
Því miður sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu.

17.Minnisblað frá bæjarstjóra, skipulag á Friðarstöðum.

1809035

Í minnisblaðinu er fjallað um fyrirhugað deiliskipulag á Friðarstöðum og hugmyndir um gerð þess.
Bæjarráð samþykkir að fela Skipulags- og mannvirkjanefnd að fjalla um þá möguleika sem fyrir hendi eru varðandi gerð deiliskipulags og geri nefndin tillögu til næsta fundar bæjarstjórnar varðandi það hvaða fyrirkomulag verði viðhaft við gerð deiliskipulags á svæðinu.

18.Minnisblað frá skipulagsfulltrúa, skólphreinsistöðin í Hveragerði.

1809043

Í minnisblaðinu er gerð grein fyrir fundi sem haldinn var þann 12. september 2018 þar sem fjallað var um skólphreinsistöðina í Hveragerði.
Bæjarráð samþykkir að Theódór Blöndal verði fenginn til að skoða aðstæður í og við skólphreinsistöðina með það að markmiði að hann geri tillögur um aðkallandi aðgerðir fyrir fjárhagsáætlun 2019. Jafnframt er honum falið að gera frumtillögur að framtíðaruppbyggingu hreinsistöðvarinnar og skila um það greinargerð til bæjarstjórnar.

19.Mánamörk 7 ósk um nafnabreytingu.

1809033

Í bréfinu er óskað eftir að lóðin Mánamörk 7 verði færð yfir á félagið Skothrygg ehf, kt. 480410-0410.
Bæjarráð samþykkir nafnabreytinguna.

20.Tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun - Óskaland.

1809036

Lögð fram beiðni frá leikskólastjóra Óskalands um viðauka við fjárhagsáætlun kr. 1.700.000,- vegna langvarandi veikinda og námsleyfa.
Bæjarráð samþykkir beiðnina sem verður mætt með framlagi af lið 21-01.9980.

21.Tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun - Velferðarþjónusta.

1809034

Lögð fram ósk um viðauka við fjárhagsáætlun frá félagsþjónustu vegna barnaverndar kr. 4.445.000,- og vegna fjárhagsaðstoðar kr. 3.500.000,-.
Bæjarráð samþykkir viðaukann og leggur til að útgjöldunum verði mætt með hækkuðum tekjum vegna staðgreiðslu útsvars.

22.Opnun tilboða í verkið: Gamla Mjólkurbúið viðhald utanhúss.

1809017

Opnun tilboða fór fram þann 14. september. Verkið felur í sér viðgerðir á útveggjum og þaki.
Eitt tilboð barst í verkið frá M1 ehf, Kolbeinn Hreinsson, kr. 11.973.600,-.
Bæjarráð samþykkir að gengið verði til samninga við M1 ehf, Kolbein Hreinsson, vegna verksins.

23.Rekstraryfirlit frá janúar - ágúst 2018.

1809042

Lagt fram rekstraryfirlit fyrstu átta mánuði ársins 2018.
Bæjarráð hefur yfirfarið rekstraryfirlitið og fengið skýringar bæjarstjóra á ýmsu sem þar kemur fram. Viðaukar hafa verið lagðir fram þar sem það hefur verið nauðsynlegt.
Að öðru leyti gerir bæjarráð ekki athugasemdir við yfirlitið og er það lagt fram til kynningar.

24.Minnisblað frá byggingarfulltrúa, viðgerðir á baðherbergi og nýtt baðkar í Birkimörk 21-27

1809045

Í minnisblaðinu er gerð grein fyrir viðgerðum á baðherbergi sem nauðsynlegt er að ráðast í í Heimilinu að Birkimörk 21-27. Áætlaður kostnaður er 2,7 m.kr.
Bæjarráð samþykkir að ráðist verði í umræddar viðgerðir og að kostnaði við þær verði mætt með auknum tekjum ársins.

25.Verkfundargerð frá 5.september 2018 - Sundlaugin Laugaskarði - Áfangi 1.

1809027

Verkfundargerð lögð fram.
Bæjarráð samþykkir verkfundargerðina.

26.Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands frá 13.september 2018.

1809032

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

27.Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga frá 28.ágúst 2018.

1809022

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

28.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 31.ágúst 2018.

1809028

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerðin upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:03.

Getum við bætt efni síðunnar?