Fara í efni

Bæjarráð

699. fundur 05. júlí 2018 kl. 08:00 - 09:58 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Í upphafi fundar leitaði formaður eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Hér var gengið til dagskrár.

1.Bréf frá Veitum ohf frá 25.06.2018.

1806053

Í bréfinu sem sent er notendum gufuveitunnar í Hveragerði er gerð grein fyrir ástandi gufuveitunnar og þeim áskorunum sem Veitur ohf standa frammi fyrir varðandi rekstur hennar.
Bæjarráð þakkar Veitum ohf upplýsingarnar og hvetur fyrirtækið til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að starfsemi gufuveitunnar verði komin í gott horft áður en vetur gengur í garð.

2.Bréf frá Tónlistarskólanum á Akureyri frá 20.júní 2018.

1806043

Í bréfinu er óskað eftir því að Hveragerðisbær greiði kennslukostnað vegna nemenda að fullu sem áætlar að stunda söngnám á grunnstigi við skólann næsta vetur. Bæjarfélagið mun geta sótt um endurgreiðslu hluta kostnaðarins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skv. 7. gr. reglna um framlög til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumuni nemenda.
Bæjarráð samþykkir erindið enda liggi staðfesting á að um einingabært nám sé að ræða við framhaldsskóla fyrir áður en framlagið er greitt. Jafnframt er samþykkt að við gerð fjárhagsáætlunar verði ákveðin upphæð sett til stuðnings þeim nemendum sem falla undir 7. grein reglna um framlög úr Jöfnunarsjóði til stuðnings við tónlistarnám og jöfnunar á aðstöðumun nemenda og miðist stuðningur bæjarfélagsins við það að hann fari ekki umfram þá upphæð.

3.Bréf frá Knattspyrnudeild Hamars ódagsett.

1806051

Í bréfinu er óskað eftir samþykki Hveragerðisbæjar fyrir breytingu á flettiskilti við Suðurlandsveg/Breiðumörk í tölvustýrt LED skilti.
Bæjarráð vísar erindinu til Skipulags- og mannvirkjanefndar til umsagnar.

4.Valgarð Sörensen kemur á fundinn og kynnir stöðuna hvað varðar Austurmörk 6-8.

1806050

Valgarð mætti til fundarins og gerði grein fyrir stöðu verkefnisins. Óskaði hann eftir fresti til 9. ágúst til að landa þeim samningum sem hann er með í farvatninu.
Bæjarráð samþykkir að veita umbeðinn frest en gangi áform lóðarhafa ekki eftir fyrir þann tíma er það sameiginlegur skilningur aðila að lóðarúthlutunin verði afturkölluð án frekari eftirmála eins og rætt var á fundinum.

5.Minnisblað - Gatnagerð Vorsabær 2018.

1806044

Í minnisblaði byggingafulltrúa er gerð grein fyrir framkvæmdum við götuna Vorsabæ og gerð er tillaga um að lokið verði við uppgröft á allri götunni ásamt því að gengið verði frá neðra burðarlagi allrar götunnar en ekki hluta eins og áður var áætlað. Áfram er gerð tillaga um að yfirborðsfrágangur bíði næsta fjárhagsárs.
Bæjarráð samþykkir tillögur byggingafulltrúa og verður kostnaði, 8,5 m.kr., mætt með auknum tekjum vegna gatnagerðargjalda.

6.Opnun tilboða - Vátryggingar Hveragerðisbæjar

1806045

Opnun tilboða í vátryggingar Hveragerðisbæjar fór fram þann 21. júní 2018. Um gerð útboðsgagna og alla umsjón sá Guðmundur Ásgrímsson frá fyrirtækinu Consello. Tvö tilboð bárust.
Frá VÍS 10.525.805,-
Frá TM 13.241.943,-
Bæjarráð þakkar Consello ehf gott samstarf við yfirferð vátrygginga bæjarins og gerð útboðsgagna. Með þessari vinnu hefur tekist að bæta vátryggingavernd bæjarfélagsins umtalsvert en jafnframt að ná fram umtalsverðum sparnaði. Núverandi iðgjöld námu 13.053.504,- og því hefur útboðið skilað hagræðingu sem nemur ríflega 2,5 mkr. Það er niðurstaða ráðgjafa að niðurstaða útboðsins sé góð fyrir Hveragerðisbæ.

Bæjarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, VÍS, enda uppfyllir fyrirtækið öll skilyrði útboðsins. Consello ehf er jafnframt falið að sjá um endanlega samningagerð við VÍS.

7.Minnisblað frá byggingafulltrúa - Frágangur Grímsstaðarreits.

1806052

Í minnisblaði byggingafulltrúa er gerð grein fyrir þeim frágangi á kansteinum, gangstéttum og göngustígum sem nauðsynlegt er að ráðast í á Grímsstaðareit. Kostnaður bæjarfélagsins mun nema um 4 m.kr.
Bæjarráð samþykkir tillögur byggingafulltrúa og mun kostnaði verða mætt með auknum tekjum vegna gatnagerðargjalda.

8.Ráðningasamningur bæjarstjóra.

1806042

Ráðningasamningur við Aldísi Hafsteinsdóttir, bæjarstjóra, lagður fram. Eru launakjör bæjarstjóra óbreytt frá fyrra kjörtímabili nema hvað laun munu hækka einu sínni á ári skv. launavísitölu skv. nýjum samningi en ekki tvisvar eins og áður var.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, vék af fundi.

Njörður Sigurðsson lagði fram eftirfarandi breytingartillögur við ráðningarsamning við bæjarstjóra:
Við 4. gr. samningsins um launakjör:
Í stað orðanna "Bæjarstjóra skulu greidd laun kr. 1.450.000,- á mánuði" komi "Bæjarstjóra skulu greidd laun kr. 1.270.000,- á mánuði"
Í stað orðanna "Skulu launin taka breytingum einu sinni á ári í samræmi við launavísitölu. Grunnur skal vera launavísitala í maí 2018 656,5. Breytingin reiknast 1. janúar ár hvert. Laun skulu greidd fyrirfram fyrsta dag hvers mánaðar." komi "Skulu launin taka breytingum í hlutfalli við breytingar á launalið kjarasamnings Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi (FOSS)".
Í stað orðanna: "Bæjarstjóri skal vinna yfirvinnu eftir þörfum, enda eru laun hans miðuð við það" komi "Bæjarstjóri vinnur yfirvinnu eftir þörfum og fær ekki greitt sérstaklega fyrir það".
Við 5. gr. samningsins um önnur starfskjör:
Í stað orðanna "Bifreiðastyrkur skal nema 1.300 km. á mánuði og skal greitt í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra" komi "Bæjarstjóri fái greiddan bifreiðastyrk í samræmi við akstursbók".
Við 6. gr. samningsins um uppsögn og biðlaun:
Í stað orðanna "Verði samningnum sagt upp á ráðningartímabilinu eða bæjarstjóri verði ekki endurráðinn að því loknu skal Hveragerðisbær greiða honum laun í samræmi við 4. og 5. gr. samnings þessa í 6 mánuði frá næstu mánaðarmótum eftir uppsögn eða eftir að starfstíma lýkur skv. 2. gr." komi "Verði samningum sagt upp á ráðningartímabilinu er uppsagnarfrestur þrír mánuðir".

Greinargerð með breytingartillögum
Skv. könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga á kjörum sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga árið 2018 kemur fram að í 12 sveitarfélögum þar sem íbúar eru 2.000-4.999 eru laun framkvæmdastjóra sveitarfélaga að meðaltali kr. 1.283.333-1.482.333, lægstu laun eru á bilinu kr. 1.100.000-1.299.000 og hæstu laun á bilinu kr. 1.500.000-1.699.000. Launakjör skv. framlögðum ráðningasamningi við bæjarstjóra í Hveragerði er því með hæstu launum fyrir störf bæjarstjóra í sveitarfélögum að svipaðri stærð og Hveragerði. Því er lagt til að föst laun bæjarstjóra sem tilgreind eru í 4. gr. samningsins endurspegli meðaltalskjör bæjarstjóra sveitarfélaga að svipaðri stærð og Hveragerði að frádregnum launum sem bæjarstjóri fær sem bæjarfulltrúi. Ólíkt öðrum bæjarfulltrúum eru störf bæjarstjóra svo nátengd starfi hans að erfitt er að aðskilja starf bæjarstjóra og bæjarfulltrúa. Þess vegna er eðlilegt að í ráðningasamningi við bæjarstjóra sem jafnframt er bæjarfulltrúi sé tekið tillit til þessarar stöðu og laun hans fyrir bæjarstjórastarfið lækkuð sem nemur launum fyrir störf bæjarfulltrúa. Samkvæmt 24. gr. sveitarstjórnarlaga getur bæjarfulltrúi ekki afsalað sér greiðslum sem honum er ákveðnar á grundvelli laganna. Í samþykkt um stjórn Hveragerðisbæjar er þetta ákvæði ítrekað. Því er lagt til að laun bæjarfulltrúa sem eru nú kr. 112.333 komi til frádráttar á meðallaunum bæjarstjóra eins og þau eru í könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga og verði þá samtals kr. 1.270.000 á mánuði.
Ekki er eðlilegt að binda launakjör bæjarstjóra við launavísitölu en hún er fundin út af launum bæði á almennum vinnumarkaði og opinberum. Sem dæmi má nefna að ef launakjör tiltekinna hópa eru leiðrétt þá hefur það áhrif á launavísitölu og þar með launakjör bæjarstjóra. Nærtækt dæmi er að ef launakjör ljósmæðra verða leiðrétt þá mun sú leiðrétting hækka laun bæjarstjóri. Eðlilegra er að binda launakjör bæjarstjóra við hækkun launa hjá Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi FOSS sem er stéttarfélag margra starfamanna bæjarins. Þannig er lagt til að ráðningarsamningur bæjarstjóra fylgi hækkunum á launaliðum hjá FOSS í stað launavísitölu.
Orðalag um yfirvinnu í 4. gr. ráðningarsamnings er óljóst og rétt að skerpa á því að bæjarstjóri fær ekki greidda yfirvinnu.
Eðlilegt er að bæjarstjóri fái greiddan bifreiðastyrk í samræmi við notkun á eigin bíl. Því er lagt til að bifreiðastyrkur sé greiddur í samræmi við akstursbók í stað 1.300 km. fastrar greiðslu á mánuði. Hveragerði er landlítið sveitarfélag og samsvarar 1.300 km. akstur því að bæjastjóri keyri allar götur í Hveragerði 50 sinnum á mánuði. Þá er mjög óeðlilegt að bæjarstjóri fái bifreiðastyrk í sumarleyfi og á biðlaunum, eins og ráðningarsamningur gerir ráð fyrir, þegar hann er sannarlega ekki að vinna fyrir sveitarfélagið.
Ekki er eðlilegt að starfsmanni bæjarins séu greidd laun umfram uppsagnarfrest. Því er lagt til að biðlaunaréttur, sem aðrir starfsmenn bæjarins búa ekki við, verði felldur út úr 6. gr. samningsins og gagnkvæmur uppsagnarfrestur verði þrír mánuðir eins og hjá öðrum starfsmönnum bæjarins. Ef til uppsagnar kemur á samningstíma er það samkomulagsatriði milli bæjarstjórnar og bæjarstjóra hvort bæjarstjóri vinni uppsagnarfrest.
Njörður Sigurðsson

Breytingatillögur minnihlutans bornar upp: Fulltrúi O-listans greiddi atkvæði með tillögunum en þær felldar með atkvæðum fulltrúa D-listans.

Ráðningarsamningurinn borinn upp til samþykktar og samþykktur með tveimur atkvæðum meirihlutans, minnihlutinn á móti með svofelldri bókun:
Undanfarið hefur verið nokkur umræða í þjóðfélaginu um ofurlaun bæjarstjóra víðsvegar um landið. Komið hefur í ljós í fjölmiðlum að laun bæjarstjóra Hveragerðisbæjar hafa verið með þeim hæstu á landinu þó að Hveragerðisbær sé ekki stórt sveitarfélag. Það er því dapurlegt að Sjálfstæðismenn hafi ákveðið að taka ekki tillit til þessarar umræðu og hnika í engu frá stefnu sinni í ofurlaunum bæjarstjóra.
Með samþykkt meirihluta Sjálfstæðisflokksins á ráðningarsamningi við leiðtoga sinn munu starfskjör bæjarstjóra, ásamt bifreiðastyrk og launum fyrir setu í bæjarstjórn, vera um 1,7 m.kr. á mánuði. Auk þess fær bæjarstjóri laun fyrir setur í nefndum og ráðum sem Hveragerðisbær er aðili að. Því má ætla að heildarstarfskjör bæjarstjóra séu nær 1,8 m.kr. á mánuði. Þannig verða starfskjör bæjarstjóra sex sinnum hærri en lágmarkslaun sem margir starfsmenn Hveragerðisbæjar búa við. Starfskjör bæjarstjóra munu vera meira en þrisvar til fjórum sinnum hærri en háskólamenntaðra sérfræðinga sveitarfélagsins, þ.m.t kennara. Slík starfskjör eru úr öllum takti við kjör annarra starfsmanna bæjarins.
Undirritaður greiðir atkvæði gegn ráðningarsamningi við bæjarstjóra þar sem hann er ekki í neinu samhengi við kjör annarra starfsmanna sveitarfélagins.
Njörður Sigurðsson

Hér var gert fundarhlé frá 08:37-08:52.

Meirihlutinn bókaði eftirfarandi sem svar við bókun minnihlutans:
Laun bæjarstjóra eru í fullu samræmi við laun sveitarstjóra í sambærilegum sveitarsveitarfélögum skv. úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt er rétt að benda á að bifreiðastyrkur er ekki laun og því óeðlilegt að þeim sé stillt upp með þeim hætti. Bæjarstjóri hefur ekki setið í launuðum nefndum á vegum Hveragerðisbæjar ef undan er skilin seta í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar Árnesinga og sæti varamanns í stjórn Sorpstöðvar Suðurlands. Laun fyrir þau störf ná engan veginn þeim upphæðum sem fulltrúi O-listans gerir hér ráð fyrir.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, mætti aftur til fundar.

9.Verkfundargerð - Fráveitulagnir Breiðumörk - Hveramörk og Bláskógar - Frumskógar

1806048

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

10.Verkfundargerð - Sundlaugin Laugaskarði - Endurbætur - Áfangi 1

1806049

Fundargerðin samþykkt samhljóða. Jafnframt óskar bæjarráð eftir að teikningar og myndir af hönnun breytinga hússins verði gerðar aðgengilegar öllum í sundlaugarhúsinu.

11.Fundargerð stjórnar Bergrisans frá 18.júní 2018

1806046

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Fundargerð aukaaðalfundar Bergrisans bs. frá 18.júní 2018.

1806047

Undir 6. lið fundargerðarinnar er fjallað um byggingu sjö íbúða þjónustukjarna fyrir fatlað fólk á Selfossi en fyrir liggur samþykki Íbúðalánasjóðs um stofnframlag. Undir 8. lið er fjallað um þá tillögu að keypt verði íbúðarhús á Selfossi undir úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að ráðist verði í bæði verkefnin, að öðru leyti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:58.

Getum við bætt efni síðunnar?