Fara í efni

Bæjarráð

791. fundur 02. september 2022 kl. 08:00 - 08:58 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Sandra Sigurðardóttir formaður
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Friðrik Sigurbjörnsson
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Sandra Sigurðardóttir, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 26. ágúst 2022

2208229

Í bréfinu fjallað um bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um ramma að samkomulagi um samræmda móttöku flóttafólks.
Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með að gert verði samkomulag milli sveitarfélaga um samræmda móttöku á flóttafólki.

2.Bréf frá Tónlistarskóla Árnesinga frá 25. ágúst 2022

2208230

Bréf frá skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga vegna húsnæðisvanda tónlistarskólans í Hveragerði.
Bæjarstjóra falið að ræða við skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga og skólastjóra GíH um mögulegar lausnir.

3.Bréf frá Ástu Hallsdóttur og Benedikt Ólafssyni ódagsett

2208239

Í bréfinu kemur fram að bréfritarar óskuðu eftir þrengingu við Þelamörk vegna mikils umferðarhraða við götuna í bréfi til bæjarins þann 13. júní síðastliðinn. Þrátt fyrir að þrenging hafi verið sett upp um miðjan júlí þá hefur umferðarhraðinn lítið lækkað og óska þau því eftir frekari hraðaminnkandi aðgerðum af hálfu bæjarins.
Verið er að undirbúa vinnu við að gera heildstæða samgönguáætlun fyrir bæinn. Þar verður tekin afstaða til allra ferðamáta, gatna, stíga, hraða og merkinga auk bílastæðaviðmiða. Á meðan á þeirri vinnu stendur verður ekki farið í frekari aðgerðir á Þelamörk.

4.Niðurstöður hönnunarhóps um nýja Hamarshöll

2208231

Lagðar fram niðurstöður hönnunarhóps nýrrar Hamarshallar frá 22. ágúst 2022.
Fulltrúi D-listans lagði fram eftirfarandi bókun og fyrirspurn.

Frá upphafi starfs hönnunarhóps vegna byggingar nýs íþróttamannvirkis upp í Dal, var ljóst að ekki yrði tekið tillit til framkvæmdakostnaðar né hönnunar- og framkvæmdatíma heldur virðist eingöngu hafa verið horft til óraunhæfra óska og draumsýnar fulltrúa O-lista og Framsóknar. Fundir hópsins voru óreglulegir og komst þannig annar fulltrúi D-listans ekki á neinn fund þar sem henni barst ekki boð á fyrsta fund og síðan vegna breytinga á fundartíma með skömmum fyrirvara og þá voru fundirnir haldnir á almennum vinnutíma, enginn formaður virðist hafa verið skipaður til að leiða hópinn, engar fundargerðir voru kynntar fyrir bæjarfulltrúum, ef slíkar fundargerðir voru haldnar og niðurstöður hópsins síðan sendar út til fjölmiðla áður en þær höfðu verið kynntar fyrir bæjarfulltrúum og fengið umræðu á viðeigandi vettvangi.

Það er síðan óneitanlega sérstakt að hönnunarhópurinn sem skipaður var til að setja saman tillögur varðandi hönnun íþróttamannvirkisins og fyrirkomulag á allri aðstöðu, hafi ekki fengið neinn ramma um stærðargráðu og gæðastig byggingar út frá fjármagnsgetu bæjarfélagsins. Með vönduðum vinnubrögðum og vandaðri stjórnsýslu hefði átt að leggja línurnar um byggingu nýs íþróttamannvirkis, en í stað þess eru byggðar væntingar um skýjaborgir hjá iðkendum, þjálfurum og öðrum bæjarbúum.

Fulltrúi D-listans óskar eftir svörum við eftirfarandi spurningum.
Hver er áætlaður hönnunar- og framkvæmdatími nýs Hamarshallar?
Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmdina?

Friðrik Sigurbjörnsson

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Hönnunarhópurinn var skipaður tveimur fulltrúum úr meirihluta og tveimur fulltrúum úr minnihluta ásamt öðrum fagaðilum, starfsmenn og fulltrúar í nefndum bæjarins ásamt fulltrúa frá íþróttafélaginu. Starfsmenn bæjarins, þau Jóhanna M. Hjartardóttir og Jón Friðrik Matthíasson leiddu þessa vinnu og gerðu það vel. Niðurstaða vinnu hópsins er þessi skýrsla og engin ákvörðun var tekin eða þurfti að taka í kjölfarið hvað skýrsluna sjálfa varðar. Í skýrslunni kemur fram að byggingin skuli vera frekar einföld og hagkvæm í byggingu. En kostnaður liggur ekki fyrir, en næsta skref er að fá kostnaðarmat sem unnið verður út frá. Einnig kemur fram að byggingin verði byggð í áföngum og í fyrsta hluta verði fjölnota gólf ásamt gerfigrasi. Mikilvægt er að koma upp þessari aðstöðu eins fljótt og auðið er líkt og gefur að skilja og er verið að horfa til þess að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2023. Meirihlutinn stuðlar að góðri stjórnsýslu og skýrsla þessi var því sett á heimasíðu bæjarins svo bæði allir íbúar jafnt sem og bæjarfulltrúar gátu séð hana á sama tíma.

Sandra Sigurðardóttir
Halldór Benjamín Hreinsson.

Meirihluti bæjarráðs þakkar hönnunarhópnum fyrir gott starf og fljóta afgreiðslu á málinu þrátt fyrir sumarleyfi en skipað var í hópinn á fundi bæjarstjórnar 11. júlí sl.

Fulltrúi D-listans lagði fram eftirfarandi bókun.
Fyrir kosningar héldu fulltrúar O-lista og Framsóknar því fram að nýtt íþróttamannvirki sem ekki yrði loftborið gæti verið komið upp í nóvember á þessu ári. Eftir kosningar breyttist það og nú er því haldið fram að nýja íþróttamannvirkið verði tilbúið til notkunar að ári. Allir sem skoðað hafa niðurstöður hönnunarhópsins sjá það að hönnun og framkvæmd af þeirri stærðargráðu sem hönnunarhópurinn leggur til tekur mun lengri tíma en eitt ár.

Ljóst er að kostnaður við byggingu íþróttamannvirkis, líkt og fulltrúar O-lista og Framsóknar leggja til, mun kosta meira en 1.5 milljarð króna, en ekki 260-600 milljónir króna líkt og fulltrúar O-lista og Framsóknar hafa sagt bæði fyrir og eftir kosningar að þetta íþróttamannvirki myndi kosta. Setjum þessa upphæð, 1.5 milljarða króna, í samhengi við tekjur Hveragerðisbæjar, sem eru um 3 miljarðar króna á ári og koma að lang mestu leiti frá skattgreiðendum. Það er um það bil helmingur eða meira af tekjum Hveragerðisbæjar sem færu í nýtt íþróttamannvirki ef byggja á í samræmi við niðurstöður hönnunarhópsins. Á sama tíma hefur verið samþykkt að byggja nýjan leikskóla og viðbyggingu við grunnskólann á næstu tveimur árum, sem mun samanlagt kosta nálægt 2.5 milljarð króna. Þá á eftir að reka sjálft bæjarfélagið, en nú þegar fara um 60% af tekjum bæjarfélagsins í fræðslumál og þá eru allir aðrir málaflokkar eftir.

Friðrik Sigurbjörnsson.

5.Minnisblað frá byggingarfulltrúa - Ráðgjafar alútboðs, vegna Hamarshallar

2208232

Lagt fram minnisblað frá byggingarfulltrúa vegna ráðgjafar alútboðs, vegna Hamarshallar frá 22. ágúst 2022.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir að ráða Torfa G. Sigurðsson, verkfræðing hjá Mannvit hf og Jakob Líndal arkitekt hjá Alark arkitektum ehf til að fylgja eftir vinnu hönnunarhóps um endurbyggingu Hamarshallarinnar og koma að nánari þarfagreiningu og gerð alútboðsgagna í samstarfi við bæjaryfirvöld. Fulltrúi D-listans sat hjá.

6.Minnisblað frá bæjarstjóra - Húsnæðismál Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings

2208245

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 30. ágúst 2022 vegna húsnæðismála Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að segja upp húsaleigusamningi við Skóla- og velferðaþjónustu um húsnæðið Fljótsmörk 2. Áfram verði leitað allra leiða til að finna húsnæði undir leikskólastarf.

7.Þjónustusamningur um vatnsveitu við Sameignarfélag Ölfusborga

2206062

Lagður fram þjónustusamningur við Sameignarfélag Ölfusborga vegna vatnsveitu.
Samningurinn samþykktur.

8.Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

2208234

Óskað eftir því að barn með lögheimili í Hveragerði fái að stunda nám í utan Hveragerðis veturinn 2022-2023.
Umsóknin samþykkt samhljóða.

9.Rekstraryfirlit janúar - maí 2022

2208233

Lagt fram rekstraryfirlit fyrir janúar til maí 2022.
Lagt fram til kynningar.

10.Forsendur fjárhagsáætlana 2023-2026

2208241

Lagðar fram forsendur sem hafa á til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlana 2023-2026 sem bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

11.Tillaga frá fulltrúa D-lista - Gatnagerð Friðastaðir og við Varmá

2208246

Fulltrúi D-listans lagði fram eftirfarandi tillögu.

Fulltrúi D-listans leggur til að leitað verði tilboða í gatnagerð við atvinnulóðir við Friðastaði og við fyrirhugaða íbúðabyggð við Varmá líkt og gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022.

Greinagerð
Í fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022 var gert ráð fyrir að farið verði í gatnagerð á Friðastaðareit og við Varmá líkt og skipulag gerir ráð fyrir. Samkvæmt skipulagi væri þannig fljótlega hægt að auglýsa lausar til úthlutunar 5 einbýlishús, 2 parhús og 1 raðhús. Taka þarf þó ákvörðun um það með hvaða hætti þessar íbúðir yrðu úthlutaðar með tilliti til heildarútlitssvæðisins og uppbyggingahraða.

Friðrik Sigurbjörnsson
Tillagan samþykkt samhljóða.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Samkvæmt upplýsingum frá byggingafulltrúa var ákveðið í samráði við fyrrverandi bæjarstjóra að fresta útboðinu fram yfir kosningar. Samkvæmt upplýsingum frá honum er best að bjóða út jarðvinnu á haustin þegar jarðvinnuverktakar fara að huga að verkefnum næsta árs og því er rétti tíminn til þess núna.

Sandra Sigurðardóttir
Halldór Benjamín Hreinsson.

12.Tillaga frá fulltrúa D lista - Umhverfishönnun undir Hamrinum

2208247

Fulltrúi D-listans lagði fram eftirfarandi tillögu.

Fulltrúi D-listans leggur til að leitað verði tilboða í umhverfishönnun undir Hamrinum.

Greinagerð
Lengi hefur staðið til að koma upp heildstæðu skipulagi á útvistarsvæðinu undir Hamrinum, en svæðið er eitt helsta útvistarsvæði Hvergerðinga. Þar er að finna fótboltavöll, frisbígolfvöll, útikennslustofu, fallegar göngu- og hjólaleiðir í og meðfram skóginum og fyrirhugað er að setja upp nýjan ærslabelg ásamt útilíkamsræktartækjum. Þá er hægt að koma fyrir fleirum möguleikum til útivistar eins og fjallahjólabraut og útivistarsvæði fyrir Skátafélagið svo eitthvað sé nefnt og væri einnig tilvalið í kjölfarið að óska eftir hugmyndum frá íbúum bæjarins að frekari notkun á svæðinu. Samkvæmt fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að farið verði í slíka hönnun og því rúmast kostnaður við hönnun innan þess.

Friðrik Sigurbjörnsson
Tillagan samþykkt samhljóða.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Meirihlutinn fagnar þessari tillögu Sjálfstæðisflokksins og er sammála um að heildstætt skipulag undir Hamrinum hefur vantað og er nauðsynlegt til að gera þessa útivistarparadís enn betri fyrir bæjarbúa og aðra gesti að njóta. Í málefnasamningi Okkar Hveragerðis og Framsóknar er fjallað um hönnun á svæðinu og í framhaldi af þeirri vinnu er vilji er til þess að byggja upp glæsilegt útivistarsvæði í áföngum.

Sandra Sigurðardóttir
Halldór Benjamín Hreinsson.

13.Ölfusvegur um Varmá - verkfundargerð frá 10. ágúst 2022

2208235

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

14.Leikskólinn Óskaland - lóðaframkvæmdir - verkfundargerð frá 29. ágúst 2022

2208244

Bæjarráð samþykkir að fresta ákvörðun um rafhleðslustöðvar samkvæmt umræðum á fundinum.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

15.Fundargerð Brunavarna Árnessýslu frá 18. ágúst 2022

2208236

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

16.Fundargerð Tónlistarskóla Árnesinga frá 16. ágúst 2022

2208237

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 08:58.

Getum við bætt efni síðunnar?