Fara í efni

Bæjarráð

780. fundur 03. mars 2022 kl. 08:00 - 10:15 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
Starfsmenn
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá

1.Bréf frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni frá 22. febrúar 2022.

2203001

Í bréfinu sendir forsetinn Hvergerðingum hlýjar kveðjur eftir að Hamarshöllin eyðilagðist í fárviðrinu sem gekk yfir landið þann 22. febrúar 2022.
Bæjarráð þakkar innilega þann góða hug sem forseti Íslands sýnir bæjarbúum með þessari kveðju.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 24. febrúar 2022.

2202109

Í bréfinu óskar atvinnuveganefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja), 349. mál.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 28. febrúar 2022.

2202121

Í bréfinu óskar velferðarnefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar(skerðing á lífeyri vegna búsetu), 71. mál.
Lagt fram til kynningar.

4.Bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga frá 21. febrúar 2022.

2202107

Í bréfinu kynnir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hlutverk sitt um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Í bréfinu fer nefndin yfir aðgerðir sem framkvæmdar verða á árinu 2022 vegna eftirlits.
Bæjarráð þakkar Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fyrir greinargóðar upplýsingar um starfsemi nefndarinnar og hlutverk hennar.

5.Bréf frá Skipulagsstofnun frá 22. febrúar 2022.

2202108

Í bréfinu er óskað eftir umsögn Hveragerðisbæjar vegna matsáætlunar um niðurdælingu á CO2 á Hellisheiðinni og á því hvernig framkvæmdaaðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar.
Bæjarráð minnir á fyrri bókanir varðandi mikilvægi þess að vandlega sé kannað hvaða áhrif niðurdæling getur haft á umhverfi sitt, ekki síst hvað varðar aukna jarðskjálftavirkni á svæðinu. Það hefur sýnt sig að niðurdælingar í og við Hellisheiði hafa framkallað jarðskjálfta, fjölmarga og nokkuð stóra. Því hlýtur það að vera skýlaus krafa íbúa í nágrenni við framkvæmdasvæðið að í umhverfismati sé lagt mat á hættuna af aukinni skjálftavirkni og þau áhrif sem slíkt getur haft á nánasta umhverfi. Í umhverfismati Hellisheiðarvirkjunar á sínum tíma var þessi hætta ekki metin, sem enn í dag vekur furðu þar sem allir þeir sérfræðinga sem unnu það mat hefðu átt að vita að aukin skjálftavirkni gæti verið fylgifiskur niðurdælingar. Hvergerðingar munu áfram fylgjast grannt með framvindu við mat á umhverfisáhrifum af framkvæmdum á Hengilsvæðinu og treysta því að í dag hafi allir lært af biturri reynslu og að nú verði unnið betur að gerð umhverfismats en áður var gert á sama svæði.
Mikilvægt er að fram komi að í kafla 6.1.3 eru nefndir möguleikar á enn meiri niðurdælingu jafnvel frá fleiri og utanaðkomandi aðilum en ljóst er að slík aukin niðurdæling verður að vera háð nýju umhverfismati.

6.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 22. febrúar 2022.

2202115

Í bréfinu er rætt um hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna ársins 2021 sem til komnar eru vegna endurmats tryggingastærðfræðinga á forsendum um lífslíkur og hækkunar launa undanfarin misseri.
Bæjarráð undrast mjög að þessi aðgerð skuli framkvæmd með þeim hætti sem hér er kynnt en staðfesting fjármálaráðherra á tillögum tryggingastærðfræðinga átti sér stað í lok árs 2021 án samráðs við sveitarfélög landsins. Hafa sveitarfélögin því engin tök haft á að bregðast við þessari miklu breytingu hvorki við gerð fjárhagsáætlunar eða með samþykkt viðauka í tæka tíð. Bæjarráð undrast þessi vinnubrögð og leggur áherslu á mikilvægi góðs samráðs við sveitarfélögin þegar ákvarðanir sem hafa gríðarleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga eru teknar. Lífeyrisskuldbinding Hveragerðisbæjar mun hækka um 200 m.kr. við þessa breytingu sem hafa mun bein neikvæð áhrif á niðurstöðu rekstrar ársins 2021 sem og skuldastöðu bæjarfélagsins.

7.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 21. febrúar 2022.

2202116

Í bréfinu er kynntir samráðs- og upplýsingafundir með sveitarstjórnarmönnum til undirbúnings stefnumótunarvinnu sem fram mun fara á landsþingi sambandsins í september 2022.
Bæjarráð fagnar frumkvæði sambandsins hvað þetta varðar og hvetur bæjarfulltrúa til að taka þátt í umræddum fundum.

8.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 28. febrúar 2022.

2202122

Í bréfinu er kynnt verkefnið "Samtaka um hringrásarhagkerfið" sem er verkefni sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett á fót með aðstoð Umhverfis-,orku- og loftlagsráðuneytisins til að aðstoða sveitarfélög við að innleiða breytingar á úrgangsstjórnun.
Bæjarráð fagnar því að verkefni sem þetta sé orðið að veruleika en framundan er strangt ferli breytinga á sviði úrgangsmála. Tengiliðir við umhverfisverkefni sveitarfélagsins eru umhverfisfulltrúi og formaður umhverfisnefndar.

9.Umræður um vetrarþjónustu á Hellisheiðinni. Á fundinn mæta fulltrúar frá Vegagerðinni.

2203002

Á fundinn mættu fulltrúar Vegagerðarinnar Svanur Bjarnason og Ágúst Sigurjónsson til að ræða um vetrarþjónustu á Hellisheiðinni nú í vetur en tíðar og langar lokanir á veginum um Hellisheiði og Þrengsli hafa valdið íbúum og fyrirtækjum hér fyrir austan fjall miklum vanda það sem af er ári.
Bæjarráð þakkar Vegagerðarmönnum komuna og þær upplýsingar sem fram komu á fundinum. Bæjarráð vonast til þess að með betri og ítarlegri samskiptum verði hægt að tryggja betri vetrarþjónusu á Hellisheiðinni en nú er.

10.Minnisblað frá bæjarstjóra - úttekt á valkostum við Hamarshöll.

2203004

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 1. mars 2022 um úttekt á valkostum varðandi uppbyggingu á svæði Hamarshallarinnar.
Bæjarráð vill koma á framfæri þökkum til starfsmanna bæjarins fyrir fumlaus og góð viðbrögð við þessum atburði sem og einnig innilegum þökkum til allra þeirra sem lögðu okkur lið við aðgerðir á svæðinu þennan dag. Sérstaklega þökkum við Brunavörnum Árnessýslu, Hjálparsveit skáta í Hveragerði, verktökum í bæjarfélaginu og hinum ýmsu aðilum sem brugðust við sem einn maður til björgunar þegar á þurfti að halda. Það er gott fyrir bæ eins og okkar að eiga ykkur að.

Bæjarráð samþykkir að fela Ara Guðmundssyni, verkfræðing hjá Verkís ehf að gera greiningu á þeim valkostum sem bæjarfélaginu standa til boða.
Í valkostagreiningunni verði gerður samanburður á eftirfarandi:

Dúkhýsi eins og því sem var á staðnum.
Stálgrindarhúsi, annars vegar einangruðu og upphituðu og hins vegar köldu, óeinangruðu.
Límtréshús, annars vegar einangrað og upphitað og hins vegar kalt hús.

Við samanburð verði horft til byggingarkostnaðar, árlegs rekstrarkostnaðar, vænts viðhaldskostnaðar og notkunarmöguleika viðkomandi húss. Bæjarráð leggur áherslu á að þessi vinna verði unnin eins hratt og nokkur er kostur svo taka megi ákvörðun um næstu skref svo fljótt sem auðið er.

11.Minnisblað frá bæjarstjóra - úthlutun lóða við Hólmabrún.

2203003

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 1. mars 2022 varðandi úthlutun lóða við Hólmabrún.
Bæjarráð samþykkir að lóðir við Hólmabrún verði auglýstar lausar til umsóknar nú þegar með það að markmiði að fyrsta úthlutun á svæðinu geti átt sér stað á fyrri fundi bæjarráðs í apríl.

Lóðir við Hólmabrún eru í austasta hluta bæjarins þar sem útsýni er með besta móti og náttúruperlan Varmá beint neðan af hverfinu. Í hverfinu er gert ráð fyrir góðum tengingum við göngustíga og greiðu aðgengi að Varmá og nærliggjandi byggð. Leikskólinn Undraland er í göngufæri við hverfið. Þar sem hér er um að ræða einstakar lóðir á besta stað í Hveragerði og gatnagerð á svæðinu er afar umfangsmikil, samþykkir bæjarráð að leggja til við bæjarstjórn að samþykkt verði að nýta heimild 6. greinar samþykktar um byggingagjöld í Hveragerði til að leggja byggingaréttargjald á umræddar lóðir með eftirfarandi hætti.
Einbýlishúsum vestan megin í Hólmabrún(1-15)verði úthlutað með 40% álagi á gatnagerðargjald. Lóðum númer 18 og 20 verði úthlutað með 60% álagi skv. sömu heimild. Tveggja hæða húsum, austan megin Hólmabrúnar (2-16) verði úthlutað án álags enda er nýtingarhlutfall þeirra lóða afar hátt og lóðagjöld því miklu mun hærri þar en á öðrum lóðum við götuna.

12.Minnisblað frá byggingarfulltrúa - Lagfæringar og breytingar á hitakerfi Sundlaugar í Laugaskarði.

2202111

Lagt fram minnisblað frá byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2022 vegna lagfæringar og breytingar á hitakerfi Sundlaugarinnar í Laugaskarði.
Bæjarráð samþykkir að settur verði upp búnaður fyrir tvöfalt hitaveitukerfi í sundlaugarhúsinu og að húsið og allur búnaður þess verði þar með á tvöföldu dreifikerfi Veitna. Við þessa aðgerð ætti álagið á gufuveitunni að minnka um ca. 25% sem bæta mun vonandi hitamál í sundlaug og stóra heita pottinum. Einnig samþykkir bæjarráð að Hveragerðisbær beri hluta af kostnaði við breytingu innanhúss, 2 m.kr.. Umfram rekstrarkostnaður við þessa breytingu mun nema 1-2 m.kr. á ári.

13.Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa - akstur íþróttahópa v.falls Hamarshallar.

2202120

Lagt fram minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa frá 28. febrúar 2022 vegna aksturs íþróttahópa sem misst hafa aðstöðu sína vegna skemmda á Hamarshöllinni og þurfa að æfa í nærliggjandi sveitarfélögum.
Bæjarráð samþykkir að gengið verði til samninga við Steinferðir ehf um akstur barna á íþróttaæfingar milli Hveragerðis og Þorlákshafnar. Enn liggur ekki fyrir hvaða kostnaður felst í viðaukasamningi við Landferðir um akstur á Selfoss en allt stefnir í að kostnaður við akstur í heildina geti orðið að lágmarki 2,5 m.kr. fram á vor.

14.Úttekt á starfsemi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

2202110

Lögð fram úttekt á starfsemi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.
Bæjarráð hefur kynnt sér greinargerðina og mun í framhaldinu verða rætt við stjórnendur fræðslustofnana sem og starfsmenn velferðarþjónustu um fyrirkomulag sérfræðiþjónustu skólanna og félagsþjónustu bæjarins.

15.Fundargerð Bergrisans frá 31. janúar 2022.

2202112

Fundargerðin lögð fram til kynningar um leið og bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri svörtu sýn sem virðist vera að teikna sig upp hvað varðar fjárhagslegar forsendur málaflokksins.

16.Fundargerð Bergrisans frá 15. febrúar 2022.

2202113

Fundargerðin lögð fram til kynningar en ekkert virðist hafa breyst varðandi þær áhyggjur sem stjórn Bergrisans hefur af afkomu málaflokksins. Bæjarráð bindur miklar vonir við þá vinnu sem nú er í gangi varðandi skoðun á fjárhagslegri stöðu málaflokksins undir stjórn Haraldar Líndal og vonar að sú vinna skili auknum tekjum til þessa mikilvæga málaflokks.

17.Fundur lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum haldinn 15. febrúar 2022.

2202118

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundur lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum 22. febrúar 2022.

2202119

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:15.

Getum við bætt efni síðunnar?