Fara í efni

Bæjarráð

671. fundur 16. mars 2017 kl. 08:00 - 09:33 í fundarsal Sunnumörk 2
Nefndarmenn
  • Unnur Þormóðsdóttir formaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Garðar R. Árnason
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Unnur Þormóðsdóttir formaður setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá nefndarsviði Alþingis frá 3.mars 2017.

1703012

Í bréfinu er óskað eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 106. mál.
Bæjarráð lýsir yfir andstöðu sinni við frumvarpið en þar er lagt til að aðgengi að áfengi verði stóraukið. Bæjarráð telur rétt að tekið verði tillit til samdóma álita sérfræðinga sem allir telja að vandi og kostnaður tengdur áfengisneyslu muni stóraukast verði frumavarpið að lögum. Fjöldi fagaðila á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda auk félagasamtaka hefur fært góð og gagnreynd rök fyrir því að slíkt væri óheillaspor gagnvart lýðheilsu. Ennfremur hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO)um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Það er óráðlegt að hlusta ekki þegar allir sérfræðingar sem um málið hafa fjallað eru sammála.

2.Bréf frá nefndarsviði Alþingis frá 10.mars 2017.

1703013

Í bréfinu er óskað eftir umsögn um frumvarp til laga um orlof húsmæðra ( afnám laganna), 119. mál.
Bæjarráð ítrekar fyrri afstöðu vegna þessa máls þar sem ítrekað hefur verið bókað að lög um húsmæðraorlof séu að flestra mati fullkomlega úr takti við nútímann og ekki síður á skjön við gildandi lög um jafnrétti kynjanna. Í Hveragerði er í gildi jafnréttisstefna og eru þessi lög einnig í hróplegu ósamræmi við hana. Því hvetur bæjarráð alþingismenn til að fella lögin um orlof húsmæðra úr gildi.

3.Bréf frá nefndarsviði Alþingis frá 14.mars 2017.

1703024

Í bréfinu er óskað eftir umsögn um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútsvars), 120. mál.
Bæjarráð varar við hugmyndum um afnám lágmarksútsvars og leggst gegn því að frumvarp um slíkt verði að lögum. Samband íslenskra sveitarfélaga og fjöldi sveitarfélaga hafa varað við samþykkt sambærilegs frumvarps sem lagt var fram árið 2014.

Frumvarpið virðist ekki snúast um að efla tekjustofna sveitarfélaga eða innbyrðis skiptingu þeirra heldur snýst það um að ákveðinn hópur launamanna á Íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar það tekur ákvörðun um búsetu. Á Íslandi sem og á öðrum Norðurlöndum hefur verið sátt um þá afstöðu að allir launþegar skuli greiða ákveðinn hluta af launum til samfélagslegra verkefna, skiptir þá fjárhagsleg staða viðkomandi sveitarfélags ekki máli.

Bæjarráð gerir orð Sambandsins frá 2014 að sínum þar sem segir m.a. "Þar sem fámenn sveit­ar­fé­lög hafa miklar tekjur af álagn­ingu fast­eigna­skatts gætu þær aðstæður skap­ast að þau gætu lækkað álagn­ing­ar­hlut­fall útsvars veru­lega eða jafn­vel niður í 0% ef lág­marks­út­svar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa mögu­leika á inn­lendum skattaparadísum og til­heyr­andi „gervi­bú­setu" með ófyr­ir­sjá­an­legum afleið­ing­um. íbúar þess­ara sveit­ar­fé­laga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launa­tekjum sínum óháð upp­hæð launa."

Bæjarráð bendir á að ef frumvarp sem þetta ætti að verða að lögum yrði samhliða að gera gagngerar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að komið verði í veg fyrir að sveitarfélög sem í dag hýsa til dæmis stöðvarhús vatnsaflsvirkjana eða stórar ríkisstofnanir gætu hyglað íbúum sínum fjárhagslega á grundvelli tekna sem þessi mannvirki veita.

Bæjarráð telur að afnám lágmarksútsvars brjóti gegn anda þess jafnræðis sem við sem þjóð viljum að ríki í okkar samfélagi og því leggst bæjarráð eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.

4.Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga ódagsett.

1703015

Í bréfinu er boðað til aðalfundar Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. vegna ársins 2016 sem haldinn verður 24. mars 2017 á Grand Hótel Reykjavík.
Lagt fram til kynningar en bæjarstjóri mun sækja fundinn fyrir hönd Hveragerðisbæjar.

5.Bréf frá Ungmennaráði Suðurlands frá 27.febrúar 2017.

1703014

Í bréfinu er óskað eftir umsögn um erindisbréf Ungmennaráðs Suðurlands og óskað er eftir tilnefningu í ráðið.
Bæjarráð vísar erindisbréfinu til Ungmennaráðs til umsagnar og felur Menningar- og frístundafulltrúa í samráði við Ungmennaráð að tilnefna í ráðið.

6.Bréf frá Rósagarðinum frá 13.mars 2017.

1703016

Í bréfinu óskar bréfritari eftir að fá svokallaðar Eden hurðir til sinna umráða.
Útihurðirnar í Eden vöktu mikla athygli á sínum tíma. Þær voru listilegar útskornar af útskurðarmeistaranum Erlendi Magnússyni og sýndu Adam og Evu í aldingarðinum Eden. Eden brann til kaldra kola þann 22. júlí 2011. Það vakti athygli að þrátt fyrir að fátt stæði eftir nema steyptir útveggirnir þá höfðu þessar tréhurðir ekki brunnið nema á þeirri hlið sem snéri inn. Hveragerðisbær fékk hurðirnar að gjöf frá húseiganda eftir brunann og hafa þær verið í geymslu síðan þá.

Bæjarráð samþykkir að hurðirnar verði lánaðar til Rósagarðsins við Breiðumörk enda verði þeim gerður sómi og þær sýndar á áberandi stað til minningar um Eden. Hurðirnar verða eftir sem áður í eigu bæjarins og getur bæjarstjórn hvenær sem er gert tilkall til þeirra með 1 mánaðar fyrirvara. Bæjarstjóra falið að ganga frá samkomulagi á milli aðila í samræmi við framangreint.

7.Bréf frá Nordjobb frá 6.mars 2017.

1703019

Í bréfinu er óskað eftir því að Hveragerðisbær taki 2 norræn ungmenni á vegum Nordjobb í sumarvinnu árið 2017.
Bæjarráð samþykkir að ráða tvö ungmenni.

8.Bréf frá Dalakaffi frá 20.september 2016, áður á dagskrá bæjarráðs 6. október 2016.

1609052

Í bréfinu er óskað eftir áframhaldandi stöðuleyfi fyrir söluskálann Dalakaffi við bílastæði í Ölfusdal.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að gera nýjan samning um framlengingu stöðuleyfis er gildi til 1. nóvember 2017 í samræmi við umræður á fundinum. Samningurinn verði lagður fyrir næsta fund bæjarráðs.

9.Forkaupsréttur, Öxnalækjarland.

1703005

Í bréfinu er óskað eftir að Hveragerðisbær falli frá forkaupsrétti vegna 6,0 ha lóðar við Öxnalækjaland 171614 fastanr. 234-3314.
Bæjarráð samþykkir að nýta forkaupsréttinn að umræddri lóð og felur bæjarstjóra samningagerð vegna þess.

10.Minnisblað frá bæjarstjóra: Ljósbrá steinasafn.

1703020

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 14. mars 2017 þar sem rætt er um Ljósbrá steinasafn.
Bæjarráð telur ljóst að eigendur hafa sýnt gríðarlegan metnað við uppbyggingu safnsins og nú þegar er safnið orðið spennandi viðkomustaður í bæjarfélaginu. Allir vita að markaðssetning slíkrar nýbreytni er erfið og því samþykkir bæjarráð að bæjarstjóra verði falið að gera þjónustusamning við eigendur „Ljósbrá steinasafns“ þar sem sú þjónusta sem eigendur geta veitt bænum sem endurgjald fyrir fjárhaglegan stuðning verði skilgreind.

11.Minnisblað frá bæjarstjóra: Stuðningur við barnshafandi starfsmenn Hveragerðisbæjar.

1703021

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 14. mars vegna stuðnings við barnshafandi starfsmenn Hveragerðisbæjar.
Bæjarráð samþykkir að barnshafandi starfsmenn bæjarins eigi möguleika á launuðu fríi einum mánuði fyrir settan fæðingardag. Skal fæðingardagur staðfestur með læknisvottorði. Starfsmanni ber að tilkynna yfirmanni eins fljótt og kostur er hvort hann hyggst nýta sér þennan rétt.

12.Opnun tilboða í verkið Hjallabrún 2017.

1703018

Þann 3. mars fór fram opnun tilboða í verkið "Hjallabrún 2017". Alls bárust 7 tilboð í verkið.

Borgarverk 48.584.000.-
Bor ehf 41.760.000.-
Ásvélar ehf 33.229.992.-
Jökulfell ehf 39.819.400.-
Aðalleið ehf 32.870.000.-
Vörubifreiðastjóraf. Mjölnir 39.507.000.-
Arnon ehf 35.013.900.-

Kostnaðaráætlun Eflu verkfræðist. 38.216.000.-
Bæjarráð samþykkir að taka lægsta tilboði.

13.Minnisblað frá félagsráðgjafa: Niðurgreiðslur til dagforeldra.

1703017

Lagt fram minnisblað frá félagsráðgjafa frá 13. mars vegna niðurgreiðslna til dagforeldra.
Í ljósi þess að einungis eitt dagforeldri er nú starfandi í Hveragerði og enginn hefur sótt um auglýstar stöður þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar samþykkir bæjarráð að hækka niðurgreiðslu til dagforeldra um 100% frá og með 1. apríl. Einnig samþykkir bæjarráð að aðstöðugreiðslur til dagforeldra verði 100.000 við upphaf starfs og 50.000 árlega eftir það. Greiðslurnar verði hlutfallaðar miðað við fjölda barna í daggæslu.

Bæjarráð samþykkir einnig eftirfarandi bókun samhljóða:
Með byggingu nýs leikskóla sem taka mun til starfa í október 2017 mun börnum í bæjarfélaginu bjóðast leikskólavistun frá 1 árs aldri að jafnaði. Þrátt fyrir það er ljóst að þörfin fyrir dagvistunarúrræði á milli loka fæðingarorlofs og upphafs leikskólagöngu er til staðar og því skorar bæjarráð á félags- og jafnréttisráðherra og velferðarráðherra að hlutast til um það að lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 verði breytt með það fyrir augum að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði eða til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

14.Verkfundargerð Leikskóli, Þelamörk 62 frá 7.mars 2017.

1703011

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

15.Fundargerð NOS frá 6.mars 2017.

1703010

Fundargerðin lögð fram til kynningar en jafnframt er vakin athygli á kynningarfundi fyrir sveitarstjórnir sem haldinn verður í Vatnsholti, Flóa, þriðjudaginn 25. apríl kl. 10.

16.Fundargerð stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24.febrúar 2017.

1703008

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

17.Fundargerð Bergrisans frá 20.febrúar 2017.

1703009

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð Brunavarna Árnessýslu frá 14.mars 2017.

1703022

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

19.Fundargerð stjórnar SASS frá 3.mars 2017.

1703023

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

20.Fundargerð fagráðs Tónlistarskóla Árnesinga frá 14.mars 2017.

1703025

Með fundargerðinni fylgdi ný kostnaðarskipting til sveitarfélaga vegna nýs kjarasamnings FT og SNS.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 09:33.

Getum við bætt efni síðunnar?