Fara í efni

Bæjarráð

774. fundur 18. nóvember 2021 kl. 08:00 - 10:01 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Eyþór H. Ólafsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar lagði bæjarráð fram eftirfarandi bókun.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar óskar Guðríði Aadnegaard, námsráðgjafa og umsjónarkennara við Grunnskólann í Hveragerði, innilega til hamingju með hvatningarverðlaun Dags gegn einelti sem veitt voru 9. nóvember sl. og afhent voru af forseta Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra.

Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum og varð Guðríður fyrir valinu vegna þess ómetanlega starfs sem hún hefur unnið í eineltismálum undanfarin ár. Guðríður þykir einnig einkar góð fyrirmynd sem lagt hefur mikið af mörkum til þess að skapa jákvæða menningu í skóla sínum. Þá hefur hún einnig unnið af kappi fyrir íþróttahreyfinguna og hafa störf hennar þar einkennst af metnaði, virðingu og hlýju fyrir börnum og öðru samferðafólki rétt eins og í skólanum okkar.

Það er okkur Hvergerðingum ómetanlegt að hafa jafn hæfa starfsmenn og Guðríði í þjónustu við yngstu íbúa bæjarins. Í tilefni af viðurkenningunni verður gróðursett tré í Lystigarðinum Fossflöt sem með táknrænum hætti mun dafna til framtíðar og minna okkur öll um leið á mikilvægi þess að allir einstaklingar fái að dafna og njóta sín í bænum okkar.

1.Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá 12. nóvember 2021.

2111050

Í bréfinu kemur fram að „vegna fjölgunar COVID-19 smita í samfélaginu hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að ákveða að sveitarstjórnarmönnum sé heimilt að taka þátt í fundum sveitarstjórna eða nefnda og ráða á vegum sveitarfélaga með rafrænum hætti, þrátt fyrir að um annað sé getið í samþykktum þeirra. Heimildin gildir til 31. janúar 2022.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þessi heimild verði nýtt.

2.Bréf frá Stígamótum frá 3. nóvember 2021.

2111032

Í bréfinu óskar Stígamót eftir fjárstuðningi fyrir árið 2022.
Í tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er venju samkvæmt áætlaður styrkur til Stígamóta að fjárhæð kr. 120.000.-

3.Bréf frá Sigurhæðum frá 8. nóvember 2021.

2111033

Í bréfinu segir frá því að 25. nóvember n.k. hefst árlegt alþjóðlegt sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi og lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember. Soroptimistaklúbbur Suðurlands sendir Hvergerðisbæ appelsínugulan fána ef vera kynni að sveitarfélagið vilji taka þá í átakinu með því að flagga.
Lagt fram til kynningar en umhverfisfulltrúi mun finna góðan stað fyrir fánann.

4.Bréf frá Sjóðnum góða ódagsett nóvember 2021.

2111034

Í bréfinu óskar Sjóðurinn góði, sem er samstarfsverkefni félagasamtaka í Árnessýslu eftir fjárframlagi.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að Sjóðurinn góði verði styrktur um 100.000,- eins og undanfarin ár.

5.Minnisblað - verkefnið brúkum bekki.

2111035

Lagt fram minnisblað frá þjónustufulltrúa á Umhverfissviði frá 28. október 2021 þar sem fjallað er um samstarfsverkefni félags sjúkraþjálfara og eldri borgara "Brúkum bekki" og tillaga lögð fram um verkefnið í Hveragerði.
Bæjarráð lýsir yfir ánægju með þær hugmyndir sem fram koma í minnisblaðinu en þar eru lagðar fram fjórar tillögur að gönguleiðum í Hveragerði og jafnframt settar fram tillögur að staðsetningu bekkja með 250m millibili við gönguleiðirnar. Er verkefnið ekki hvað síst hugsað með eldri kynslóðina í huga en gönguleiðirnar sem nú eru kortlagðar eru allar í kringum helstu kjarna eldri íbúa bæjarins. Samkvæmt tillögunum vantar núna 5 bekki til að markmiðið um fjarlægðir milli bekkja náist. Vill bæjarráð hvetja bæði fyrirtæki og einstaklinga sem mögulega myndu vilja minnast vina og ættingja með kaupum á bekk sem gæti verið sérmerktur og leggja þannig lóð sitt á vogarskálar heilsueflandi samfélags. Stefnt verður að því að fjölga leiðum t.d. miðsvæðis í bænum. Að öðru leyti er framvæmdinni vísað til umhverfisfulltrúa.

6.Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.

2111039

Óskað er eftir að nemandi með lögheimili í Hveragerði fái að stunda nám í skóla utan Hveragerðis skólaárið 2021-2022.
Bæjarstjóra falið að ræða við bréfritara í samræmi við umræður á fundinum.

7.Umsókn um leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags.

2111040

Óskað er eftir því að barn með lögheimili í Hveragerði fái leikskólavist í leikskóla utan Hveragerðis skólaárið 2021-2022.
Bæjarstjóra falið að ræða við bréfritara í samræmi við umræður á fundinum.

8.Ósk um umsögn - Krókur, Gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi.

2111048

Lagt fram til umsagnar tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem tekur til Króks L170822 í Grimsnes- og Grafningshreppiu. Í breytingunni felst skilgreining iðnaðarsvæðis á Folaldahálsi fyrir gufuaflsvirkjun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 17. desember n.k.
Bæjarráð harmar að ekkert tillit skuli hafa verið tekið til harðra mótmæla Hveragerðisbæjar við áform um virkjun á Folaldahálsi sem lögð voru fram við skipulags- og matslýsingu umræddrar framkvæmdar í lok árs 2020.

Bæjarráð telur að hið stórbrotna landslag og fjölbreytni í jarðfræðilegri gerð sé dýrmæt auðlind fyrir framtíðarkynslóðir. Almannahagsmunir hljóta að liggja miklu frekar í verndun svæðisins en röskun þess til minniháttar orkunýtingar. Bæjarráð mótmælir því harðlega þessum fyrirhuguðu áformum um leið og erindinu er vísað til Skipulags- og mannvirkjanefndar til umsagnar.

9.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2022 ásamt þriggja ára áætlun 2023-2025 og tekjuforsendum ársins 2022.

2111046

Lögð fram fjárhagsáætlun Hveragerðis 2022 ásamt þriggja ára áætlun 2023-2025 og tekjuforsendum ársins 2022.
Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2022 ásamt þriggja ára áætlun 2023-2025 og tekjuforsendum ársins 2022 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

10.Fundargerð NOS frá 2. nóvember 2021.

2111036

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands frá 27. október 2021.

2111037

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Fundargerð SASS frá 8. október 2021.

2111038

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

13.Fundargerð Héraðsnefndar Árnesinga frá 25. október 2021.

2111047

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:01.

Getum við bætt efni síðunnar?