Fara í efni

Bæjarráð

773. fundur 04. nóvember 2021 kl. 08:00 - 09:30 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson formaður
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Aldís Hafsteinsdóttir Gestur
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Eyþór H. Ólafsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá 29. október 2021.

2111004

Í bréfinu er fjallað um minningardag Sameinuðu þjóðanna um fórnarlömb umferðaslysa sem haldinn verður sunnudaginn 21. nóvember 2021, dagurinn er jafnan haldinn þriðja sunnudag í nóvember til að heiðra minningu allra þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.
Bæjarráð vill taka undir þær þakkir sem fram koma í bréfinu til þeirra starfsstétta sem annast björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verða. Dagurinn í ár er helgaður notkun bílbelta og vill bæjarráð nota þetta tækifæri til að hvetja alla til að nota það sjálfsagða öryggistæki og ekki síður muna eftir því að börn eiga skilyrðislaust að nota öryggisbúnað í bílum sem hentar þeirra aldri.

2.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 7. október 2021.

2111012

Í bréfinu er fjallað um þáttöku og framlög til stafræns samstarfs sveitarfélaga árið 2022.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að Hveragerðisbær verði þátttakandi í verkefnum sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu. Kostnaður vegna þátttökunnar byggir á fjölda íbúa og nemur kr. 1.867.797,- árið 2022.

3.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 2. nóvember 2021.

2111016

Í bréfinu kemur fram að á fundi Sambandsins þann 29. október sl. var fjallað um þau verkefni sem framundan eru við innleiðingu hringrásarkerfisins og bókaði stjórnin hvatningu til sveitarstjórna landsins til að hefja nú þegar undirbúning fyrir gildistöku lagabreytinga um hringrásarhagkerfi sem taka gildi 1. janúar 2023.
Bæjarráð fagnar frumkvæði og þeirri vinnu sem innt hefur verið af hendi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi þau verkefni á sviði úrgangsstjórnunar sem kynnt eru í bréfinu. Bæjarráði er ljóst að úrgangsstjórnun er mikilvægur málaflokkur sem sveitarfélög verða að gefa mun meiri gaum á næstu árum heldur en hingað til hefur verið gert. Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar til kynningar og umfjöllunar.

4.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 2. nóvember 2021.

2111015

Í bréfinu kemur fram að á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 29. október 2021 var lögð fram ályktun bæjarráðs Árborgar frá 30. september 2021, þar sem skorað er á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að beita sér fyrir fullri viðurkenningu ríkisvaldsins á leikskólastiginu sem menntastofnun með því að ríkisvaldið skilgreini sveitarfélögum tekjustofn til að standa straum af kostnaði við rekstur leikskóla frá lokum fæðingarorlofs. Jafnframt þarf að tryggja leiðir til að fjármagna þjónustu við fötluð börn á leikskólum og þau börn sem hafa annað móðurmál en íslensku, t.d. með jöfnunarframlögum.
Bæjarráð tekur undir þá hugmynd að haldið verði málþing þar sem rætt verði um framtíðarsýn fyrir leikskólastigið.

5.Bréf frá Brunabótafélagi Íslands frá 22. október 2021.

2110134

Í bréfinu er kynnt ágóðahlutagreiðsla EBÍ árið 2021 en Hveragerðisbær fær kr. 1.068.300.-
Lagt fram til kynningar

6.Bréf frá Menntamálastofnun frá 20. október 2021.

2111011

Í bréfinu kemur fram að Menntamálastofnun mun láta gera ytra mat á leikskólum árið 2022, sbr. lög nr. 90/2008 um leikskóla og gildandi reglugerðir um mat og eftirlit og auglýsir eftir sveitarfélögum sem hafa áhuga á því að fram fari ytra mat á starfi leikskóla innan þeirra, bæði þeirra sem reknir eru af sveitarfélaginu og öðrum aðilum.
Bæjarráð samþykkir að óskað verði eftir ytra mati á báðum leikskólum bæjarfélagsins.

7.Bréf frá Mannvit frá 17. september 2021.

2111010

Í bréfinu er fjallað um tillögu að nýrri Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2021-2032 sem tekur til starfssvæðis fjögurra sorpsamlaga og 32 sveitarfélaga á suðvestuhluta landsins.
Bæjarráð tekur undir flest þau meginsjónarmið sem fram koma í tillögu að nýrri Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2021-2032 og gerir ekki athugasemdir við áætlunina. Þó vill bæjarráð koma því á framfæri að gera mætti því hærra undir höfði að mikilvægt er að ráðist verði að rót úrgangsvandans með öllum tiltækum ráðum sem er óhófleg myndun úrgangs.

Með aukinni fræðslu og meðvitund almennings um hóflegri neysluvenjur, endurnýtingu og endurvinnslu má án vafa minnka til muna það magn úrgangs sem þarf meðhöndlun og/eða förgun. Samræmd flokkun á Íslandi þar sem áhersla er lögð á hreina úrgangsstrauma einfaldar kynningu og ætti að bæta flokkun og þar með ætti að draga úr nauðsyn á dýrum lausnum.

Við ákvörðun um kostnaðarsamar leiðir til meðhöndlunar úrgangs er brýnt að ávallt verði leitað hagkvæmustu leiða og horft til framtíðar hvað varðar tæknilausnir sem þróast nú afar hratt í síbreytilegum heimi.

8.Bréf frá Rangárbökkum ehf frá 22. september 2021.

2110146

Í bréfinu óska Rangárbakkar ehf eftir styrk frá Hveragerðisbæ vegna undirbúningsvinnu við Landsmót hestamanna sem haldið verður á Rangárbökkum við Hellu dagana 4.-10. júlí 2022.
Því miður sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu.

9.Bréf frá Aðalleið ehf frá 23. október 2021.

2110136

Í bréfinu fjallar verktakinn Aðalleið ehf um eftirlit verkkaupa með vinnu verktaka við 3.ja áfanga gatnagerðar í Kambalandi.
Lagt fram til kynningar en eftirlitsmaður verkkaupa og byggingafulltrúi munu ræða erindið betur við verktaka og þá sérstaklega fullyrðingar um tímasetningar verkeftirlits.

10.Minnisblað frá byggingarfulltrúa - Loftræsting í Grunnskólanum í Hveragerði .

2110145

Lagt fram minnisblað frá byggingarfulltrúa frá 26. október 2021 þar sem hann leggur til að farið verði í umtalsverðar úrbætur og að loftræstikerfi skólans verði klárað.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að nú þegar verði ráðist í hönnun og útboð loftræsisamstæðu í 10 eldri kennslustofum skólans ásamt miðrými og vesturenda skólans í samræmi við tillögur í minnisblaðinu. Kostnaði við verkið vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

11.Minnisblað frá bæjarstjóra - bílastæði á Árhólmum.

2111005

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 1. nóvember 2021 vegna bílastæðis við Árhólma.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að Landformi ehf verði falið að hefja vinnu við staðsetningu og útfærslu nýs bílastæðis á Árhólmum sem rúmað gæti fleiri fólksbíla, stærri bíla og rútur með betri hætti en núverandi bílastæði gerir í dag. Jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að sjá til þess að nauðsynlegar breytingar á deiliskipulagi verði gerðar svo stækka megi bílastæðið eins fljótt og auðið er.

12.Minnisblað frá umhverfisfulltrúa - Breiðumörk 21.

2111006

Lagt fram minnisblað frá umhverfisfulltrúa frá 12. október 2021 þar sem hann fer yfir ástand hússins að Breiðumörk 21 með tilliti til notkunar þess við tilraunamatvælavinnslu.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að ekki verði ráðist í endurbætur á Breiðumörk 21 í ljósi þess mikla kostnaðar sem þær myndu fela í sér. Erindum vegna starfsemi sem þarfnast viðamikilla endurbóta á húsinu er því hafnað.

13.Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.

2110144

Óskað er eftir að nemandi með lögheimili í Hveragerði fái að stunda nám í Dalaskóla árið 2021-2022.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við umsækjendur.

14.Lóðaumsóknir Öxnalækur 1-3.

2110087

Lagðar fram lóðaumsóknir frá Litla tré ehf og Data Borealis ehf í lóðirnar Öxnalæk 1 og 3.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að Litla tré ehf verði úthlutað lóðunum Öxnalæk 1 og 3 enda uppfylli fyrirtækið skilyrði fyrir úthlutun lóða og fylgi þeim reglum sem um úthlutun gilda. Fyrirtækið hefur hug á að reisa á lóðunum einingaverksmiðju þar sem um 10-15 störf myndu verða til. Varðandi umsókn Data Borealis um lóð fyrir gagnaver þá felur bæjarráð bæjarstjóra að ræða betur við umsækjanda um aðra möguleika á staðsetningu versins.

15.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24. september 2021.

2111013

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

16.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 29. október 2021.

2111014

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 09:30.

Getum við bætt efni síðunnar?