Fara í efni

Bæjarráð

767. fundur 15. júlí 2021 kl. 08:00 - 10:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Eyþór H. Ólafsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu frá 8. júlí 2021.

2107008

Í bréfinu tilkynnir ráðuneytið að verkefnið "Hringrásarhagkerfið í Hveragerði - bættir innviðir" hljóti styrk að upphæð 3.200.000.kr.
Bæjarráð fagnar því að verkefnið skuli hafa hlotið umræddan styrk. Verkefnið felst í að setja upp flokkunarstöð á hentugum stað í Hveragerði til að tryggja enn betri flokkun úrgangs frá heimilum og þar með auka og bæta endurvinnslu í samfélaginu. Fylgst verður náið með úrgangsmagni sem kemur frá flokkunarstöðinni sem og á gámasvæði bæjarins en einnig frá tunnum við heimili. Bornar verða saman magntölur að ári liðnu og mat lagt á hvort aðgerðin reynist árangursrík til betri meðhöndlunar á úrgangi. Umhverfisfulltrúa falinn undirbúningur að uppsetningu flokkunarstöðvarinnar.

2.Bréf frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu frá 9. júlí 2021.

2107013

Í bréfinu tilkynnir ráðuneytið að umsókn Hveragerðisbæjar um styrk vegna framkæmda við fráveitur frá árunum 2020 og 2021 hefur verið samþykkt.
Bæjarráð fagnar því að fráveituframkvæmdir sveitarfélaga skuli enn á ný njóta styrkja frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eftir langt hlé og þakkar það framlag sem fellur í skaut Hveragerðisbæjar. Bæjarráð felur umhverfisfulltrúa að hafa umsjón með að veittur styrkur verði sóttur í samræmi við reglur þar um.

3.Bréf frá Reykjadalsfélaginu frá 6. júlí 2021.

2107005

Í bréfinu óskar Reykjadalsfélagið eftir leyfi til að setja upp hestagerði á lóð Hveragerðisbæjar við Árhólma.
Bæjarráð samþykkir erindið enda er þarna um afturkræfa og minniháttar framkvæmd að ræða.

4.Bréf frá Kambagili ehf frá 5. júlí 2021.

2107004

Í bréfinu óskar félagið Kambagil ehf eftir leyfi til að setja upp tvær samhliða Zip-línur í landi Hveragerðisbæjar auk útsýnispalls við Svartagljúfur.
Bæjarráð fagnar þeim hugmyndum sem fram koma í erindinu og telur að þær geti orðið mikið aðdráttarafl í bæjarfélaginu. Bæjarráð samþykkir að fela Skipulags- og mannvirkjanefnd að vinna að nauðsynlegu skipulagi í samræmi við skipulagslýsingu sem fylgdi með erindinu svo hugmyndin geti orðið að veruleika fyrir sumarið 2022. Bæjarráð telur jafnframt rétt að fela bæjarstjóra að gera drög að samningi við fyrirtækið varðandi umsvif þess á þessum stað og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar þegar skipulagsvinnan er komin á rekspöl.

5.Bréf frá íbúum í Axelshúsi í Ölfusi og Laugaskarði 2 í Hveragerði frá 9. júlí 2021.

2107014

Í bréfinu vilja íbúar og eigendur Axelshúss í Ölfusi og Laugaskarðs 2 í Hveragerði koma á framfæri athugasemdum við framkvæmd flugeldasýningar á Blómstrandi dögum.
Bæjarráð veit af þeirri umræðu sem á undanförnum árum hefur verið um staðsetningu flugeldaskotpalla ofan við Lystigarðinn Fossflöt á Blómstrandi dögum. Það er ljóst að nálægðin við nærliggjandi hús en ekki síður við mannfjöldann sem fylgist með getur skapað hættu sem rétt er að bregðast við. Því samþykkir bæjarráð að flugeldasýning Blómstrandi daga í sumar verði á Hamrinum ofan við Hlíðarhaga.

6.Hengill Ultra Trail 4.-6. júní 2021

2107023

Bréf frá skipuleggjendum Hengill Ultra Trail keppninni sem haldin var níunda árið í röð dagana 4. til 6. júní, þar sem þeir óska eftir fjárstuðningi og vinnuframlagi með sambærilegu móti og hefur verið síðustu ár.
Rétt er að geta þess að umrætt erindi barst ekki fyrr en í gær og því er það lagt fyrir fund í dag þrátt fyrir að dagsetning gefi annað til kynna.
Bæjarráð lýsir yfir mikilli ánægju með samstarfið við forsvarsmenn Hengils Ultra og fagnar þeirri uppbyggingu sem orðið hefur í kringum hlaupið. Það er ánægjulegt að sjá hversu fjöldi þátttakenda hefur aukist ár frá ári og ekki síður er ánægjulegt að verða vitni að ánægju þeirra sem eru þátttakendur í þessum risastóra íþróttaviðburði. Bæjarráð fagnar framtíðarhugmyndum mótshaldara varðandi framhald þessa verkefnis og hlakkar til áframhaldandi samstarfs enda er hlaupið góð kynning og lyftistöng fyrir bæjarfélagið. Bæjarráð samþykkir 1,2 m.kr. styrk til mótshaldara vegna hlaupsins sem að stærstu leyti rennur til Hjálparsveitar skáta í Hveragerði og Íþróttafélagsins Hamars vegna starfa þessara aðila við hlaupið. Ennfremur samþykkir bæjarráð að bæjarstjóra verði falið að gera samning við Hengil Ultra um áframhaldandi samvinnu aðila vegna þessa viðburðar. Útgjöldum verði mætt með liðnum sérstakri fjárveitingu bæjarstjórnar/bæjarráðs.

7.Lánasamningur - Lánasjóður sveitarfélaga.

2107006

Lagður fram lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga upp á 84. m. kr. lán.
Bæjarráð Hveragerðisbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 84.000.000, með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.
Bæjarráð samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármögununar á kaupum á framtíðarbyggingarlandi sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Aldísi Hafsteinsdóttur, kt. 211264-5009, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hveragerðisbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

8.Minnisblað vegna skráningar viðverutíma barna í frístundaheimilinu Skólasel.

2107007

Lagt fram minnisblað frá verkefnastjóra Bungubrekku frá 5. júlí 2021 þar sem hann óskar eftir breytingum á skráningu á viðverutíma í frístundaheimilinu Skólasel.
Bæjarráð samþykkir tillögurnar eins og þær eru hér settar fram og felur forstöðumanni Bungubrekku að kynna breytingarnar fyrir foreldrum tímanlega fyrir upphaf skólastarfs í haust.

9.Minnisblað frá bæjarstjóra - lausar kennslustofur við Leikskólann Óskaland.

2107019

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 13. júlí 2021 ásamt tilboðum í lausar kennslustofur frá tveimur aðilum, Terra og Stólpa Gámum.
Bæjarráð samþykkir að ganga til samninga við Stólpa Gáma á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Byggingafulltrúa er falið að fylgja málinu eftir en ljóst er að lausar kennslustofur munu koma upp í desember ef allt gengur samkvæmt áætlun.

10.Verðkönnun vegna - Lagning göngustíga við Kambahraun.

2107022

Opnun verðkönnunar "Lagning göngustíga við Kambahraun" fór fram 14. júlí 2021. Alls bárust fjögur tilboð í verkið.

Aðalleið ehf 3.877.000.kr
Sportþjónustan ehf 3.993.000.kr
Bokki Garðar ehf 4.177.000.kr
Hlíðarkot ehf 2.665.000.kr
Bæjarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda Hlíðarkots ehf.

11.Verkfundargerð frá 6. júlí 2021 - Grunnskólinn í Hveragerði.

2107015

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

12.Verkfundargerð frá 30. júní 2021 - Sundlaugin Laugaskarði.

2107016

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

13.Verkfundargerð frá 8. júlí 2021 - Sundlaugin Laugaskarði.

2107017

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

14.Fundargerð Byggðasafns Árnesinga frá 6. júlí 2021.

2107003

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

15.Fundargerð bygginganefndar Búðarstíg 22 frá 22. júní 2021.

2107002

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:00.

Getum við bætt efni síðunnar?